Lögfræðiráðgjöf í hjúskaparmálum
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Flm. (Málmfríður Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um lögfræðiráðgjöf og aðstoð vegna hjúskapar-, sambúðar- og sifjaréttarmála. Flutningsmenn auk mín eru aðrar þingkonur Kvennalistans, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Sigríður Lillý Baldursdóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir.
    Í 1. gr. frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Rétt til lögfræðiráðgjafar og lögfræðiaðstoðar samkvæmt lögum þessum eiga allir þeir sem eiga lögheimili hérlendis og hafa ekki hærri árstekjur en sem nemur tvöföldum þeim tekjuskattsstofni sem ekki greiðist tekjuskattur af, sbr. ákvæði laga um tekjuskatt og eignarskatt. Mæðralaun skulu í þessu tilviki ekki teljast til tekjuskattsstofns. Sá sem hefur barn eða börn á framfæri sínu hefur enn fremur rétt til að draga frá tekjuskattsstofni upphæð sem svarar til meðlags, barnabóta og barnabótaauka.``
    Í athugasemdum um þessa grein frv. segir:
    ,,Hér er fjallað um hverjir skuli eiga rétt á lögfræðiráðgjöf og lögfræðiaðstoð. Markmiðið er að auðvelda tekjulágu fólki aðgang að þessari þjónustu. Vandasamt er að ákveða hvar setja skuli mörkin þegar ákveða á hverjir skuli njóta þjónustu eins og þeirrar er hér um ræðir. Gæta verður þess að viðmiðun sé ekki svo lág að þeir sem þurfa eigi ekki rétt á þessari þjónustu. Í lögum um tekjuskatt og eignarskatt er ákvarðaður tekjuskattsstofn sem ekki greiðist tekjuskattur af. Sá skattstofn er svo lágur að mönnum er gert að greiða skatt af tekjum sem eru langt undir mörkum mannsæmandi framfærslu. Því er hér lagt til að miða við tvöfaldan tekjuskattsstofn sem
ekki greiðist af tekjuskattur.`` Tekjuskattsstofn er nú sem næst 52.400 kr. og sé hann tvöfaldaður, 104.800 kr., þá blasir við hverjum manni sem vill sjá að sá sem hefur laun á því bili og undir því hefur engan veginn efni á að leita sér lögfræðiaðstoðar eða reka sín mál fyrir dómstólum. Það er hreinlega útilokað.
    Það er lagt hér til að mæðralaun teljist ekki til tekjuskattsstofns samkvæmt þessum lögum og enn fremur er lagt til að upphæð sem svarar til meðlags, barnabóta og barnabótaauka dragist frá tekjuskattsstofni því að þetta eru greiðslur sem ætlað er að kosta framfærslu barna og því er óeðlilegt að þær teljist tekjur foreldra. Þetta eru tekjur sem barnið á sjálft en ekki foreldrarnir.
    Í 2. gr. frv. segir:
    ,,Einstaklingur, sem þarf á lögfræðiráðgjöf eða aðstoð að halda, skal framvísa afriti af síðasta skattframtali sínu eða sambærilegum gögnum til lögmanns til staðfestingar tekjum þannig að ljóst sé að hann eigi rétt á lögfræðiþjónustu skv. 1. gr.``
    Í 3. gr. frv. segir:
    ,,Með lögfræðiráðgjöf er átt við ráðgjöf og upplýsingar varðandi réttarstöðu aðila í hjúskap og í óvígðri sambúð, svo sem við slit hjúskapar og við slit sambúðar.
    Að jafnaði skal gengið út frá að ráðgjöfin miðist við eitt viðtal.

    Það telst óvígð sambúð ef karl og kona stofna til sambúðar og hafa átt barn saman eða konan er þunguð af hans völdum eða ef sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. tvö ár.``
    Síðan er greint á milli við hvað er átt með ráðgjöf og við hvað er átt með aðstoð. Í 4. gr. er lögfræðiaðstoðin skilgreind:
    ,,Með lögfræðiaðstoð er átt við aðstoð vegna mála er aðilar eiga í varðandi forsjár-, framfærslu- og umgengnisréttarmál, við minni háttar búskipti og önnur mál er á reynir í þessum málaflokkum.
