Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Einar Kr. Guðfinnsson:
    Herra forseti. Málefni Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins eru eðlilega ekki ný af nálinni hér á hv. Alþingi. Málefni sjóðsins hafa verið mjög rædd upp á síðkastið, ekki síst vegna þess að fyrir einum tveimur árum eða svo var lagt fram hér á Alþingi frv. til laga um breytingu á lögum um Verðjöfnunarsjóðinn sem fól í sér verulega breytingu á starfsemi sjóðsins frá því sem verið hefur. Niðurstaða þess máls var sú að samþykkt var hér á Alþingi till. til þál. um endurskoðun laga um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og í framhaldi af því hefur verið unnið að endurskoðun laganna og ávöxtur þess starfs liggur hér fyrir.
    Ég er þeirrar skoðunar að með þessu frv. sé stigið veigamikið skref til þess að bæta það ástand sem hefur ríkt á þessum sviðum og því sé ekki að leyna að þetta frv. sé mikil framför frá því sem verið hefur við lýði upp á síðkastið. Sannleikurinn er sá að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins hefur í núverandi mynd verið gjörsamlega ónýttur sem hagstjórnartæki. Hann hefur verið umdeildur innan sjávarútvegsins og tortryggður af flestum af ástæðum sem að nokkru voru raktar í máli hæstv. sjútvrh. og flestir raunar þekkja.
    Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins var upphaflega stofnaður með lögum frá haustinu 1969 í kjölfar þess mikla aflabrests og verðhruns sem varð árið 1967. Frv. var flutt um stofnun sjóðsins á árinu 1968 og það tókst mikil pólitísk samstaða um stofnun sjóðsins. Í meðförum þingsins var gerð nokkur breyting á upphaflegu hlutverki sjóðsins og ég hygg að sú breyting hafi kannski með öðru orðið til þess að þegar fram í sótti varð hlutverk sjóðsins ekki eins veigamikið eins og ástæða hefði verið til að ætla.
    Í áliti og tillögum nefndar sem hæstv. sjútvrh. skipaði í janúar 1988 til að endurskoða gildandi lög og reglur um Verðjöfnunarsjóðinn eru þessar breytingar raktar svo, með leyfi forseta:
    ,,Í meðförum Alþingis voru gerðar nokkrar breytingar á frv. Frv. gerði ráð fyrir að ráðherra skipaði þrjá menn í stjórn sjóðsins án tilnefningar en fjóra samkvæmt tilnefningu hagsmunasamtaka er ráðherra ákvarðaði í reglugerð. Þessu var breytt á þann veg að bundið var í lög frá hvaða samtökum þessar tilnefningar kæmu. Enn fremur var bætt inn ákvæði þess efnis að við ákvörðun viðmiðunarverðs skyldi og hafa hliðsjón af markaðs- og aflahorfum fyrir næsta ár eins og þær voru metnar af Verðlagsráði sjávarútvegsins. Þessi breyting var tvíþætt. Annars vegar var svigrúm sjóðsstjórnarinnar við ákvörðun viðmiðunarverðs aukið með því að heimila henni að taka tillit til líklegrar markaðs- og aflaþróunar. Hins vegar var beinlínis bundið í lög að stjórnin skyldi og taka tillit til þeirra forsendna er lægju að baki ákvörðun á fiskverði í Verðlagsráði sjávarútvegsins.``
    Þetta hygg ég að hafi að mörgu leyti orðið til þess að torvelda starfsemi sjóðsins, bæði vegna þess að

starfsemin byggðist ekki nægilega mikið á almennum reglum, eins og þó hefði verið nauðsynlegt og hér er gert ráð fyrir í hinu nýja frv., og enn fremur var ekki eingöngu tekið mið af markaðsverði á sjávarafurðum erlendis, eins og þó hefði verið nauðsynlegt, heldur líka vegnar og metnar aflahorfur og verðlagsforsendur Verðlagsráðs sjávarútvegsins, og þannig varð raunverulega Verðjöfnunarsjóðurinn aðili að fiskverðsákvörðun í hvert skipti. Það var svo í valdi ráðherra og stjórnvalda hverju sinni að beita Verðjöfnunarsjóðnum og þetta með öðru varð til þess að sjóðurinn varð ekki það mikilsverða hagstjórnartæki sem menn höfðu vænst.
