Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Flm. (Málmfríður Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. á þskj. 601 um breytingu á lögum nr. 86/1988, um Húsnæðisstofnun ríkisins. Meðflytjendur með mér eru fulltrúar allra flokka sem sitja hér á þingi. Frv. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,1. gr. Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein svohljóðandi:
    Húsnæðisstofnun skal hafa afgreiðslu á landsbyggðinni, eina eða fleiri í hverju kjördæmi, og ber í því skyni að semja við útibú Byggðastofnunar eða bankastofnanir og sparisjóði á helstu þéttbýlisstöðum um alla almenna afgreiðslu fyrir stofnunina.
    2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Í grg. segir:
    ,,Opinber þjónusta er greidd úr sameiginlegum sjóðum landsmanna og því er réttlætismál að landsmenn allir geti notið hennar jafnt. Einnig er mikilvægt í þessu sambandi að sú þjónusta sem hið opinbera veitir sé sem næst fólkinu.
    Flestir verða einhvern tíma á ævinni að eignast þak yfir höfuðið og þurfa því að eiga viðskipti við Húsnæðisstofnun ríkisins í Reykjavík. Flestir, sem kaupa húsnæði, þurfa ráðgjöf og leiðbeiningar. Hins vegar er sú staðreynd augljós að ekki er allt fólk búsett á höfuðborgarsvæðinu sem á þessum samskiptum þarf að halda. Allt frá því að Húsnæðisstofnun var komið á fót hefur það valdið því fólki, sem fjarlægar býr, ómældu óhagræði og kostnaði hve
erfitt er að nálgast upplýsingar, ráðgjöf og þjónustu þá sem stofnuninni er skylt að veita. Þrátt fyrir þetta óhagræði og óánægju manna með núverandi fyrirkomulag hafa engar umtalsverðar tilraunir verið gerðar til að færa þjónustu þessarar stofnunar nær fólkinu.`` Reyndar var nú í vetur, eftir að þetta frv. var lagt fram, stofnuð umboðsskrifstofa á Akureyri fyrir Húsnæðisstofnun ríkisins. En það var sérskrifstofa og ekki í tengslum við aðrar stofnanir þar á svæðinu.
    Þá má nefna í sambandi við það sem ég sagði um að engar umtalsverðar tilraunir hefðu verið gerðar til að færa þessa þjónustu út um landið að nefnd sem sat að störfum á árunum 1972--1975, að mig minnir, og hafði með höndum að semja tillögur um hvernig flytja mætti ríkisstofnanir eða deildir ríkisstofnana út um landið gerði tillögu um það að deildir úr Húsnæðismálastofnun mætti flytja út á land. Og eins og segir í skýrslu nefndarinnar:
    ,,Nefndin leggur til að Húsnæðismálastofnun komi á fót útibúakerfi og verði þeim útibúum ætlað að aðstoða við lánaumsóknir og veita upplýsingar um lánastarfsemina, kynna teikningar á mismunandi húsagerðum, einkum með tilliti til ríkjandi staðhátta á hverju svæði, annast eftirlit með byggingarframkvæmdum og láta í té aðra þá þjónustu sem stofnuninni er ætlað að veita. Útibúin geta starfað í tengslum við útibú frá Landsbanka Íslands eða

annarri fjármálastofnun og til greina kæmi að veita þeim eitthvert ákvörðunarvald um lánveitingar.``
    Þar sem hér er um að ræða þjónustu sem landsmenn eiga að geta notið án tillits til búsetu leggur nefndin til að útibú frá Húsnæðismálastofnun verði á öllum svæðum utan höfuðborgarsvæðisins og tilgreinir svæði sem hún leggur til að verði ákveðin sem ég fer ekki að telja upp hér. Nefndin vekur athygli á því að samstarf útibúa Húsnæðismálastofnunar við útibú annarra stofnana á sviði byggingarstarfsemi, t.d. Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins, gæti orðið byggingarframkvæmdum í einstökum landshlutum til margvíslegs framdráttar því að nefndin lagði einnig til að útibú frá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins yrðu út um landið.
    Tillögur þessarar nefndar voru að engu hafðar og ekkert með þær gert, því miður, því að þar var margt gott að finna. Allar götur síðan Húsnæðisstofnun var sett á laggirnar fyrir rúmum 30 árum hefur það verið fólki utan höfuðborgarsvæðisins mikill ásteytingarsteinn hversu erfitt getur verið að sækja þá þjónustu sem stofnuninni er skylt að veita um langan veg til Reykjavíkur. Hingað til hefur þessi þjónusta við fólk úti á landi farið fram með bréfaskiptum, símhringingum og með því að fólk beinlínis tekur sér ferð á hendur til að fylgja umsóknum sínum eftir og fá niðurstöður í sín mál. Og það þarf ekki að fjölyrða um að þessi skipan mála hefur í áranna rás reynst landsbyggðarfólki bæði örðug og kostnaðarsöm.
