Ferðamál
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Frsm. minni hl. samgn. (Þorv. Garðar Kristjánsson):
    Herra forseti. Ég tek undir það sem hv. 4. þm. Austurl. sagði um mikilvægi ferðamálanna. Um það getur ekki verið ágreiningur. Hins vegar var ágreiningur í hv. samgn. sem fékk þetta frv. til meðferðar, eins og hv. 4. þm. Austurl. hefur þegar skýrt frá.
    Ég vil taka fram að ekki voru allir nefndarmenn viðstaddir þegar afgreiðsla málsins fór fram. Einn nefndarmann vantaði. Það var hv. 2. þm. Norðurl. e. ( EgJ: Mér láðist að geta þess.) Já, ég þóttist vita það og þess vegna hleyp ég undir bagga með það að hið rétta megi koma í ljós. ( EgJ: Ég þakka fyrir það.)
    Ég vil leyfa mér að fara með það nál. sem minni hl. samgn. stendur að, þ.e. sem ég stend að. Það er á þessa leið:
    ,,Á síðasta ári skipaði samgönguráðherra sérstaka nefnd til að endurskoða lög um ferðamál og marka stefnu í ferðamálum. Þar sem nefnd þessi situr að störfum telur minni hl. samgöngunefndar að ekki eigi að taka til afgreiðslu nú einstaka þætti málsins heldur eigi efni þessa frumvarps að koma til athugunar við þá heildarendurskoðun þessara mála sem nú fer fram.
    Með tilvísun til þessa er lagt til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Hér er tekið fram hvers vegna lagt er til að málinu sé vísað til ríkisstjórnarinnar. Það er vegna þess að slík mál eru til meðferðar í sérstakri nefnd um þessar mundir. Til að skýra þessa afstöðu nánar þykir mér rétt að víkja nokkrum orðum að þeim umsögnum um þetta frv. sem fram komu og lágu fyrir nefndinni. Sjö aðilar sendu umsagnir um þetta frv. Það er rétt sem hv. 4. þm. Austurl. sagði. Hann sagði: ,,Umsagnirnar voru ekki á einn veg.`` En þær voru á einn veg um það sem höfuðmáli skiptir. Enginn mælti með samþykkt þessa frv., enginn af þessum sjö aðilum. Skal ég nú víkja nánar að þessu.
    Fyrir nefndinni lá bréf frá borgarstjóranum í Reykjavík ásamt samþykkt eða umsögn sem borgarráð hafði gert um málið. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Frumvarpið fjallar um heimild sveitarstjórnar til þess að skipa ferðamálanefnd og hlutverk nefndarinnar. Frumvarpið gerir ráð fyrir skipun fimm eða sjö manna nefndar sveitarstjórnarmanna og þeirra sem starfa að ferðaþjónustu á svæðinu. Sveitarfélög kjósa fjölmargar nefndir til þess að vinna að tilteknum verkefnum án beinna lagaheimilda. Með þeim hætti hefur ferðamálanefnd verið kosin af borgarstjórn og verður ekki séð að skortur á lagaheimild hafi gert henni erfitt fyrir.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að starfi fleiri aðilar en í nefndina eru valdir að ferðamálum á svæðinu skuli þeir eiga rétt til setu á nefndarfundum með málfrelsi og tillögurétti. Það er nánast óframkvæmanlegt í jafnfjölmennu sveitarfélagi og Reykjavík að bjóða öllum hagsmunaaðilum þátttöku í störfum ferðamálanefndar.

    Athygli skal vakin á ákvæðum í frv. er lúta að skattlagningu ferðaþjónustunnar. Annars vegar er gert ráð fyrir að ferðamálanefnd sé heimilt að taka sanngjarnt gjald fyrir þá þjónustu sem hún veitir og hins vegar að nefndin geti innheimt framlög frá þeim sem ferðaþjónustu veita á svæðinu. Sveitarfélög hafa þegar tekjur af þeim fyrirtækjum sem stunda þjónustustörf á sviði ferðamála. Það virðist því fráleitt að fara að skattleggja þessi fyrirtæki umfram önnur.``
    Ég vík þá að umsögn frá Félagi leiðsögumanna. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á undanförnum árum hafa verið stofnaðar ferðamálanefndir og ferðamálasamtök sem sinnt hafa málefnum einstakra héraða eða sveitarfélaga. Þessar nefndir og samtök hafa unnið að framgangi ferðamála í samráði við Ferðamálaráð og aðra aðila í ferðamannaþjónustu. Hefur sú skipan mála gefist vel og þess vegna sjáum við ekki þörf á breytingu á þessum lögum.
