Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Mig langar til að koma hér og taka undir frv. sem er flutt af sjálfstæðismönnum í deildinni og taka undir það sem hv. 1. flm. sagði um mikilvægi þess að sjómenn séu í flotbúningum vegna þess að það er alveg ljóst og þarf ekki frekari vitnanna við hversu mikilvægt það er að sjómenn og þeir sem eru í miklum kulda séu vel klæddir og þá er auðvitað flotbúningur það albesta sem hægt er að hugsa sér fyrir sjómenn.
    Ég hef um árabil kennt sjómönnum í Slysavarnaskóla sjómanna um áhrif kælingar og kulda á mannslíkamann og þar hef ég að sjálfsögðu lagt mikla áherslu á hversu mikilvægt það er að klæða sig vel. Þessir flotbúningar eru tiltölulega nýtilkomnir á markaðinn. Mér finnst mjög mikilvægt það sem kemur fram í 1. gr. frv. um að flotbúningar verði að fullnægja kröfum Siglingamálastofnunar. Fyrir nokkrum árum voru á markaðnum --- sérstaklega voru dæmi um það erlendis --- búningar sem voru þannig að þegar menn fóru í þeim í sjóinn drukku þeir í sig svo mikið vatn að þeir sukku. Þess vegna finnst mér þetta vera mjög mikilvægt atriði að gerðar séu mjög strangar kröfur og ekki leyfður innflutningur á búningum eða öðru en því sem er viðurkennt og það allra besta og að vitað sé að muni í raun og veru vera nothæft til þess sem til er ætlast.
    Í greinargerð er vitnað til Jóhanns Axelssonar, prófessors í lífeðlisfræði, og talað um að flotgallar hafi ráðið úrslitum um lífslíkur sjómanna. Auðvitað er þetta alveg rétt vegna þess að fólk drukknar ekki af öðru en kulda eða þá það gefst upp vegna þess að það getur ekki synt lengur. Hér við land er það kuldinn sem tekur líf fólks ef það dettur í sjóinn og í svo köldum sjó sem er hér við land tekur það örfáar mínútur ef fólk er fáklætt. Auðvitað er hægt að láta sér detta í hug að fólk lifi 6--8 klukkustundir í sjónum hér við land. Ég efast þó um, alla vega um vetur, að svo langur tími geti liðið. Hins vegar er það ekki það sem skiptir máli. Við þurfum yfirleitt ekki svo langan tíma. Við þurfum í flestöllum tilvikum ekki nema kannski innan við klukkutíma þangað til hægt er að bjarga fólki þegar um slys er að ræða og fólk dettur útbyrðis og ekki er um björgunarbáta að ræða.
    Eftir að hafa kynnst sjómönnum í þeim skóla sem ég hef kennt í, Slysavarnaskóla sjómanna, þá veit ég að þeir hafa fullan skilning á þessum málum og mikinn áhuga. Ég reikna með því að þau hörðu viðbrögð sem hafa orðið nú við því að virðisaukaskattur skuli vera á þessum nauðsynlegu björgunartækjum hafi einmitt orðið vegna þess að fólk gerir sér betur og betur grein fyrir hversu mikilvægt það er að halda kuldanum frá líkamanum. Það er hann sem skiptir öllu máli. Og ef ég man rétt sat hv. 1. flm. einu sinni og hlustaði á þegar ég var að kenna sjómönnum um ofkælingu og björgun úr köldum sjó.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð mikið lengri en endurtek það að ég tel mjög mikilvægt að við getum samþykkt frv. á þessu þingi. Ég get ekki trúað því að

það sé slíkur kostnaður fyrir ríkissjóð að fella niður virðisaukaskatt af flotgöllum sem sjómenn kaupa sér sjálfir. Það er ekki nóg fyrir þá að eiga bara einn sem geti dugað í mörg ár, heldur verður að endurnýja þá nokkuð þétt. Mjög farsælt væri að Alþingi samþykkti að felldur yrði niður virðisaukaskattur á flotbúningum en jafnframt að athugað yrði hvort ekki þyrfti að kanna frekar önnur björgunartæki sem eru nauðsynleg fyrir sjómenn og ef nauðsyn krefur gera þau að skyldu ef það er talið nauðsynlegt til þess að hægt sé að gæta samræmis varðandi skattlagningu.