Málefni aldraðra
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 82/1989. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. 17. þm. Reykv. Sólveigu Pétursdóttur fyrir það frumkvæði að leggja þetta mál fram hér og með svo ítarlegri og vel undirbúinni greinargerð sem raun ber vitni, þar sem glögglega kemur fram hvað hefur gerst við breytingu á þeim lögum sem um hefur verið fjallað hér í kvöld.
    Það er nokkuð ljóst að sá skattur sem er lagður á eldri borgara er allt annað en hv. þm. núverandi ríkisstjórnar og hæstv. ráðherrar töluðu um þegar lögin frá 1989 voru til umræðu. Ég held að það sé út af fyrir sig ekki ástæða til að fara mjög ítarlega yfir þetta mál, svo augljóst sem það er. En það er náttúrlega umhugsunarefni að 60 þús. kr. laun á mánuði skuli vart nægja fyrir þeim kostnaði sem einhleypur maður í þjónustuhúsnæði verður að reiða af hendi þegar hann dvelur á slíkum stað. Það er náttúrlega verulega lág fjárhæð sem hann heldur eftir því eftir að hafa greitt fyrir sig á elliheimili 44.300 kr., þá heldur hann eftir 15.700 kr. sem er ekki há upphæð fyrir hvern og einn til daglegs brúks. Sú breyting sem hér er lögð til er auðvitað til verulegra bóta, að hækka þetta miðað við þær tölur sem hér eru lagðar til grundvallar upp í 30 þús. kr. á mánuði og þætti engum of mikið fyrir þá eldri borgara sem hafa lagt grundvöllinn að þeirri velsæld sem nú er hér á landi.
    Mér datt í hug þegar hv. 1. þm. Reykv. var að tala um öll þau mál sem hafa verið lögð fram hér í dag, megnið af þeim eru væntanlega stjórnarfrumvörp, að það er annar og merkari dagur í dag en síðasti dagur til þess að leggja fram frumvörp því að í dag eru 50 ár frá því að Alþingi ákvað að Ísland skyldi taka konungsvaldið í eigin hendur, sem gerðist 1940. Það er hálf öld síðan og hefði nú kannski verið ástæða til að minnast þeirra hluta hér í þinginu með einhverjum veglegum hætti því að það er upphafið að því að við lýsum yfir
lýðveldi okkar 1944. Hefði einhverjum þótt ástæða til að hafa orð á þessum merkisdegi, en 50 ára afmæli þessa dags er merkisdagur. Ég vil bara vekja athygli á þessu í umræðum hér. Þeir þingmenn sem hér eru munu áreiðanlega taka undir það að það hefði verið vel til fallið að Alþingi Íslendinga minntist þessa dags sérstaklega.
    En hvað um það. Ég ætla ekki að hafa mörg frekari orð um þetta frv. Ég vona að það fái góða meðferð í nefnd. Þetta er þarft frv. og okkur ber skylda til þess að koma þannig fram við eldri borgara að þeir geti haldið reisn sinni í ellinni og haft næga fjármuni eftir af sínum tekjum til þess að greiða fyrir daglegar þarfir sínar.