    Félag leiðsögumanna hefur á undanförnum árum lagt áherslu á aukna menntun og faglega þekkingu sinna félaga. Í námi leiðsögumanna hefur verið leitast við að gera öllum landsvæðum góð skil þar sem ferðamannahópar fara víða um í ferðum sínum. Auk þess hefur verið gerð krafa um málakunnáttu þeirra sem taka að sér leiðsögn. Einnig hafa verið menntaðir leiðsögumenn til að starfa á afmörkuðum svæðum. Félag leiðsögumanna leggst eindregið gegn öllum tilslökunum á menntunarkröfum þeirra sem taka að sér leiðsögustörf þar sem slíkt gæti skaðað framtíð ferðamannaþjónustu á Íslandi.``
    Ég vík þá að umsögn frá Ferðaþjónustu bænda. Ég skal taka fram að þessi umsögn hefur þá sérstöðu að afstaða Ferðaþjónustu bænda til frv. virðist óljós þar sem hjá hinum sex aðilunum er afstaðan ljós, andstæð frv. Ég sé ekki ástæðu til þess að vitna mikið í þetta bréf sem er að sjálfsögðu ágætis bréf. Það hefst þannig, með leyfi forseta: ,,Það er nauðsynlegt að heimamenn verði virkir í skipulagningu ferðamála á sínum svæðum. Þetta verður æ meira aðkallandi eftir því sem ferðamönnum fjölgar.``
    Afstaða Ferðaþjónustu bænda er óljós eins og ég sagði, en ég ætla að frekar mætti þó segja að hún væri jákvæð.
    Kem ég þá að Náttúruverndarráði. Í bréfi frá Náttúruverndarráði segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: ,,Þar sem nefnd undir forsæti Hjörleifs Guttormssonar alþingismanns vinnur að endurskoðun laga um ferðamál og stefnumörkun í ferðamálum telur Náttúruverndarráð ekki eðlilegt að fjalla um einstaka þætti ferðamálastefnu á þessu stigi og leggur til að frv. verði vísað til nefndarinnar.``
    Ég held þessari yfirferð áfram og kem þá næst að Félagi ísl. ferðaskrifstofa. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: ,,Sveitarstjórnir hafa á undanförnum árum skipað ferðamálanefndir án þess að sérstök heimild væri til þess í lögum og því ekki sjáanlegt að nauðsyn beri til að breyta lögunum hvað þetta varðar. Sama gildir um ferðamálasamtökin sem nú eru starfandi í öllum kjördæmum landsins og eiga aðild að

Ferðamálaráði.`` Síðar segir í þessu bréfi: ,,Stjórn félagsins mótmælir harðlega þeim hugmyndum sem fram koma í frv. um sérstaka heimild ferðamálanefnda til gjaldtöku af ferðamönnum og þeim aðilum sem sinna ferðaþjónustu á svæðinu. Ekki er verið að mótmæla sanngjarnri greiðslu fyrir veitta þjónustu eins og t.d. fyrir afnot af tjaldsvæði eða gistingu. Þarf ekki lagaheimild til slíkrar gjaldtöku.`` Þá segir að lokum í þessu sama bréfi Félags ísl. ferðaskrifstofa: ,,Nú er starfandi nefnd sem samgrh. skipaði m.a. til þess að gera tillögur til breytinga á gildandi lögum um ferðamál. Er stefnt að því að nefndin ljúki störfum haustið 1990. Ef vilji er til þess að veita þeim hugmyndum sem fram koma í frv. brautargengi mælir stjórn FÍF eindregið með því að frv. verði vísað til þessarar nefndar ásamt fram komnum athugasemdum svo hún geti haft það til hliðsjónar í störfum sínum.``
    Fyrir nefndinni lá líka umsögn frá Ferðamálaráði Íslands. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: ,,Sveitarstjórnir hafa á undanförnum árum skipað ferðamálanefndir til þess að vinna að framgangi ferðamála. Ekki er sjáanlegt að nauðsyn beri til að breyta lögunum til að heimila skipan slíkra nefnda. Vera má þó að slík heimild í lögum verki hvetjandi og geti þannig verið til bóta.`` Síðar segir í sama bréfi: ,,Fyrr á þessu ári skipaði samgrh. nefnd sem m.a. á að gera tillögur til breytinga á gildandi lögum um ferðamál. Nefndin mun ljúka störfum haustið 1990. Ferðamálaráð mælir með því að frv. verði vísað til þeirrar nefndar svo að hún geti haft það til hliðsjónar í umfjöllun sinni.``