    Sú óánægja sem hefur ríkt með starfsemi sjóðsins undanfarin ár hefur einmitt stafað m.a. af þessu. Í fyrsta lagi hafa menn gagnrýnt þessi miklu pólitísku afskipti sem menn ætla að hafi verið af sjóðnum og starfsemi hans. Í annan stað hefur það verið harkalega gagnrýnt að starfsemi sjóðsins byggist á því að inn í hann er greitt sameiginlega og út úr honum sameiginlega, á svipaðan hátt, án þess að tekið sé tillit til þess hverjir hafi stofnað til inngreiðslnanna. Þetta var sérstaklega áberandi og magnaðist auðvitað á árunum eftir 1980 þegar rækjuframleiðendur stóðu frammi fyrir því að hafa um þó nokkurt árabil borgað mikið inn í þennan sjóð, en vegna þess að rækjuframleiðsla fór vaxandi og rækjuframleiðendum fór fjölgandi háttaði málum þannig, þegar farið var að borga út úr sjóðnum, að þeir sem inn í hann höfðu borgað nutu útgreiðslanna ekki nema að litlu leyti. Þessa deilu hygg ég að flestir hv. þm. þekki því að hún var einmitt meginhvati þess að málið var flutt hér inn á Alþingi af hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni og í frumvarpsformi sem ég minntist á hérna áðan.
    Sé farið yfir þá endurskoðun sem fram hefur farið á sjóðnum kemur í ljós að mjög margt bendir til þess og mælir með því að starfsemi sjóðsins eigi ekki jafn vel við og hún átti þegar til hans var stofnað í upphafi. Ég tel að það sé nauðsynlegt fyrir þá umræðu sem hér fer fram að víkja dálítið að þeim rökum sem fram hafa verið sett af þeim sem gleggst hafa skoðað málið, þeim rökum sem mæla gegn því að sjóðurinn starfi í þeirri mynd sem hann hefur starfað undanfarin rúmlega 20 ár.
    Í áliti þeirrar nefndar sem ég vitnaði til áðan og var skipuð af hæstv. sjútvrh. í janúar 1988, álitið var dags. í maí 1988, eru rakin nokkur efnisatriði þeirrar gagnrýni sem sett hafði verið fram á starfsemi sjóðsins. Þar er vakin athygli á því að starfsumhverfi sjávarútvegsins hafði tekið
miklum breytingum sem bæði varðaði ytri og innri skilyrði sjávarútvegsins. Og þessi atriði eru að mati nefndarinnar, með leyfi forseta:
,,1. Með útfærslu landhelginnar og fullum yfirráðarétti yfir fiskveiðilögsögunni hafa skapast aðstæður til að beita vísindalegri stjórn fiskveiða. Um leið myndast forsendur til að draga úr sveiflum í þeim afla sem að landi berst á hverjum tíma.
    2. Aðild Íslands að Fríverslunarbandalagi Evrópu, EFTA, hefur fjölgað tækifærum til að flytja út

íslenskar iðnaðarvörur. Jafnframt tókst með viðskiptasamningum við Evrópubandalagið að tryggja íslenskum sjávarafurðum aðgang að Evrópumarkaði.
    3. Útflytjendum sjávarafurða hefur fjölgað verulega á undanförnum árum. Jafnframt hefur framleiðslan orðið fjölbreyttari samhliða því sem markaðssvæðum hefur fjölgað. Þessi þróun gerir starfsemi Verðjöfnunarsjóðs flóknari og skapar í mörgum tilvikum mikla erfiðleika í framkvæmd.
    4. Þegar Verðjöfnunarsjóður var settur á laggirnar voru tekjur sjávarútvegsfyrirtækja að stærstum hluta tengdar bandaríkjadal. Með aukinni fjölbreytni í framleiðslu, nýjum mörkuðum og breyttum viðskiptaháttum hefur dregið úr áhrifum gengis bandaríkjadals á hag fyrirtækjanna.
