Ferðamál
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Frsm. minni hl. samgn. (Þorv. Garðar Kristjánsson):
    Herra forseti. Ég hef kannski ekki svo miklu að svara í þeim ágætu umræðum sem hér hafa farið fram. Aðeins eru þó nokkur atriði. Ég vil byrja á því að þakka hv. 4. þm. Suðurl. fyrir að hafa komið svo beint og skýrt að kjarna þessa máls eins og hún gerði í ræðu sinni hér áðan. Það voru einmitt slík viðhorf sem ég átti von á að kæmu fram hjá mönnum almennt hér í deildinni. Þó þau hafi ekki komið fram í umræðunum koma þau væntanlega fram í atkvæðagreiðslu um málið.
    Í fyrri ræðu minni ræddi ég, ef svo mætti komast að orði, um báðar hliðar þessa máls, þ.e. um formhliðina og efnishliðina. Nú vil ég aðeins segja það um formhliðina að ég lagði ekki í nál. mínu neitt annað til en sem varðar formhliðina, þ.e. að þessu máli yrði vísað til ríkisstjórnarinnar. Til stuðnings þeirri tillögu lagði ég áherslu á umsagnir þeirra aðila sem nefndin kaus að vísa málinu til. Nú hefur verið sagt að lítið mark væri takandi á þessum umsagnaraðilum vegna þess að það vildi svo til að þessir sömu umsagnaraðilar hefðu fulltrúa í endurskoðunarnefndinni sem er að fjalla um þetta mál á vegum ríkisstjórnarinnar. Mér var ekki ljóst að þetta væri svo. En ég kemst að þveröfugri niðurstöðu við þá sem segja að ekki sé mark á þessu takandi, því ég geng út frá því að þeir sem hafa verið skipaðir í endurskoðunarnefndina séu menn sem hafi vit á þessum málum, séu kunnugir þessum málum og sé best treystandi til að tjá sig um þessi mál. Frá því sjónarmiði er náttúrlega rík ástæða til að taka mark á þessum mönnum.
    Þá sagði hv. 4. þm. Vesturl. að það væri einkennilegt eða skyti skökku við að stjórnarandstöðuþingmaður gerði till. um að vísa máli til ríkisstjórnarinnar. Mér sýnist að svona fullyrðingar beri vott um að lítið sé um rök af hálfu hv. þm. í þessu máli. Þessi hv. þm. veit jafn vel og ég að það eru nokkur mismunandi form á því hvernig þingið afgreiðir mál. Þingið getur
samþykkt þingmál, þingið getur fellt þingmál og þingið getur vísað máli til ríkisstjórnarinnar. Það fer ekkert eftir því hvort menn tilheyra stjórn eða stjórnarandstöðu hvað þeir velja í þessu efni. Það fer eftir málefninu sem um er að ræða. Hv. 4. þm. Vesturl. þarf ekkert að óttast að ég sé að gerast einhver stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar þó ég leggi til að málinu sé vísað til ríkisstjórnarinnar. Hann þarf ekkert að óttast um það. Það væri ekki mikill stuðningur við ríkisstjórnina, jafnvel þó það væri eitthvað meira en hjá hv. 4. þm. Vesturl.
    Hv. 4. þm. Austurl. vék einnig að haldleysi þess sem felst í umsögnum þeirra aðila sem leitað var umsagnar hjá vegna þess að þeir væru í endurskoðunarnefndinni. En það er sama hvort hv. 4. þm. Vesturl. eða hv. 4. þm. Austurl. halda slíku fram, það er hvort tveggja jafnfráleitt, eins og ég hef þegar bent á. Það er auðvitað allt rétt sem hv. 4. þm.

Austurl. sagði um einstakar nefndir og gildi þeirra og starfssvið sem hann nefndi hér áðan í ræðu sinni. En það breytir ekki því sem er höfuðatriðið í þessu máli ef við tölum um efnishlið þess.
    Þá kem ég að efnishliðinni, aðeins örfá orð. Efnishliðin er sú að þetta frv. kveður á um að heimila sveitarstjórnum að tilnefna nefndir í ferðamálum. Það er meginefni frv. Það er upplýst og allir viðurkenna að þetta þarf ekki að lögfesta til þess að sveitarstjórnir geti skipað nefndir í ferðamálum. Það eru allir sammála um þetta og enginn neitar því. Það neitar heldur enginn þeirri staðreynd að mörg sveitarfélög hafa tilnefnt nefndir í ferðamálum án þess að þessi lagaheimild væri fyrir hendi. Því neitar heldur enginn. Það er meginatriði og efnisatriði þessa máls að verið er að gera till. um það sem er óþarft, till. um að veita sveitarstjórnum heimild sem sveitarstjórnirnar hafa fyrir.
    Þessu verður kannski best lýst með þeirri afstöðu sem kom fram í máli hv. 6. þm. Vesturl. Hv. 6. þm. Vesturl. viðurkennir staðreyndir í þessu máli. Hún sagði að frv. vekti fólk til vitundar um mikilvægi ferðamálanna og það væri meinlaust, eins og hún orðaði það. ( EgJ: En jákvætt.) Jákvætt en meinlaust, viðleitnin væri jákvæð. Þessi sami þingmaður kom inn á það sem ég hafði áður komið inn á, að afkáralegt væri að ganga út frá því að sveitarstjórnir væru ekki opinberir aðilar. Hún komst svo að orði að það væri meinlaust að gera það. Hv. 6. þm. Vesturl. sagði að frv. væri e.t.v. óþarft. Hún orðaði það með þessum orðum. Væri e.t.v. óþarft en það væri meinlaust.
    Ef við ætluðum hér á hv. Alþingi að fara að starfa þannig að bera fram frv. sem eru markleysa eins og þetta frv. er frá því sjónarmiði að ekki þarf að veita sveitarfélögum þá heimild sem um er að ræða, þá gætum við mjög aukið fjölda þingmála. Það gæti vakið athygli á þeim málum og mætti segja að það væri meinlaust. En það eru ekki vinnubrögð sem eru að mínu viti eðlileg eða við ættum að fara að taka upp.