Almannatryggingar
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 67/1971, með síðari breytingum, sem er frv. til laga á þskj. 889. Meðflutningskona mín er Danfríður Skarphéðinsdóttir.
    Þetta frv. felur í sér einfalda en að okkar mati sjálfsagða breytingu á lögum um almannatryggingar, nánar tiltekið á lögum um fæðingarorlof. Það varðar sérstaklega þær konur sem ala fleirbura, tvíbura eða þaðan af fleiri börn, og miðar að því að gefa þeim færi á hvíld sem vanalega er ráðlögð af fæðingarlæknum á meðgöngutíma þegar mest hætta er á að börnin fæðist fyrir tímann.
    Konum sem ganga með fleirbura er hættara við fyrirburafæðingum en þeim konum sem ganga með eitt barn. Reynslan sýnir að hættast er við fyrirburafæðingu á tímabilinu frá 30. viku og fram til 35. viku meðgöngunnar.
    Þeim sið hefur verið fylgt á kvennadeild Landspítalans til margra ára að hvetja konur til að hætta vinnu þetta tímabil til þess að minnka þessa áhættu. Í mörgum tilvikum hafa konur verið lagðar inn á meðgöngudeild ef þær hafa fengið fyrirvaraverki á þessu hættuskeiði.
    Við Íslendingar höfum getað státað okkur af því að hér á landi er ein lægsta tíðni burðarmálsdauða sem um getur í heiminum. Bætt heilsufar, góður aðbúnaður og árvekni í eftirliti og meðferð barnshafandi kvenna eru án efa veigamiklir þættir í þeirri lækkun sem orðið hefur á tíðni burðarmálsdauða hér á landi á sl. tveim áratugum. Á árunum 1985--1989, að báðum árunum meðtöldum, urðu 20.917 fæðingar hér á landi en 177 börn fæddust andvana eða dóu á fyrstu viku eftir fæðingu. Burðarmálsdauði er skilgreindur sem dauði barna í fæðingu eða á fyrstu vikunni eftir fæðinguna. Burðarmálsdauði á þessum árum varð því hjá 6,9
af hverjum 1000 börnum og má telja að það sé með því lægsta sem gerist í heiminum.
    Í lögum um fæðingarorlof, nr. 57/1987, er reyndar kveðið á um rétt barnshafandi konu til fæðingarstyrks ef hún þarf að leggja niður störf fyrir áætlaðan fæðingartíma af heilsufars- og öryggisástæðum. Í 7. málsgr. 2. gr. þeirra laga segir, með leyfi forsta: ,,Sé barnshafandi konu nauðsynlegt af heilsufars- eða öryggisástæðum að leggja niður störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingartíma barns skal hún eiga rétt til fæðingarstyrks þann tíma, þó aldrei lengur en í 60 daga, enda verði ekki við komið breytingum á starfsháttum hennar eða tilfærslu í starfi. Tryggingayfirlæknir skal meta hvort þörf er fyrir hendi samkvæmt ákvæði þessu.`` Svipað ákvæði gildir reyndar einnig um rétt til greiðslu fæðingardagpeninga. En eins og hv. þm. vita er fæðingarorlofi skipt niður í greiðslu fæðingarstyrks og að auki fæðingardagpeninga fyrir þær konur sem vinna utan heimilis.
    Í 3. tölul. 2. gr. reglugerðar um fæðingarorlof, nr. 20/1989, er nánar kveðið á um þær heilsufars- og

öryggisástæður sem geti leitt til framlengingar fæðingarorlofs, en þar segir, með leyfi forseta: ,,Fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni, skv. vottorði læknis.``
    Reynslan sýnir að um 40 tvíburafæðingar verða hérlendis á hverju ári að meðaltali. Þríburar fæðast hér annað eða þriðja hvert ár og fjórburar hafa fæðst tvisvar hér á landi svo að vitað sé. Hér er því ekki um mjög stóran hóp að ræða en nauðsynlegt er að tryggja öryggi þessara barna eins og best verður á kosið og í samræmi við þær kröfur sem fæðingarlæknar telja við hæfi.
    Bæði ákvæði laganna og reglugerðarinnar gætu gilt um konur sem ganga með fleirbura. Þau eru hins vegar túlkunum háð og til þess að taka af allan vafa þykir rétt að setja sérstök ákvæði inn í lögin sem einungis varða þær konur sem ganga með fleirbura.
    Þær breytingar sem við við leggjum til að gerðar verði á almannatryggingalögunum eru tilgreindar í 1. og 2. gr. þessa frv. og eru svohljóðandi, með leyfi forseta:
    1. gr. hljóðar svo: ,,Á eftir 1. málsl. 5. mgr. 16. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 59/1987, bætist nýr málsliður svohljóðandi: Þó skal kona, sem gengur með fleiri en eitt barn, eiga rétt á fæðingarstyrk í einn mánuð að auki fyrir fæðingu barnanna.``
    Og í 2. gr. segir: ,,Við e-lið 26. gr. laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 59/1987, bætist nýr málsl. svohljóðandi: Kona, sem gengur með fleiri en eitt barn, skal eiga rétt á einum mánuði að auki fyrir fæðingu barnanna.``
    Í 3. gr. segir svo: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Eins og ég sagði, hæstv. forseti og hv. þm., því við erum ekki fleiri hér nú, er hér um að ræða í raun afar einfaldar breytingar en að sama skapi mjög sanngjarnar og í samræmi við þá ráðleggingu sem konum sem ganga með fleirbura er jafnaðarlega gefin til þess að draga úr hættu fyrir þær og þau börn sem þær ala. Ég legg því til að hv. þm. komi sér saman um að styðja velferð þessara barna eins og annarra og gefa þeim tækifæri á að byrja sitt líf vel með því að auka öryggi þeirra áður en þau fæðast. Ég legg til að þessu máli verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og trn. að þessari umræðu lokinni.