Ferðamál
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Margrét Frímannsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég kem hér aðeins til þess að lýsa stuðningi mínum við nál. frá minni hl. samgn. sem liggur fyrir á þskj. 854 og taka að fullu undir þau sjónarmið sem þar koma fram. Það er áreiðanlega rétt hjá hv. þm. Skúla Alexanderssyni að flestir ræðumenn hafa hér í hv. Ed. verið meðmæltir frv. við 1. umr. Það er í sjálfu sér eðlilegt því hver er á móti því að hvetja sveitarstjórnir til þess að vinna betur að ferðamálum hver á sínu svæði? Uppbygging ferðaþjónustu hefur verið nokkurn veginn skipulagslaus, en nú hefur samgrh. hins vegar skipað nefnd sem á að endurskoða þau lög sem hér eru til umræðu og marka stefnu í ferðamálum, eins og kom fram í nál. hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar. Þessi nefnd er nú að skila tillögum sínum til hæstv. samgrh. og því næst munu þær tillögur koma til umræðu hér inni á hv. þingi. Þar höfum við tækifæri til að koma inn ákvæði um hlutverk sveitarstjórna í þessum efnum. Sveitarstjórnir hafa í dag heimild til að skipa nefndir er sjái um stefnumörkun í ferðamálum, hver á sínu svæði. Þó er betra að umfjöllun og ákvarðanir séu teknar í samræmi við heildarlöggjöf og stefnu þar um.
    Ég vil svo aðeins segja það að vissulega er gott að leggja hér fram frv. til laga sem veitir sveitarstjórnum heimild eða festir í lögum heimild til sveitarstjórna til að framkvæma eða móta stefnu. En slík heimild er í dag til staðar. Ég get ekki séð að það sé nokkuð sem bannar sveitarstjórnum að skipa nefndir sem fjalla um ferðamál. Hvað varðar þá breytingu sem meiri hl. samgn. leggur til þar sem segir: ,,Heimilt er sveitarstjórn, eða sveitarstjórnum sameiginlega, að skipa ferðamálanefnd. Í nefndinni skulu eiga sæti fimm menn þegar hún er skipuð af einu sveitarfélagi en sjö menn ef fleiri sveitarfélög eiga aðild að nefndinni. Nefndin kýs sér formann. Nefndinni er heimilt að kalla til sín áheyrnarfulltrúa sem tengjast ferðamálum þegar ástæða þykir til,,, þá eru allar þessar heimildir til staðar og áreiðanlega ekki til sá sveitarstjórnarmaður sem ekki hefur litið á þetta sem sjálfsagðan hlut sem óþarfi er að festa með lögum. Svo vil ég aðeins spyrja: Ef til kemur að menn verða sammála um að festa þetta hlutverk sveitarstjórna í lögum, er þá ekki frekar ástæða til að sú breyting verði á sveitarstjórnarlögum þar sem ákvæði og upptalning um hlutverk sveitarstjórna eru og samræma það síðan lögum um skipulag ferðamála?