    5. Samkeppnisstaða sjávarútvegsins hefur breyst mikið á síðustu tveimur áratugum. Annars vegar hafa möguleikar til útflutnings batnað að mun og nýir markaðir opnast fyrir íslenskan fisk, m.a. sökum bættrar flutningatækni. Á móti þessu vegur að samkeppni um hráefni til fiskvinnslunnar í landinu hefur harðnað að mun. Verðmyndunarkerfi sjávarútvegsins hefur á margan hátt breyst á síðustu árum. Verðlagsráði sjávarútvegsins hefur verið veitt heimild til að gefa fiskverð á tilteknum tegundum frjálst. Jafnframt hafa sprottið upp víða um land uppboðs- og fjarskiptamarkaðir fyrir sjávarafla. Fiskur sem seldur er á uppboðsmarkaði er ekki heldur háður ákvörðun Verðlagsráðs um lágmarksverð.
    6. Fyrirtæki er starfa í sjávarútvegi hafa nú betri skilyrði en fyrir tveimur áratugum til að verja starfsemina fyrir sveiflum í afkomu. Verðtrygging og fjölbreyttir sparnaðarkostir hafa gefið færi á að verja fé sem lagt er til hliðar í góðæri fyrir breytingum á verðlagi og gengi. Jafnframt leiðir staðgreiðsla tekjuskatta að öllu jöfnu til aukins stöðugleika í ráðstöfunartekjum sjómanna.
    7. Dregið hefur úr beinum afskiptum stjórnvalda af atvinnustarfsemi. Þess í stað hefur viðleitni þeirra beinst að því að skapa atvinnulífinu hagstætt starfsumhverfi og stöðug rekstrarskilyrði.``
    Ég hygg að öll þessi rök hnígi mjög að því að sú starfsemi Verðjöfnunarsjóðs sem hefur verið við lýði undanfarna tvo áratugi eða rúmlega það kalli á gagngera endurskoðun og jafnvel spurningar um það hvort þörf sé yfirleitt á sérstökum verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins eða sjávarútvegsins. Þess vegna hafa augu manna beinst mjög að því hvort ekki mætti fara aðrar leiðir, svo sem eins og þá að mynda sérstaka sveiflujöfnunarsjóði innan fyrirtækjanna með sparnaði og afnema þar með það kerfi verðjöfnunarsjóðs sem við lýði hefur verið.
    Þegar forsendur þess frv. sem hér liggur fyrir eru skoðaðar kemur á hinn bóginn í ljós að í raun og veru snerist endurskoðunin ekki nema að litlum hluta um þessa spurningu. Endurskoðunin snerist miklu frekar um aðra þætti er kynnu að lúta að áframhaldandi starfsemi sjóðsins í einhverri mynd og þá breyttri mynd. Þeir þættir sem mér sýnist að hér hafi fyrst og fremst komið til álita eru þeir að

takmarka verðjöfnunina úr sjóðnum og í hann fyrst og fremst við verðsveiflur erlendis og afnema þá tengingu við innlenda þætti, kostnaðarþætti og fiskverðsákvarðanir, sem teknir voru upp þegar sjóðurinn var settur á laggirnar. Í öðru lagi með því, eins og hæstv. sjútvrh. rakti í ræðu sinni, að þrengja starfsemi sjóðsstjórnarinnar, þrengja kosti sjóðsstjórnarinnar og stjórnvalda til þess að hafa áhrif á reglurnar. Með þessu móti var hægt að taka sjóðinn úr sambandi við hin pólitísku afskipti í landinu. Samfara þessu er tryggð með þessum reglum ákveðin sjálfvirkni inn- og útgreiðslna sem er auðvitað nauðsynleg forsenda þess að sjóðurinn geti virkað sem raunverulegt hagstjórnartæki. Í þriðja lagi var tekin upp sú nýbreytni, sem ég vil leggja sérstaka áherslu á, að nú er fyrirhugað að hverfa frá þessum sameiginlegu greiðslum inn í sjóðinn og út úr sjóðnum og taka þess í stað upp þá eðlilegu eyrnamerkingu á inngreiðslum sem mjög hefur verið talað um á síðustu árum og var raunar meginefni þess frv. sem Matthías Bjarnason og fleiri fluttu hér á Alþingi.