    Loks barst hv. samgn. umsögn frá Sambandi veitinga- og gistihúsa. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: ,,Ekki er okkur ljós nauðsyn þess að setja í lög heimildarákvæði um ferðamálanefndir sveitarstjórna. Það eru nú þegar starfandi ferðamálanefndir á vegum ýmissa sveitarstjórna úti um land og eru þær trauðla starfandi í trássi við lög landsins.`` Síðar segir í sama bréfi Sambands veitinga- og gistihúsa: ,,SVG mótmælir mjög eindregið því ákvæði að nefndirnar geti innheimt framlög frá þeim sem ferðaþjónustu veita á svæðinu.`` Enn fremur segir í sömu umsögn: ,,Hvað varðar gjaldtöku af ferðamönnum bendum við flm. á 36. gr. núgildandi laga, en þar er kveðið á um heimild ráðherra til að ákveða gjaldtöku að fenginni umsögn Ferðamálaráðs. Ísland er mjög dýrt ferðamannaland og frekari gjaldtaka af ferðamönnum því óraunhæf auk þess sem slíkt yrði mjög dýrt í framkvæmd. Við lestur greinargerðarinnar sem fylgir frv. kemur í ljós að tilgangurinn með flutningi þess er að efla ferðamannaþjónustu. Aukin skattheimta og gjaldtaka af ferðamönnum er skringileg viðleitni í þá átt. SVG bendir á að nefnd er starfandi á vegum samgrn. undir stjórn Hjörleifs Guttormssonar sem m.a. er að endurskoða lög um skipulag ferðamála.``
    Ég hef rakið nokkuð ítarlega helstu atriði í umsögnum sem nefndin fékk um þetta frv. Ég geri það vegna þess að afstaða mín, sem fram kemur í nál. minni hl. hv. samgn., byggist á þessum umsögnum.

Og ég geri það líka til þess að vekja athygli á því sem mér finnst og er að það sé heldur óeðlilegt og heldur óvenjulegt að ein þingnefnd afgreiði mál í svo afgerandi andstöðu við svo marga hagsmuna- og áhugaaðila að því máli sem um er að ræða.
    Hv. 4. þm. Austurl. skýrði brtt. sem meiri hl. nefndarinnar leggur fram á þskj. 862. Ég hef að sjálfsögðu ekkert við hans skýringar að athuga en mér þykir rétt að láta í ljós þá skoðun mína að þessar tillögur, sem eru í þrem töluliðum og auk þess nokkrum bókstafsliðum, eru allar að mínu áliti nema ein harla léttvægar og ekki nauðsynlegar til þess að gera frv. sem hér um ræðir skiljanlegra. Þannig er um að ræða brtt. skv. 1. tölul. þar sem kveðið er á um að nýr tölul. bætist við 7. gr. svo sem þar er greint frá. Brtt. samkvæmt 2. tölul. a kann að hafa einhverja þýðingu en hún hefur ekki afgerandi þýðingu fyrir spurninguna um það hvort það eigi að samþykkja þetta frv. eða ekki. Í frv. sjálfu er talað um að í nefndinni skuli eiga sæti fimm til sjö menn en í brtt. er talað um að í nefndinni skuli eiga sæti fimm menn þegar hún er skipuð einu sveitarfélagi en sjö ef fleiri sveitarfélög eru aðilar að nefndinni. Mér sýnist að þetta sé ekki veigamikil brtt. og raunar að frv. hefði verið skýrt í þessum anda án brtt.
    Þá er b-liður 2. brtt. þar sem tekið er fram að nefndin skuli vinna að slíku í samráði og samstarfi við Ferðamálaráð. Það er brtt. sem er náttúrlega rökrétt og eðlileg miðað við efni frv. en breytir ekki eðli þess á einn eða annan hátt.
