Málefni aldraðra
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Flm. (Sólveig Pétursdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og þeim hv. þm. sem hafa tekið þátt í henni. Ég tel það miður að hæstv. heilbr.- og trmrh. sé ekki viðstaddur. Vona ég að það stafi ekki af áhugaleysi heldur séu þar aðrar skýringar.
    Ég hef áður gert hér nokkra grein fyrir þeim umræðum sem frv. að núgildandi lögum hlaut á síðasta þingi og að hv. þm. hafi búist við öðrum viðmiðunartekjum og útfærslum en koma fram í reglugerð. Þar er um svo margvíslegar breytingar að ræða að það þyrfti að taka upp heildstæða endurskoðun á þessu máli öllu. Í frv. sem hér um ræðir er reynt að koma að ákveðnu leyti til móts við hæstv. ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju. Vona ég að sú nafngift sé ekki einungis í orði heldur líka á borði og er þá von mín að þetta mál fái góða og skjóta afgreiðslu.