    Skal lögfræðiaðstoðin miða að því að endanleg niðurstaða eða samkomulag náist í málinu.``
    Í 5. gr. segir:
    ,,Öllum starfandi lögmönnum er skylt að veita þeim er til þeirra leita lögfræðilega ráðgjöf eins og hún er skilgreind í 3. gr.
    Sama skylda hvílir ekki á starfandi lögmönnum varðandi lögfræðiaðstoð skv. 4. gr. laga þessara. Dómsmrn. skal halda skrá yfir starfandi héraðsdóms- og hæstaréttarlögmenn sem gefa kost á sér til að veita almenningi lögfræðiráðgjöf og aðstoð samkvæmt lögum þessum.
    Lögmenn skulu veita aðstoð og ráðgjöf nema þeir telji slíkt brjóta í bága við siðareglur lögmanna eða starfsannir þeirra banni.
    Ef ekki er kostur á þjónustu starfandi lögmanna eða fulltrúa þeirra getur dómsmrn. heimilað öðrum lögfræðingum að láta í té ráðgjöf skv. 3. gr.``
    Í 6. gr. segir:
    ,,Fyrir lögfræðiráðgjöf og aðstoð samkvæmt lögum þessum skal greitt í samræmi við gjaldskrá Lögmannafélags Íslands sem staðfest er af dómsmrn., enda sé reikningi framvísað á því reikningsformi sem dómsmálaráðherra ákveður, ásamt afriti af skattframtali skjólstæðings eða sambærilegum gögnum, sbr. 2. gr.
    Fyrir lögfræðiráðgjöf samkvæmt lögum þessum greiðist föst þóknun er miðast við munnlegar álitsgerðir og lögfræðilegar leiðbeiningar, sbr. gjaldskrá Lögmannafélags Íslands, og skal ríkissjóður greiða þrjá fjórðu hluta þóknunar en skjólstæðingur fjórðung.
    Dómsmrh. setur reglugerð um framkvæmd lögfræðiaðstoðar skv. 4. gr. Jafnan skal miðað við að ríkissjóður greiði þrjá fjórðu hluta þóknunarreiknings lögmanns en skjólstæðingur fjórðung. Dómsmrh. getur ákveðið að lækka eða fella greiðslu skjólstæðings niður ef sérstakar ástæður mæla með því.``
    Og í 7. gr. segir: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Í grg. segir m.a.:
    Íslenskt samfélag hefur tekið miklum stakkaskiptum á undanförnum áratugum og sífellt koma upp mál er benda til þess að almenningur sé mjög illa að sér um réttarstöðu sína í ýmsum málum. Þetta kemur ekki síst í ljós við hjónaskilnað og sambúðarslit. Því varðar miklu að fólk eigi greiðan aðgang að lögfræðiráðgjöf og aðstoð. Sá tími getur komið í hjónabandi eða sambúð karls og konu að þau telji sig ekki geta haldið sambandinu áfram. Í mörgum tilvikum gengur fólk frá sínum málum í sátt og samlyndi en stundum

koma upp deiluefni þar sem þörf er á ráðgjöf og/eða aðstoð sérfróðs fólks. Þar má t.d. nefna félagsráðgjafa, sálfræðinga og lögfræðinga.
    Þau atriði, sem oft valda deilum, snerta gjarnan lagalega stöðu aðila. Þetta á ekki eingöngu við atriði er snerta eignaskipti heldur einnig þau atriði er varða umgengni, framfærslu og forsjá barna. Erfiðleikar við skilnað og sambúðarslit bitna oft hart á börnum og því ætti að leitast við að gera þann feril eins auðveldan og mögulegt er.
    Það er mat flutningsmanna að ekki þyrfti alltaf til skilnaðar eða sambúðarslita að koma ef fólk ætti kost á ráðgjöf þar sem því væri gerð ljós í tíma réttarstaða þess og leyst væri úr vandamálum sem geta virst óyfirstíganleg en eru ef til vill ekki eins flókin og hlutaðeigendur álíta.
