Vaxtalög
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á vaxtalögum nr. 25/1987.
    ,,1. gr. 12. gr. laganna orðist svo:
    Ekki er heimilt að leggja áfallna dráttarvexti við höfuðstól skuldar og reikna nýja dráttarvexti af samanlagðri fjárhæð höfuðstóls og vaxta eða reikna aðra vaxtavexti af skuld.
    2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi öll önnur lagaákvæði um vaxtavexti af skuldum. Frá og með birtingardegi laga þessara er óheimilt að leggja áfallna dráttarvexti við höfuðstól ógreiddra eða óuppgerðra skulda.``
    Frv. er lagt fram til þess að freista þess að draga úr vaxtaokrinu á Íslandi. Með vaxtalögum frá 1987 komu ný ákvæði í lög á Íslandi um heimild til að leggja áfallna dráttarvexti við höfuðstól skuldar og reikna nýja dráttarvexti af samanlagðri fjárhæðinni. Með þessu móti hefur upphæð skulda vaxið það hratt að það hefur orðið mörgum Íslendingum ákaflega þungt í skauti. Einstaklingar, fjölskyldur og fyrirtæki hafa misst eigur sínar og jafnvel orðið gjaldþrota vegna þess. Mikil verðmæti hafa verið færð til í þjóðfélaginu í skjóli þessarar greinar vaxtalaganna. Hugsunin á bak við dráttarvexti er sú að þegar þeir eru reiknaðir falla niður allir almennir vextir af skuld ásamt
verðbótum og öðru umsömdu álagi. Þess vegna eru dráttarvextir jafnan hafðir hærri en samanlagðir þeir vextir og verðbætur sem þá falla niður. Þannig er lánardrottni tryggt að fá hærri vexti, betri stöðu á skuld sinni en ella. Þess vegna er það hrein viðbót við þá eðlilegu vexti sem reikna ber af skuld þegar dráttarvextir eru um hver áramót lagðir við hlið skuldarinnar og búinn til nýr höfuðstóll sem ber síðan aftur vaxtavexti næsta ár.
    Í grg. eru sýnd þrjú dæmi um mismunandi upphæð vaxta. Niðurstaðan er sú að þegar eru reiknaðir svokallaðir flatir vextir af skuld sem nemur 1 millj. kr., þ.e. þeim er ekki bætt við höfuðstólinn, munar um rúmri milljón á vöxtunum einum saman í fjögur ár. Þetta er svimandi fjárhæð og hér er um svo gífurlega mikinn mun að ræða á sömu skuldinni, eftir því með hvorri aðferðinni er reiknað, flötum vöxtum eða vaxtavöxtum, að það gengur ekki lengur að búa til höfuðstól skulda á þennan hátt hér á landi. Þetta eru það miklir peningar sem eru í húfi og hlutfallið er það hátt að það er komið fram úr öllum eðlilegum skilningi á vaxtalögunum. Vaxtavextir gera ekkert annað en að ýta undir að fólk tapi eignum sínum. Almenningur tapar á þessum vöxtum. Ástæðan fyrir því að það er auðvelt að leggja þessa vexti af er fyrst og fremst sú að þessir vextir taka ekki til vaxta á sparifé landsmanna og hafa því engin áhrif á sparifé því hér er eingöngu um að ræða vexti af skuldum. Þess vegna telur flm. að hér sé kjörin leið til að draga úr vaxtaokrinu án þess að skerða nokkuð eðlilega fengið sparifé. Það telur flm. vera kjarna málsins.
    Virðulegi forseti. Að svo mæltu vísa ég málinu til

hv. fjh.- og viðskn.