    Ég ætla ekki að segja neinar reynslusögur af viðskiptum við þessa títtnefndu stofnun en mér hefur stundum virst að sjónarmið og hagir landsbyggðarfólks mættu ekki þeim skilningi þar sem æskilegt væri og að sjónarmið hjá stofnuninni væri stundum nokkuð langt frá fólkinu. Ég geri ráð fyrir að aðrir hv. landsbyggðarþingmenn geti tekið undir það með mér að reynsla þeirra sé eitthvað á þennan veg í þessum efnum og því er þetta frv. komið hér fram. Flm. sem flestir eru landsbyggðarþingmenn og allir hafa skilning á högum og þörfum landsbyggðarfólks hafa séð og fundið nauðsyn þess að Húsnæðisstofnun kæmi til móts við fólkið út um land á þann hátt sem hér er lagt til. Í greinargerð með frv. segir enn fremur:
    ,,Bankastofnanir landsins eiga sín úitibú vítt um landið og í mörgum byggðarlögum eru sparisjóðir í eigu heimamanna. Flm. telja einboðið að bankar og sparisjóðir taki að sér fyrir hönd Húsnæðisstofnunar að sinna þeirri nauðsynlegu þjónustu sem stofnuninni ber að láta í té. Byggðastofnun hefur nú þegar sett upp útibú á Akureyri og áformar að fjölga þeim á næstunni þannig að það verði a.m.k. eitt í hverjum landsfjórðungi. Er einsætt að útibú þeirrar stofnunar veitti a.m.k. ráðgjöf og þjónustu fyrir þá sem erindi eiga við Húsnæðisstofnun. Ætla má að þjónusta Húsnæðisstofnunar við alla landsmenn verði varla framkvæmd á ódýrari og skilvirkari hátt en þann að útibú Byggðastofnunar, bankar og sparisjóðir hefðu hana með höndum utan höfuðborgarsvæðisins.``
    Sú breyting sem er orðin á fjarskiptatækni

auðveldar þetta mjög og mætti segja að víða í bönkum og sparisjóðum um landið þyrfti kannski ekki að bæta við starfsfólki svo að neinu næmi og aðstaða kann að vera fyrir hendi á hverjum stað þannig að þetta þyrfti ekki að vera umtalsverður kostnaður. Það gæti skeð að bæta þyrfti við manni í hálfu starfi eða að maður sem vinnur í banka þar sem ekki eru mikil umsvif gæti bætt á sig þessu starfi ef hann væri settur inn í þau mál og hvernig þau ganga fyrir sig. Aftur á móti mætti ætla að við þessa skipan mála mundi álagið á Húsnæðisstofnun minnka og fyrst og fremst mundu erindi, að ég tel, ganga greiðar ef afgreiðslan væri nær því fólki sem á henni þarf að halda og það væri e.t.v. líka hægt að minnka umfang stofnunarinnar hér sem ýmsum þykir nú að komið sé úr öllum böndum.
    Ég vil minna á það að sú nefnd sem hafði með höndum endurskoðun félagslega húsnæðiskerfisins og skilaði af sér í haust lagði til að umdæmisskrifstofur frá Húsnæðisstofnun yrðu út um landið. Þetta kom ekki fram í því frv. sem hér liggur fyrir og tel ég það mjög miður því ég held að það hefði verið mjög nauðsynlegt og í rauninni að hluta til það sama og hér er verið að tala um nema þar var ekki talað um beina afgreiðslu á lánum eða annað slíkt. En þetta frv. miðar að því að fólk geti fengið afgreiðslu á sínum málum sem næst sér og það tel ég vera meginmál í þessu efni og einnig það að sumum þykir sem Húsnæðisstofnun hér í Reykjavík sé orðin slíkt bákn að þar hafi menn varla yfirsýn yfir málin. Og það ætti að vera liður í þeirri valddreifingu sem ég og margir telja nauðsynlegt að fari fram í þessu þjóðfélagi að slíkar stofnanir sem Húsnæðisstofnun ættu sín útibú sem víðast um landið og fólk ætti sem greiðastan aðgang að þeim.