    Þá er c-liður 2. brtt. og það er skatturinn. Það er það sem er þýðingarmest og auðvitað þýðingarmikið og það er þetta eina atriði sem ég nefndi hér áður. Þessi brtt. felur í sér að fallið er frá heimildarákvæði í lögunum um skattlagningu. Sú brtt. er til bóta og mikilla bóta.
    Um 3. brtt. er það að segja að mér sýnist að sú brtt. hafi enga þýðingu og sé kannski vafasöm. Það er skotið inn eftir orðalagi um opinbera aðila sveitarfélögum og ferðamálanefndum, rétt eins og sveitarfélög séu ekki opinberir aðilar. Mér sýnist að þessi breyting sem felur þetta í sér sé til lýta, bæði skv. a- og b-lið.
    Ég skal nú ekki fjölyrða frekar um þessar brtt. Það er eins og ég sagði upphaflega að mér finnst þær allar léttvægar nema brtt. um það að falla frá heimild til gjaldtöku, sú brtt. er þýðingarmikil.
    Hv. 4. þm. Austurl. talaði um að frv. miðaði að því að auka valdsvið heimaaðila í ferðamálum. Á hann þá sjálfsagt við þar sem segir í upphafi 1. gr. frv.: ,,Heimilt er sveitarstjórn eða sveitarstjórnum sameiginlega að skipa ferðamálanefnd.`` En ég fæ ekki séð að með þessu sé nokkuð verið að auka valdsvið heimaaðila. Sveitarstjórnirnar hafa þessa heimild og geta hvenær sem er skipað sínar ferðamálanefndir og það eru ýmsir umsagnaraðilar sem taka þetta fram. Þetta er svo augljóst að ég held að það þurfi ekki að hafa sérstök
orð um þetta. Þá sagði hv. 4. þm. Austurl. að frv. ,,miðaði að því að dreifa valdi og styrkja áhrif hinna

dreifðu byggða`` eins og það var orðað. Ef þetta frv. er nú með öllu ástæðulaust og talað er um hluti til handa sveitarfélögum sem þau hafa rétt til þess að gera hvenær sem þeim þóknast þá fær maður ekki séð að þetta frv. ráði neinum sköpum um það að styrkja áhrif hinna dreifðu byggða. ( EgJ: Hver sagði að það réði sköpum um það?) Hv. þm. segir: ,,Hver segir að það réði sköpum?`` Ég skrifaði þetta niður orðrétt, þ.e. ummæli hv. þm., en það er alveg rétt hjá honum að hann sagði ekki að það réði sköpum. Hér stendur á blaði sem ég skrifaði að þetta væri til þess að dreifa valdi og styrkja áhrif hinna dreifðu byggða. En það var mín hugsun að þetta réði engum sköpum um stöðu hinna dreifðu byggða. Hvað er það sem ræður mestum sköpum fyrir hinar dreifðu byggðir? Er það ekki það að við dreifum sem mestu valdi til heimaaðila? Það er valddreifingin. Að ríkið sé ekki að fást við mál sem eru betur unnin og eru betur ráðin af heimamönnum með staðarþekkingu hverjum á sínum stað.
    Ef þetta er rétt þá er frv. sem hér liggur fyrir meira en vafasamt því að í því felst ekkert annað en afskiptasemi ríkisvaldsins um mál hinna dreifðu byggða, um mál sveitarstjórnanna. En það er í sjálfu sér meinlaust vegna þess að frv. er meiningarleysa af því að sveitarfélögin hafa þá heimild sem talað er um í frv. að veita þeim, þ.e. sveitarfélögin hafa heimild til þess að stofna ferðamálanefndir.
    Ég hef ekki lagt til að þetta frv. yrði fellt. Ég hef lagt til að það yrði skoðað nánar og það er í samræmi við umsagnir hagsmuna- og áhugasamtaka um ferðamál í landinu. Og mér virðist það harla einkennileg vinnubrögð að fara ekki þá leið vegna þess að það situr að störfum nefnd sem er að vinna að heildarendurskoðun þessara mála. Ég held að það mundi þjóna hagsmunum ferðaþjónustunnar í landinu betur að taka ekki þennan eina þátt út úr heldur að leysa þetta mál með tilliti til heildarlausnar samkvæmt þeirri endurskoðun sem nú fer fram.