    Niðurstaðan af þessari endurskoðun er hins vegar sú að því er raunverulega hafnað að leggja þennan sjóð niður en hins vegar ákveðið að reyna að koma til móts við þau markmið sem menn settu sér í upphafi, að tengja annars vegar
sjóðinn fyrst og fremst við erlendar verðsveiflur og hins vegar að eyrnamerkja innstæðurnar.
    Ég sagði hér í upphafi að ég teldi að frv. sem hér lægi fyrir væri veigamikið skref í rétta átt og að því leyti sem ég kom nálægt undirbúningi þess máls tel ég að þar hafi verið vel að verki staðið. Hins vegar er ýmislegt í frv. sjálfu sem má segja að sé álitamál og sé ástæða fyrir sjávarútvegsnefndir Alþingis til þess að skoða betur og fyrir Alþingi að taka á í meðförum þingsins á frv.
    Það er í fyrsta lagi í 2. gr. laganna þar sem kveðið er á um stjórn Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins. Ég held að þetta sé skref í ranga átt að afnema algjörlega afskipti hagsmunaaðila af starfsemi sjóðsins. Mér er alveg ljóst að þau rök hafa verið sett fram að hagsmunaaðilar geti nýtt meiri hluta sinn í stjórn sjóðsins til þess að koma í veg fyrir hvers konar inngreiðslur í sjóðinn. Ég vek hins vegar athygli á því að reglur sjóðsins hafa verið þrengdar í því skyni að gera þær almennari og sjálfvirkari þannig að ég hygg að sú hætta sem þarna hefur verið talað um sé ekki jafnmikil og áður hefur verið. Ég tel almennt að óeðlilegt sé með sjóð sem þennan að hagsmunaaðilar komi ekki að nokkru leyti að því verki og teldi t.d. mjög eðlilegt að þrír væru skipaðir af samtökum fiskvinnslustöðvanna en tveir t.d. af sjútvrh. í stjórn þessa sjóðs. Ég tel mjög eðlilegt að það sé fyrst og fremst fiskvinnslan sem eigi fulltrúa í stjórn sjóðsins þar sem hér er verið að taka ákvörðun um að aftengja sjóðinn frá fiskverðsákvörðunum og innlendri kostnaðarþróun almennt.
    Í annan stað er auðvitað mjög þýðingarmikið, og það held ég að sé ástæða til að árétta alveg

sérstaklega, í 7. gr. frv., þar sem sagt er í fyrsta lagi að þrátt fyrir að innstæður á verðjöfnunarreikningum sjóðsins séu eign sjóðsins sjálfs en ekki þeirra fyrirtækja sem borga í hann sé það samt sem áður þannig að inneignirnar séu bundnar við verðjöfnun á afurðum þess framleiðanda sem inneign myndaði. Þetta er auðvitað mjög þýðingarmikið og er svar við þeirri miklu gagnrýni sem hefur komið fram, sérstaklega hjá rækjuframleiðendum, á starfsemi Verðjöfnunarsjóðsins.
    Ég vil hins vegar vekja á því athygli að í 3. gr. frv. er talað um að Verðjöfnunarsjóði skuli skipt í deildir eftir tegundum afurða. Í næstu setningu er sagt að sjútvrh. taki ákvörðun um deildaskiptingu sjóðsins samkvæmt tillögum sjóðsstjórnar.