    Tryggja þarf að sérhver einstaklingur hafi tækifæri til að leita sér lögfræðiþjónustu án tillits til efnahags. Þeir sem ekki hafa fjárhagslega getu til að kaupa sér þjónustu lögmanna fullu verði eiga nú um tvo kosti að velja, að leita til ráðgjafar Orators, félags laganema, eða til Kvennaráðgjafarinnar. Eins og heiti Kvennaráðgjafarinnar ber með sér er hún sérstaklega hugsuð fyrir konur og þangað hefur mikill fjöldi kvenna leitað þau sex ár sem ráðgjöfin hefur verið starfrækt. Það eru ekki síst konur sem standa uppi varnarlausar gagnvart lagakrókum sem beitt er í forsjár-, skilnaðar- og sambúðarslitamálum. Þær hafa oft og tíðum ekki fjárhagslega getu til að leita sér lögfræðiþjónustu. Karlar hafa hærri tekjur en konur, svo sem kunnugt er, og geta því yfirleitt greitt fyrir lögfræðiþjónustu ef þeim sýnist svo. Það er að mati flutningsmanna óverjandi að fjárhagsleg staða ráði því hvort fólk leitar lögfræðiþjónustu þegar vanda ber að höndum og af þeim sökum er þetta frv. lagt fram.
    Á löggjafarþinginu 1974--75 var lögð fram þáltill. um lögfræðiþjónustu fyrir efnalítið fólk. Það voru hv. þm. Ragnar Arnalds og Svava Jakobsdóttir sem lögðu þá tillögu fram. Henni var vísað til ríkisstjórnarinnar og síðan hefur ekki af henni frést. Á 102. löggjafarþingi, 1979--80, lagði þáv. dómsmrh., Vilmundur Gylfason, fram frv. um lögfræðiaðstoð. Því var vísað til nefndar en aldrei afgreitt þaðan. Í umræddu frv. var gert ráð fyrir að efnalítið fólk gæti fengið niðurgreidda lögfræðiaðstoð í fleiri málaflokkum en lagt er til í því frv. sem hér liggur fyrir. Ástæða þess að við flutningsmenn einskorðuðum okkur við mál sem snerta hjúskapar-, sambúðar- og sifjaréttarmál er sú að við teljum þau mál eiga að hafa forgang verði lögfræðiráðgjöf eða lögfræðiaðstoð komið á laggirnar. Börn koma mjög oft við sögu í þessum málum og þar sem þau eiga hlut að máli ber að stuðla að því að réttinda allra sé gætt og mál gangi svo greiðlega sem kostur er. Þá þykir okkur flutningsmönnum rétt að benda á skjótvirka leið til að bæta úr brýnni þörf fyrir lögfræðiaðstoð. Í stjfrv. um fjölskylduráðgjöf, sem lagt var fram á Alþingi veturinn 1988--89, er lagt til að sett verði á stofn sérstök miðstöð fjölskylduráðgjafar þar sem sálfræðingar og lögfræðingar annast ásamt öðrum

fræðslu um málefni barna í tengslum við sambúðarslit foreldra og leiðbeini um úrlausn í forsjár- og umgengnisréttarmálum. Þessu frv. var vísað til nefndar en var ekki afgreitt þaðan. Í því frv. sem hér er lagt fram er bent á greiðari leið til að bæta úr brýnustu þörfinni á lögfræðiráðgjöf og lögfræðiaðstoð í þessum málaflokkum, en það er þó skoðun flutningsmanna að fengur yrði að sérstakri stofnun sem veitti alhliða fjölskylduráðgjöf.
    Samkvæmt frv. þessu yrði um tvenns konar þjónustu að ræða, annars vegar lögfræðiráðgjöf og hins vegar lögfræðiaðstoð. Sambærileg þjónusta hefur verið í boði annars staðar á Norðurlöndum og í Bretlandi um alllangt skeið.
