Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það er ekki ástæða til að fara mjög mörgum orðum um frv. við 1. umr. þessa máls. Þó eru nokkur atriði sem hljóta að leiða til þess að hv. þm. fái frekari upplýsingar hjá hæstv. ráðherra og reyni að átta sig á þeim atriðum. Tveir nefndarmanna, annar aðalnefndarmaður, hinn varamaður, hafa nú þegar tjáð sig um þetta mál og báðir haft sínar efasemdir þótt í mismiklum mæli sé.
    Það er ljóst að markmiðið með þessu frv. er skiljanlegt og eftirsóknarvert. Þó kemur fram að ekki er samkomulag í þeirri nefnd sem vann að undirbúningi málsins. Mín skoðun er sú að best hefði farið á því að leggja þennan sjóð af og beita í stað þess nýjum ákvæðum í lögunum um tekju- og eignarskatt með þeim hætti sem sjálfstæðismenn lögðu til í sínu frv. sem lagt var fram fyrir jól. Þar kom mjög skýrt fram hvernig ná megi þessum markmiðum með því að setja ákvæði í þau lög um sveiflujöfnunarsjóði sem hefðu það hlutverk að jafna sveiflur innan fyrirtækjanna sem auðvitað hefur nákvæmlega sömu áhrif og hér er gert ráð fyrir að Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins hafi.
    Því miður virðist ekki vera samkomulag um að fara þessa leið sem ég hef minnst á og sjálfstæðismenn hafa lagt til. En það er ekki heldur fullt samkomulag um þá leið sem hér er lögð til. Ég hvet þess vegna virðulega sjútvn. til að kanna mjög rækilega þær tillögur sem þegar hafa komið fram á yfirstandandi þingi og gætu leyst af hólmi Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins eins og hann er í dag, flestum til óþurftar eins og allir virðast vera sammála um.
    Í öðru lagi, þ.e. eftir að hafa bent á að til er önnur leið betri, sýnist mér vera farið hér inn á mjög varhugaverða braut varðandi skilgreiningu á eignarréttindum þess fjár sem lagt er til hliðar í Verðjöfnunarsjóðinn, og ég tel ástæðu til þess að menn átti sig mjög vel á því hvort þetta sé eðlilegasta leiðin. Í 7. gr. frv. segir að innstæður á verðjöfnunarreikningum sjóðsins teljist eign hans, þ.e. sjóðsins, en eru bundnar við verðjöfnun á afurðum þess framleiðanda sem inneign myndaði. Að mínu áliti væri miklu betra að þessi inneign væri eign viðkomandi framleiðanda sem myndaði þannig eigið fé sem fyrirtækið ætti þótt slík eign sé háð ákveðnum takmörkunum. Ég skil vel að hér er um skattalegt mál að ræða að nokkru marki og verið er að reyna að komast fram hjá því að auka skattbyrði fyrirtækjanna. En það er gert með þeim hætti að í raun og veru hygg ég að kanna þurfi mjög vel hvort eðlilegt sé að menn borgi inn á sinn reikning, framleiðendur borgi inn á sinn reikning en fjármunirnir verði eign sjóðsins, að vísu með takmörkunum. Og svo eru þessi, ég vil kalla klúðurslegu ákvæði um það hvenær fyrirtæki sem taka við af fyrirtækjum, nýir eigendur eða erfingjar, geti eignast réttinn til þessara innstæðna og síðan takmörkun á þeim réttindum og hvernig þau geta gengið manna á milli. Ég tel að þetta sé slæmt

kerfi, það sé flókið og eðlilegra hefði verið að fara þá leið sem ég hef bent á, sveiflujöfnunarsjóðsleiðina, þar sem enginn vafi leikur á um eignarréttinn, þar sem fyrirtækin sjálf taka ákvarðanir. Ef ekki væri hægt að fara þá leið ætti a.m.k. að leggja inn á nöfn fyrirtækjanna og þær innstæður séu þá eign viðkomandi fyrirtækja. Ég tel að þetta þurfi hv. sjútvn. að kynna sér mjög rækilega því mér sýnist eignarréttarfyrirkomulagið, eins og það er sett upp í þessu lagafrv., vera með þeim hætti að mjög athugunarvert sé.
    Mér er þó ljóst að þetta er skárri kostur en sá sem er í núgildandi lögum og tek heils hugar undir flest það sem kom fram í ræðu hv. 1. þm. Vestf. þar sem hann benti á ókosti núverandi kerfis og sýndi fram á að þessar nýju tillögur eru til bóta þótt ekki sé nægilega langt gengið að okkar mati.
