Almenningsbókasöfn
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Ég legg fram hér tvö frv. til laga, annað um breytingu á lögum nr. 50/1976, um almenningsbókasöfn, og hitt um breytingu á lögum nr. 29/1975, um launasjóð rithöfunda. Ástæðan fyrir því að þessi tvö frumvörp eru lögð fram er sú að starfandi eru í landinu tvö félög rithöfunda, Rithöfundasamband Íslands og Félag ísl. rithöfunda. Aðeins Rithöfundasamband Íslands er sá aðili sem leitað er til um umsagnir og til að tilnefna menn í stjórn Launasjóðs rithöfunda og í stjórn Rithöfundasjóðs, en um hann getur í lögum um almenningsbókasöfn. Ég vil leyfa mér að lesa hér úr greinargerð, með leyfi forseta:
    ,,Með lögum nr. 50/1976, um almenningsbókasöfn, og reglugerð frá 1. febrúar 1977 um Rithöfundasjóð Íslands á að tryggja öllum íslenskum rithöfundum aðgang að Rithöfundasjóði Íslands samkvæmt úthlutunarreglum hans.
    2. mgr. 11. gr. laga um almenningsbókasöfn hljóðar svo:
    ,,Sérstaka reglugerð skal setja um Rithöfundasjóð Íslands í samráði við Rithöfundasamband Íslands.``
    Hér er aðeins Rithöfundasamband Íslands nefnt til sögunnar en ekki Félag ísl. rithöfunda þegar kveðið er á um að hafa samráð við félög rithöfunda. Sami háttur er í 4. gr. laga um Launasjóð rithöfunda en hún hljóðar svo með leyfi forseta:
    ,,Menntamálaráðuneytið setur reglugerð um framkvæmd laga þessara, að höfðu samráði við félagssamtök rithöfunda, þar sem m.a. skal kveðið á um stjórn sjóðsins, vörslu hans og greiðslur úr honum.``
    Hér er skýrt tekið fram að haft skuli samráð við félagssamtök rithöfunda en þau voru þá, eins og áður segir, aðeins ein starfandi í landinu og hétu Rithöfundasamband Íslands. Síðan hafa íslenskir rithöfundar endurvakið gamalt félag um hagsmuni sína og það heitir í dag Félag ísl. rithöfunda. Það starfar við hlið Rithöfundasambands Íslands og þess vegna telur flm. eðlilegt að það njóti sömu réttinda og Rithöfundasambandið og að til Félags ísl. rithöfunda verði einnig leitað þegar óskað er umsagnar um hagsmunamál starfandi rithöfunda á Íslandi.
    Ég vil leyfa mér að lesa 1. gr. þessa frv.:
    ,,Við 2. mgr. 11. gr. laganna bætist: og Félag íslenskra rithöfunda. Alþingi kýs árlega sjö menn í stjórn Rithöfundasjóðs með óhlutbundinni kosningu til eins árs í senn.``
    Á sama hátt segir í 1. gr. um frv. til laga um Launasjóð rithöfunda: ,,Menntamálaráðuneytið setur reglugerð um framkvæmd laga þessara, að höfðu samráði við Rithöfundasamband Íslands og Félag ísl. rithöfunda, þar sem m.a. skal kveðið á um stjórn sjóðsins, vörslu hans og greiðslur úr honum. Alþingi kýs árlega sjö menn í stjórn Launasjóðs rithöfunda með óhlutbundinni kosningu til eins árs í senn.``
    Flm. telur rétt að þessi mál séu ekki í höndum menntmrn. og menntmrh. eins og núgildandi lög gera

ráð fyrir, heldur kjósi Alþingi sjálft sjö menn, annars vegar í stjórn Launasjóðs rithöfunda og hins vegar í stjórn Rithöfundasjóðs Íslands. Í stjórnir þessara tveggja sjóða sem rithöfundar fá síðan úthlutað úr.
    Ég vil ekki hafa þessi orð lengri og vísa málinu til nefndar að vali forseta.