    Lögfræðiráðgjöf og lögfræðiaðstoð, eins og lögð er til í þessu frv., má líta á sem neyðarhjálp þegar í óefni er komið. Hins vegar er ljóst að mikil þörf er á fyrirbyggjandi aðgerðum og má þar til dæmis nefna fjölskylduráðgjöf. Þannig mætti hugsanlega koma í veg fyrir að mál þróuðust á þann veg að fólk teldi
einu lausnina vera skilnað eða sambúðarslit. Flutningsmenn telja að ráðgjöf og aðstoð samkvæmt frv. ætti að vera auðvelt að koma á án mikils undirbúnings og þá væri tryggt að þeir sem þyrftu fengju þá aðstoð við málflutning sinn sem nauðsynleg er.
    Ég mun fara hér út í skýringar við greinar laganna. Um 2. gr. stendur hér að ákvæði hennar miðist við að þeir njóti aðstoðarinnar sem fjárhags síns vegna þurfa á henni að halda miðað við þær forsendur sem gefnar eru í 1. gr. Á undanförnum árum hafa rauntekjur fólks farið lækkandi, svo sem kunnugt er, sérstaklega í þjónustustörfum þar sem konur eru flestar. Til þess að þessi lagagrein nái tilgangi sínum verður að vera hægt að taka tillit til tekna á þeim tíma sem aðstoðarinnar er óskað og þá er skattframtal sl. árs ekki alltaf rétt viðmiðun. Launaseðlar yfirstandandi árs eða önnur gögn sem sýna fram á lágar tekjur eða jafnvel tekjuleysi geta því verið nauðsynleg sönnun þess að viðkomandi eigi rétt á þjónustunni þar sem talað er um í 2. gr. að skattframtal eða sambærileg gögn þurfi að nota. Með sambærilegum gögnum er átt við það sem ég nú var að segja, t.d. launaseðla.
    Í 3. gr. er tekið fram hvað felst í ráðgjöf og hverjir eiga rétt á að njóta hennar. Við ráðgjöfina er nauðsynlegt að tekið sé fram við fólk hver kostnaður þess geti hugsanlega orðið ef það kýs að reka mál sín lengra. Almenningur á yfirleitt ekki greiðan aðgang að upplýsingum um réttarfarslega stöðu sína, hvorki í þeim málum sem hér um ræðir eða öðrum. Lögum og reglum er sífellt breytt þannig að erfitt getur verið fyrir einstakling að átta sig á hver réttur hans er. Það getur verið gagnlegt fyrir fólk að eiga möguleika á því að hitta lögmann í eitt skipti til að fá upplýsingar um réttarfarslega stöðu sína. Með því móti má jafnvel koma í veg fyrir að mál þróist á þann veg að til skilnaðar eða sambúðarslita komi, ef fólki er staða þess ljós og réttur. Slík ráðgjöf ætti að geta nægt til þess, eitt viðtal eða svo. Í frv. er líka gert ráð fyrir að fólk geti leitað til lögmanns og fengið slíka ráðgjöf

niðurgreidda samkvæmt ákveðnum reglum og þessa þjónustu er öllum starfandi lögmönnum skylt að veita.
    Ástæða þess að ráðgjöf miðast við eitt viðtal er sú að telja má að það nægi til að skýra réttarstöðu einstaklings í hjúskap eða sambúð og veita almennar ráðleggingar sem geta nægt til að skýra þau mál sem viðkomandi þarf upplýsingar um.
    Í 4. gr. er lögfræðiaðstoð skilgreind. Lögfræðiaðstoð tekur við eftir að ráðgjöf hefur farið fram vilji viðkomandi láta málið ganga lengra. Oft á tíðum enda mál vegna skilnaðar eða sambúðarslita fyrir dómstólum og þá er nauðsynlegt að tryggja að báðir aðilar málsins hafi lögmann til að annast mál sín. Ef um efnalítið fólk er að ræða getur það reynst því ofviða og því er lagt til að ríkisvaldið komi til móts við það og greiði niður aðstoð vegna hjúskapar-, sambúðar- og sifjaréttarmála. Þau minni háttar búskipti sem tilgreind eru í lagagreininni geta einnig tekið til erfðamála að því leyti að þau kunna að tengjast þeim málum sem greinin fjallar um.