    Þá er athygli vert að skoða 3. gr. frv. þar sem segir að Verðjöfnunarsjóði sé skipt upp í deildir eftir tegundum afurða og síðan að sjútvrh. skuli taka ákvörðun um deildaskiptingu sjóðsins samkvæmt tillögum
sjóðsstjórnarinnar. Mér skilst, ef ég hef lesið þetta rétt, að í þessu felist m.a. að það sé undir stjórn sjóðsins komið og hæstv. sjútvrh. hvort setja eigi verðjöfnun og deild fyrir ísfisk, fyrir óunninn fisk, fyrir ísvarinn fisk, fisk sem fluttur er út t.d. í gámum. En eins og allir vita hefur það verið eitt stærsta deilumálið varðandi Verðjöfnunarsjóð að framleiðendur og þeir sem reka fyrirtæki í sjávarútvegi hafa ekki þurft að greiða í Verðjöfnunarsjóð ef um er að ræða útflutning á óunnum fiski. Hins vegar hafa t.d. saltfiskverkendur þurft að greiða í sína deild. Þannig hefur myndast misræmi sem felst í því að þeir sem fá óunninn fisk í hendur erlendis geta unnið þann fisk með sambærilegum hætti og innlendir aðilar án þess að taka á sig það sem þeir innlendu þurfa að gera þegar þeir greiða inn í sjóðinn. Þetta er ekkert nýtt vandamál. Þetta er vandamál sem allir þekkja, vandamál sem um hefur verið skrifað og rætt.
    Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra, sem hefur heimildina samkvæmt þessum lögum, hvort hann hyggist setja upp deild fyrir ísvarinn fisk sem fluttur er t.d. út í gámum og hvort greiða eigi þá út úr Verðjöfnunarsjóði ef
um verðfall er að ræða, t.d. vegna offramboðs á mörkuðum. Ég tel það aldeilis óviðunandi að við ljúkum þessari 1. umr. án þess að hæstv. ráðherra segi álit sitt á þessu sérstaka vandamáli sem er eitt það stærsta og hefur reyndar orðið til þess að fulltrúar til að mynda SÍF hafa helst viljað leggja þennan sjóð af án þess að nýr taki við af honum og gengið þannig í lið með fulltrúum útvegsmanna og sjómanna.
    Ég skal sleppa þeim atriðum sem aðrir hafa fjallað um sem eru skýr og skiljanleg, en vil aðeins benda á ákvæði til bráðabirgða, 1. málsl. þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Ríkissjóður skal taka við skuldbindingum Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins.`` Þessi setning lætur nú ekki mikið yfir sér. Ef hins vegar er flett upp í

greinargerðinni eða athugasemdunum sést að verulegar skuldbindingar eru á Verðjöfnunarsjóðnum, þ.e. Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, bæði vegna lántöku hjá Seðlabankanum 1981 og eins vegna tveggja lána sem tekin voru 1988 og 1989. Áætla má að skuldir þessar geti numið allt að 2 milljörðum kr. með vöxtum og gengistryggingu. Síðar segir: ,,Nauðsynlegt er að ríkissjóður taki á sig þessar skuldbindingar, enda hafa verið gefin fyrirheit um það.``
    Nú vil ég rifja það upp að þegar núv. hæstv. ríkisstjórn, ef ég má orða það svo, var mynduð --- ég tel að þær breytingar hafi ekki verið gerðar á henni síðan sem nokkru máli skipta. Að vísu hefur einn pínuflokkur bæst við í ríkisstjórnina en sá flokkur er nú að líða undir lok eins og allir vita og brotna upp í öreindir sínar þannig að ég tel að það sé vart hægt að tala um nýja ríkisstjórn þótt þessir örfáu hafi bæst við --- en ég rifja það upp að þegar hæstv. ríkisstjórn var mynduð haustið 1988 varð ágreiningur um hvaða leið skyldi fara. Niðurstaðan varð sú að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sprakk. Hin nýja stjórn, stjórn Steingríms Hermannssonar, ákvað að fara þá leið að taka að láni verulegar upphæðir og greiða tímabundið með útfluttum fiski. Það var gert með því að taka lán, lánið var tekið af Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, tvívegis reyndar. Þá um haustið lýsti hæstv. sjútvrh. því yfir á þingi Farmanna- og fiskimannasambandsins m.a. að ekki mætti búast við því að Verðjöfnunarsjóður yrði látinn greiða þetta til baka eins og kannski væri eðlilegast þegar slíkur sjóður tekur lán, þá ætti hann samkvæmt kenningunni að greiða þetta lán til baka þegar betur áraði.