    Hér hefur verið nokkur meiningarmunur með mönnum um það hvernig bæri að túlka þessa grein frv. Ég vil þá í þessu sambandi vekja athygli á því að í athugasemdum við einstakar greinar frv. er nánar kveðið á um þetta og ég tel þýðingarmikið að það sé áréttað og ég álít nauðsynlegt að fram komi a.m.k. mitt sjónarmið í þessu sambandi. Ég tel að það sé þýðingarmikið að þrátt fyrir að Verðjöfnunarsjóði kunni að verða skipt upp í deildir eftir tegundum sjávarafurða eigi það að vera þannig að það beri að líta á inneign hvers og eins framleiðanda sem sérstakan reikning sem er í eigu sjóðsins. Það sé ástæðulaust að skipta þessu með jafnríkum hætti og nú er gert í saltfisksdeild, freðfisksdeild, rækju- og hörpudisksdeild o.s.frv. o.s.frv. Það sé miklu eðlilegra að skipta þessu minna niður og fara frekar í það að eyrnamerkja inneign hvers framleiðanda á hans nafn án tillits til framleiðslugreinarinnar. Þessi tilhögun er m.a. nefnd hér í athugasemdunum. Þar segir að samkvæmt þessu fengi öll botnfiskvinnslan sömu verðjöfnun og því hefði tilhögun verðjöfnunarinnar engin áhrif á innbyrðis samkeppnisstöðu einstakra greina í vinnslunni. Þetta held ég að sé ákaflega þýðingarmikið og sé nauðsynlegt að taka af öll tvímæli um í meðförum þingsins.
    Það mál sem ég tel einna gagnrýnisverðast í frv. er nokkrar setningar í ákvæðum til bráðabirgða sem hér eru aftan við frv. Í ákvæðum til bráðabirgða segir m.a. svo, með leyfi forseta --- og þarna er verið að tala um, svo að ég taki það til áréttingar, ráðstöfun á leyfum þess sjóðs sem er til staðar nú þegar og, þegar til slita á sjóðnum kemur, hvernig beri að ráðstafa því fé sem nú er inni á reikningum Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins:
    ,,Þegar útborgunartilefni skapast samkvæmt ákvæðum 5. gr. þessara laga skal greiða verðbætur á útflutning af þessum reikningum óháð innstæðum hvers fyrirtækis í Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins.``
    Hér er raunverulega verið að tala um það að útborgunin á þessum leifum sjóðsins eigi í framtíðinni að verða samkvæmt hinum gömlu reglum sem voru og hafa verið og eru í gildi. Þetta tel ég í rauninni alveg ótækt form. Með því frv. sem hér er verið að leggja til er verið að hverfa frá ákveðinni aðferð við inn- og útborgun í Verðjöfnunarsjóð, aðferð sem ég

hygg að allir séu sammála um að hefur ekki gengið upp og hefur ekki leitt til þess sem að var stefnt í upphafi. Það er raunverulega ekki ágreiningur um það að þessi gamla aðferð sem hefur verið við lýði er ónýt. Við viljum hverfa frá henni og þess vegna tel ég eðlilegast að að því sé stefnt að hverfa frá þessari aðferð nú og strax. Það eru engir eða mjög litlir tæknilegir annmarkar á þessari aðferð.
    Samkvæmt upplýsingum sem ég hef undir höndum frá Verðjöfnunarsjóði eða starfsmönnum Verðjöfnunarsjóðs hefur bókhald sjóðsins verið fært þannig undanfarin ár að þar hafa innborganir verið eyrnamerktar sérstaklega hverjum framleiðanda og hvað snertir rækjuna t.d. er þetta ekkert vandamál. Þetta mun vera nokkurt vandamál hvað varðar humarinn og innstæðu humarframleiðenda í Verðjöfnunarsjóðnum, en mér býður í grun að það þurfi ekki annað en dálitla handavinnu, dálitla vinnu sem þurfi að leggja í það til þess að athuga hvernig innborgunum í humardeild sjóðsins hefur verið háttað, til þess að komast að því og búa málið þannig úr garði að hægt sé að borga út úr honum í samræmi við innborganir. Þess vegna held ég að það sé ákaflega óheppilegt og óskynsamlegt út frá þessum sjónarhóli að hafa þetta ákvæði til bráðabirgða inni með þessum hætti sem hér er gert og ég legg höfuðáherslu á það að í meðförum þingsins verði tekið á þessu máli og þessu snúið við.