    Um 5. gr. er það að segja að 1. mgr. hennar varðar það að öllum lögmönnum sé skylt að veita ráðgjöf, sé þess óskað, og almennar upplýsingar sem allir lögmenn kunna skil á, en lögfræðiaðstoð varðandi þá málaflokka sem frv. fjallar um er mun sérhæfðari og því ástæða til að sú skylda hvíli ekki á lögmönnum að láta hana í té heldur að þeir einir sem áhuga hafa og óska þess fjalli um slík mál. Úti á landi er ekki alls staðar kostur á lögmannaþjónustu og er dómsmrn. gert að taka tillit til þess samkvæmt síðustu málsgrein þessarar greinar.
    Þessa þjónustu munu þeir héraðsdóms- og hæstaréttarlögmenn veita sem hafa gefið kost á sér til þess. Skal dómsmrn. halda skrá yfir þá lögmenn sem gefa kost á sér til að veita lögfræðiaðstoð í þessum málaflokkum. Á þann hátt er reynt að tryggja að þeir sem þurfa á þessari þjónustu að halda standi ekki frammi fyrir því að leita til lögmanns sem e.t.v. hefur ekki áhuga á að sinna málinu en er nauðbeygður til þess vegna lagaboða. Þá væri hætta á að skjólstæðingurinn fengi ekki svo góða aðstoð sem nauðsyn er.
    Í 6. gr. er fjallað um gjaldtöku vegna lögfræðiráðgjafar og aðstoðar samkvæmt lögum þessum. Það þykir ekki ástæða til að hafa aðra viðmiðun en staðfesta gjaldskrá Lögmannafélagsins og lagagreinin miðast við að gera endurkröfu lögfræðinga á dómsmrn. eins einfalda og kostur er.
    Flutningsmenn þessa frv. telja æskilegt að notendur þessarar þjónustu greiði sjálfir hluta kostnaðar en á hinn bóginn verður að gæta þess að sá kostnaður verði í engu tilviki notanda ofviða. Hlutur skjólstæðings fer m.a. eftir því hversu viðamikið málið er og þess vegna er í lagagreininni heimild til ráðherra að lækka þessa greiðslu eða fella hana alveg niður.
    Ég hef nú skýrt frv. eins og það liggur fyrir hér og tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um það. Margoft hefur komið fram í umfjöllun um slík mál eins og hér er um að ræða að forsjármál eru með viðkvæmustu og erfiðustu málum sem koma til

umfjöllunar lögfræðinga og dómstóla. Með þessu er leitast við að tryggja það að fólk fái eins góða þjónustu og kostur er og sömuleiðis að þeir
sem þurfa að leita réttar síns á lögfræðilegum grundvelli og fyrir dómstólum fái eins góða þjónustu og kostur er og að sú þjónusta sé veitt á þann hátt að hún gangi sem greiðast og þurfi ekki að veltast í kerfinu árum saman. Eins og þetta frv. er lagt fyrir hér þarf ekki mikinn undirbúning til að koma þessu á. Það þarf í rauninni ekki annað en einfalda tilskipun frá dómsmrn. og í öðru lagi sé útbúin reglugerð um það hvernig þessi kostnaðarskipti fara fram og dómsmrn. útbúi eyðublöð fyrir reikninga vegna lögfræðiþjónustu sem ráðuneyti ber að greiða lögræðingum.
    Við sem flytjum þetta frv. teljum að með því höfum við komið til móts við þarfir fólks í erfiðum málum sem oft hanga óleyst yfir höfðum þess árum saman og valda því ómældu hugarangri og erfiðleikum, og við leggjum til að frv. fái góða umfjöllun og sem fljótasta afgreiðslu.
    Að lokinni 1. umr. vildi ég mælast til að frv. yrði sent til félmn. ( Forseti: Forseti hyggur að þetta mál eigi frekar heima í hv. allshn.) Já, þá fel ég forseta að koma því þangað sem það á heima.