    Sí og æ hafa orðið umræður um þetta mál og á það hefur verið bent að þessi yfirlýsing hæstv. ráðherra jafngilti því að ríkissjóður hefði ákveðið að taka að sér þetta lán og þess vegna væri rangt að bókfæra þetta lán á Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Í raun og veru væru þetta skuldbindingar ríkissjóðs og þess vegna eðlilegt að taka þetta upp í bókhald ríkisins með þeim hætti sem vera bæri, sem lán sem ríkisstjórnin hefði tekið, ríkissjóður hefði tekið en ekki Verðjöfnunarsjóðurinn. Á þetta hefur hæstv. fjmrh. aldrei fallist. Hann hefur sagt sem svo: Það hefur engin ákvörðun verið tekin um þetta mál. Það ber að haga þessum málum þannig að þegar greiða skal lánið þá kemur í ljós hver greiðir. Ef ríkissjóður lendir í því að greiða lánið þá kemur það til gjalda eins og hver önnur ríkisútgjöld.
    Í þessu stjfrv. er því lýst yfir að nauðsynlegt sé að ríkissjóður taki á sig þessar skuldbindingar, enda hafi verið gefin fyrirheit um það. Með öðrum orðum, það sem hér stendur er í nafni allrar hæstv. ríkisstjórnar. Því verður að telja að hæstv. fjmrh. sé bundinn af þessu jafnframt. Þá finnst mér eðlilegt að hæstv. sjútvrh. skeri úr um það hér og nú hvað gerist ef þetta frv. verður samþykkt, hvort ekki sé eðlilegt að flytja þessa lántöku yfir á ríkissjóð og sýna þannig eðlilega ríkisreikninga, eðlilegt ríkisbókhald en láta ekki þessa upphæð standa á Verðjöfnunarsjóði, rétt eins og hann hafi tekið lánið og ætlast sé til af

þessum tiltekna sjóði að hann endurgreiði lánið í tímans rás. Þetta er auðvitað ekki stórt atriði varðandi sjálfan Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins en þetta er atriði sem sýknt og heilagt hefur verið rætt um hér á hv. Alþingi og kominn er tími til að hæstv. sjútvrh., sem er nú fróðastur manna um bókhald og endurskoðun, kveði upp úr um þetta tiltekna atriði.
    Eins og ég sagði áður, þá skil ég vel markmiðið með þessu frv. En ég hef efasemdir um þá leið sem frv. gerir ráð fyrir að farin verði. Ég tel miklu betri leið að fyrirtækin séu sjálf ábyrg, eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, 11. þm. Reykn. Ég tel í raun að hér sé áfram haldið á þeirri braut að ríkisvaldið sé eins konar barnapía fyrir fyrirtækin í landinu. Ég bendi á að það er út af fyrir sig sveiflujafnandi ef fyrirtækin fá tækifæri til að greiða skuldir sínar til baka. Í því felst sveiflujöfnun. Og sveiflujöfnun er fólgin í því ef fyrirtækin fá að leggja til hliðar í sveiflujöfnunarsjóði, eins og gert var ráð fyrir í frv. okkar sjálfstæðismanna en sveiflujöfnunarsjóðurinn þar tók nokkurt mið af fjárfestingarsjóðum fyrirtækjanna eins og þeir voru skilgreindir í lögum á sínum tíma. Lagareglur gilda um þá, þ.e. að þessari sjóðsmyndun fylgja ákveðin skattfríðindi sem felast í því að skattheimtu er frestað um tiltekinn tíma. Á þetta bendi ég og ég hvet hv. nefnd, sjútvn. Nd., til að ræða þessi atriði mjög nákvæmlega, að
kynna sér þau frv. sem lögð hafa verið fram um þetta mál hingað til. Ég vona að nefndin geti lokið þeim störfum fyrir þinglok því að ég er sammála þeim sem segja: Niðurstaða í þessu máli þarf að nást sem allra fyrst og helst ekki síðar en á þessu þingi, sem er nú reyndar að verða lokið. Þess vegna þarf að nýta tímann mjög vel á næstu vikum.