Ferðamál
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Þar sem Kvennalisti á ekki fulltrúa í hv. samgn. og hafði ekki tök á að fylgjast með afgreiðslu þessa máls ætla ég aðeins að gera örfáar athugasemdir við 2. umr. málsins. Við höfum kynnt okkur þær umsagnir sem borist hafa og þær brtt. sem fyrir liggja á þskj. 862.
    Það er mjög ánægjulegt að sjá stöðugt fjölga í þeim hópi hv. þm. sem láta ferðamálin til sín taka því við eigum örugglega mikla möguleika í þessari atvinnugrein í framtíðinni og bindum við hana miklar vonir. Hér hefur orðið nokkur umræða um þetta mál og það er mjög af hinu góða að mínu mati. Það minntist einhver á það áðan að sú megintillaga sem felst í brtt. skipti ekki sköpum fyrir sveitarfélögin. Ég er sammála því en ég tel hins vegar að með því að setja þetta inn í lög geti það ef til vill vakið bæði sveitarfélögin og fólkið til vitundar um ferðamálin og mikilvægi þeirra og því sýnist mér meinlaust að hafa slíkt ákvæði í lögum um ferðamál.
    Það kom fram sú hugmynd í nál. minni hl. að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar í ljósi þess að ferðamálalög eru nú í endurskoðun hjá samgrn. Tel ég raunar ekki óeðlilegt að sú hugmynd komi upp en sé ekki ástæðu til þess að stöðva málið eða leggjast gegn því því að viðleitnin í frv. er jákvæð.
    Eins og ég sagði hef ég örfáar athugasemdir. Í fyrsta lagi vil ég benda á að í 9. og 10. lið 7. gr. er gert ráð fyrir samstarfi við einkaaðila og opinbera aðila samkvæmt núgildandi lögum. Samkvæmt mínum málskilningi eru sveitarfélög opinberir aðilar og því hefði ég talið að þau ættu að geta rúmast innan þessara hugtaka. Það er í sjálfu sér meinlaust þó þau séu nefnd sérstaklega og hefur visst gildi einmitt í því skyni að vekja sveitarstjórnir og fólkið til vitundar um þessi mál.
    Síðan vildi ég benda á 13. lið 7. gr. núgildandi laga þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Önnur þau verkefni sem Ferðamálaráði eru falin með lögum þessum eða á annan hátt.``
    Það er alveg ljóst að sá liður sem hér er lagt til að við bætist hefði átt að geta rúmast innan þessa töluliðar. Efni töluliðarins, sem nefndin leggur til að bætist við greinina, rúmast auðvitað innan núverandi 13. liðar. En, eins og í hinu tilvikinu, þ.e. með því að nefna sveitarfélögin, tel ég að þessi nýi liður sé alls ekki til skaða.
    Ég vil láta þess getið að b-, c- og d-liðir í 2. brtt. á þskj. 862 eru að mínu mati allir til bóta og reyndar tel ég þá meðferð alla sem frv. hefur hlotið í hv. nefnd hafa verið nauðsynlega og til bóta frá því sem upphaflega
var. Frv. í heild sinni er ef til vill óþarft en það er meinlaust og það er í besta falli hvetjandi til sveitarfélaga að sinna betur því sem gera þarf til uppbyggingar ferðamála á hverjum stað og til að koma í veg fyrir landspjöll.
    Það er því að sjálfsögðu ástæða til þess að taka jákvætt undir efni frv. og vil ég reyndar geta þess að

ég tel mjög mikilvægt að heimaaðilar á hverjum stað séu í beinum tengslum við þessa atvinnustarfsemi. Það er nú svo að allir landshlutar hafa reynt að stofna með sér ferðamálasamtök hver í sínum landsfjórðungi og það hefur verið viðleitni í þá átt að vinna sameiginlega að ferðamálunum. Það hefur mér þótt vera mjög gott og hef reyndar lagt fram brtt. við fjárlagagerð um að ferðamálasamtök landshlutanna fengju fjárveitingar til starfsemi sinnar þó ekki væri nema örlítil viðurkenning á því starfi sem þau vinna. Vil ég að endingu taka það fram að ég tel alls ekki skaðlegt að sveitarfélögum sé heimilt að stofna ferðamálanefndir. Þær hafa þá heimild að sönnu nú þegar og mörg sveitarfélög hafa stofnað ferðamálanefndir og unnið vel að uppbyggingu hver á sínu svæði. En eins og ég sagði áðan, þá skerpir þetta ef til vill á hugsun fólks varðandi þessi mál og hvetur það til þess að taka til hendinni í ferðamálum sem svo sannarlega er full þörf á.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að leggjast gegn þessu frv. og tek undir efni þess en hef uppi þessar vangaveltur blandaðar efasemdum.