Ferðamál
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Ég er einn af flm. frv. en var ekki viðstaddur þegar 1. umr. málsins fór fram í hv. deild en mér er sagt að þá hafi verið hin besta umræða þar sem flestir ræðumenn tóku undir eða voru meðmæltir frv. og töldu að hér væri verið að hreyfa góðu máli. Málið hefur verið til umfjöllunar í samgn. og eins og fram hefur komið hér í umræðunni komu sjö umsagnir um málið til nefndarinnar. Og eins og hefur líka verið upplýst í umræðunni voru þær flestar á þann veg að það var óskað eftir því að frv. yrði vísað til nefndar sem væri að störfum á vegum samgrh. til þess að undirbúa heildarstefnu um ferðamál.
    Svo einkennilega vill til að þessir aðilar sem sendu nefndinni umsögn munu flestir ef ekki allir vera beinir eða óbeinir aðilar að þessari framtíðarnefnd og þess vegna var það ekki óeðlilegt að þessir aðilar sendu hv. samgn. ósk um það að þetta mál fengi ekki venjulega umfjöllun hér á hv. Alþingi heldur yrði sent til þessarar nefndar sem hv. 4. þm. Vestf. sagði að væri að vinna að heildarendurskoðun, þetta væri mjög sérstök nefnd og yrði að ,,respektera`` hana á sérstakan máta. Það var ekki nema ósköp eðlilegt að þessir aðilar óskuðu eftir því að fá málið til sín ef verið gæti og sem sjálfsagt er að það væri gott innlegg í þeirra vinnu.
    Ég tel að okkur öllum sem fluttum frv. hafi verið vel kunnugt um þessa nefnd og hennar ágæta verk sem stóð þá yfir. Við erum ekki búnir að fá skil frá þessari nefnd enn inn á hv. Alþingi þó að það muni kannski dálítið nálægt því að vera komið hér til okkar. Það sem við vorum að hreyfa í frv. var á þann veg að við töldum nauðsynlegt að það væri algerlega skilið frá því sem verið var að fjalla um í framtíðarnefndinni, væru nauðsynlegir þættir til þess að styrkja ferðaþjónustu, hvetja til aukins samstarfs og hvetja sveitarstjórnirnar til þess að vinna að þessum málum
með því að vekja athygli á sérstökum ferðamálanefndum hjá sveitarstjórnunum. Einmitt af því að sveitarstjórnarkosningar eru á næstu dögum og sveitarstjórnir kjósa nefndir sveitarfélaganna eftir kosningarnar töldum við rétt að vekja athygli á þessu atriði. Vekja athygli á því hve nauðsynlegt það væri að sveitarstjórnirnar skipuðu sérstakar ferðamálanefndir. Það má auðvitað segja að hægt sé að gera þetta án þess að það komi nein hvatning frá Alþingi til þessa eða hins, en ekki er það verra. Ég get varla ímyndað mér að það sé verra að tekið sé fram í lögum að sveitarstjórnum sé heimilt og þar með komin tilætlun um það að þessir hlutir verði gerðir á vegum sveitarstjórna.
    Það kom fram í umsögnum að búið sé að stofna ferðamálanefndir í sumum sveitarfélögum og að ferðamálanefndir hafi verið stofnaðar á vegum landshlutasamtaka. Þetta er allt gott og rétt, en staðreyndin er sú að þó að búið sé að stofna ferðamálanefndir hjá landshlutasamtökunum eru þær mjög mismunandi virkar. Fyrsta ferðamálanefndin sem

stofnuð var var stofnuð hjá samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi og sú nefnd var virk í upphafi. Síðan, eins og oft vill verða, kom tímabil þegar nefndin tók ekki mikið á þessum málum þannig að þessi mál hafa gengið í áföngum en ekki samfelldri lotu því miður. Þess vegna teljum við nauðsynlegt að þetta sé víðar gert en á sviði samtakanna og að sveitarfélögin vítt um landið fari inn á þann vettvang að tilnefna fólk til þessara starfa, til þess að vinna að þessum málum hvert á sínu svæði.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja þessa umræðu. Bæði veit ég að hér var við 1. umr. fjallað um þessa tillögu og eins gerði hv. 4. þm. Austurl. ágætlega grein fyrir þessu máli hér í framsögu nefndarinnar.
    Mér finnst aftur ,,mjög sérstætt``, svo ég hafi alveg sömu orð og hv. 4. þm. Vestf. hafði um heildarendurskoðunina, að stjórnarandstöðuþingmaður leggi til á hv. Alþingi að máli sem þessu sé vísað til ríkisstjórnarinnar. Mér hefði fundist mikið eðlilegra að hv. þm. hefði hreinlega lagt til að þetta mál yrði fellt. (Gripið fram í.) Já, ég tek undir það að hæstv. ríkisstjórn ber að þakka þetta traust sem henni er sýnt og veitir ekki af. Sjálfsagt veitir henni ekki af eins og öllum þeim sem eru að vinna að góðum málum að fá stuðning eins margra góðra manna og mögulegt er. Að það sé lagt eins mikið á sig að mæla með slíkri tillögu eins og hv. þm. gerði hér í langri ræðu er mjög sérstætt. Mér fundust rök hans reyndar vera heldur léttvæg þegar til þess er hugsað að hann byggði rök sín á þeim umsögnum sem nefndinni bárust og þær umsagnir, eins og ég sagði áðan, eru fyrst og fremst frá aðilum sem eru þátttakendur í starfi þeirrar nefndar sem er að vinna að heildarendurskoðun ferðamála í landinu. Þaðan var því ekki hægt að búast við neinum skoðunum öðrum en þeim sem þar koma fram jafnvel þó að þeir aðilar hafi verið að ýmsu leyti, og sem reyndar kemur fram í umsögnumn þeirra, jákvæðir gagnvart aðalatriði málsins.
    Ég vil svo aðeins segja það að sjálfsagt verður það nál. sem kemur frá þessari framtíðarnefnd hið merkasta, en það verður ekkert annað en nál. sem síðan er eftir að fjalla um á hv. Alþingi. Og nú er komið að þeim tíma að ekki verða lögð fram fleiri mál á hv. Alþingi til afgreiðslu á þessu þingi þannig að greinilegt er að tillaga um ferðamálastefnu verður ekki afgreidd á þessu
þingi og jafnvel þó að svo hefði verið, einhver tillaga um stefnumörkun, hefði hún ekki náð inn á það sem við erum að leggja til með þessari tillögu. Til þess hefðu þurft að vera lög um ferðamálastefnu og breytingu á lögum eins og við leggjum hér til, ekki eins og búast má við að komi frá þessari nefnd, þál. um stefnumörkun sem getur verið góð og gild en gildir ekki á sama hátt og það lagafrv. eða breytingar á lögum sem við leggjum til að samþykkt verði með því frv. sem hér er til umræðu.
    Ég beini því til hv. þm. að þeir standi með okkur í því að koma þessu máli úr deildinni svo að Nd. geti fjallað um þetta mál og það verði að lögum áður en

þingi lýkur í vor.