    Virðulegi forseti. Ég hygg að þrátt fyrir að ekki hafi verið stigið til fulls það skref sem margir hefðu kosið, að leggja af Verðjöfnunarsjóðinn að fullu og færa þessa sveiflu og verðjöfnun inn í fyrirtækin sjálf, sé samt sem áður mikilsvert skref stigið í rétta átt. Versta tilvikið væri það auðvitað ef við sætum uppi með óbreytt form vegna ágreinings um málið. Við erum nú stödd á þeim tímapunkti í hagsveiflunni, ef við gætum sagt sem svo, að menn ímynda sér a.m.k. að botni hennar hafi verið náð og margir horfa nú til þess að e.t.v. getum við farið að rétta úr kútnum að nýju, efnahagslega. Ýmsir óttast að þessu geti fylgt þensla og erfiðir tímar í kjölfarið á henni eins og við höfum svo oft þekkt í sögu okkar. Ef svo væri held ég að það væri ákaflega slæmt ef við byggjum við ónýtan verðjöfnunarsjóð þrátt fyrir að ég sé ekki að mæla með því að afrakstur af tekjuaukningu sjávarútvegsins verði tekinn að fullu og öllu og greiddur inn í sjóðinn í stað þess að leyfa greininni sjálfri að nýta hann til þess að lækka skuldir sínar og bæta efnahag sinn.
    Ég vek hins vegar í þessu sambandi athygli á mjög athyglisverðri grein sem birtist um þessi mál í Morgunblaðinu nú á sunnudaginn var, eftir Sigurð Snævarr, hagfræðing á Þjóðhagsstofnun, þar sem hann rekur þessi mál dálítið. Ég held að það gæti verið fróðlegt að rifja það ögn upp.
    Hann segir í greininni að staðreyndin sé sú að Íslendingar hafi ekki hingað til haft bein til þess að standast uppsveiflu í efnahagsmálum. Tilkall til þess tekjuauka sem nú er boðaður mun koma frá ýmsum þjóðfélagsöflum. ,,Þingmaðurinn mun fara fram á

endurmat á forsendum fjárlaga og benda á að nú sé lag til að hrinda af stað gæluverkefninu sínu. Launþeginn mun benda á að kaupmáttur launa hafi lækkað um rúmlega 7 1 / 2 % á undanförnum tveimur árum og að útlit sé að óbreyttu fyrir að enn lækki kaupmáttur um 2 1 / 2 %. Atvinnurekandinn mun vitna til bágrar rekstrarafkomu um nokkurra ára skeið og lofar að verja tekjuaukanum til að greiða niður skuldir. Til staðfestingar getur hann vísað til fyrrnefnds rits Þjóðhagsstofnunar um að halli á atvinnurekstri í landinu hafi verið 8--9 milljarðar á árinu 1988 og í besta falli á sléttu í fyrra, og er þá ekki tekið tillit til ávöxtunar af eigin fé. Þetta sýnir okkur auðvitað að þrátt fyrir að við höfum gengið í gegnum gífurlegar hremmingar á undanförnum árum, efnahagur útflutningsgreinanna hafi versnað mjög mikið, eignirnar brunnið upp og fyrirtækin séu núna verr stödd en ég hygg nokkru sinni áður muni ekki skorta á tilefni hjá ýmsum til þess að gera tilkall til þess tekjuauka sem sjávarútvegurinn vissulega þarf á að halda til þess að greiða niður þær skuldir sem hann hefur stofnað til í undanförnu harðæri.``
    Ef hægt er á einhvern hátt að milda efnahagsleg áhrif af hugsanlegum tekjuauka með verðjöfnunarsjóði sem yrði eyrnamerktur hverjum framleiðanda væri það vissulega vel og ég tel, og ég ítreka það, að það væri versti kosturinn í þessu máli að við sætum uppi með óbreytt ástand, ónýtan verðjöfnunarsjóð engum til gagns, öllum til óþurftar og sem einskis trausts nyti nokkurs staðar í sjávarútveginum.