Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Flm. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Því miður er ekki hægt að efna hér til frekari umræðna um þetta mál. Ég gerði fyrirspurn um það þegar þessi fundur hófst hvort hæstv. fjmrh. yrði viðstaddur umræðuna en fékk þau svör hjá virðulegum forseta að því miður gæti slíkt líklega ekki orðið þar sem hæstv. ráðherra væri önnum kafinn annars staðar. Ég ætla ekki að sakast við ráðherra um það, hann hlýtur að raða sínum verkefnum og sínum tíma í forgangsröð, en það hefði vissulega verið full ástæða til þess að fá að ræða við hann um þetta mál. Ég held að smám saman hafi það skýrst að tekjurýrnun ríkissjóðs mun verða mjög lítil þar sem nú liggur fyrir að skólarnir eru að undirbúa sig undir haustið með tilliti til virðisaukaskattsins eins og hefur komið fram í þessari umræðu.
    Virðulegur forseti. Aðalerindi mitt í ræðustólinn hér öðru sinni var þó að þakka síðasta ræðumanni, hv. 12. þm. Reykv., fyrir undirtektirnar. Þær komu mér satt að segja ekkert á óvart. Ég vissi alla tíð hver stefna Kvennalistans var í þessu máli og vona að það hafi komið mjög skýrlega fram í greinargerð með frv. En ég vil þakka henni fyrir stuðninginn og veit reyndar að stjórnarandstöðuflokkarnir allir styðja þetta frv. Við verðum hins vegar að treysta á að fleiri en hv. 16. þm. Reykv. hafi skipt um skoðun. Ef svo er megum við eiga von á því að frv. nái fram að ganga, enda er það ekki mjög flókið og þarf ekki að sendast víða til umsagnar.
    Varðandi það hvort svo kynni að fara að frv. yrði hafnað eða það næði ekki í gegn af formsástæðum eins og ég minntist lítillega á í ræðu minni, þá tel ég slíkt óhugsandi. Það hefur verið kannað, enda er frv. flutt í nokkuð breyttri mynd, þótt efnisatriði séu þau sömu. Túlka verður jafnframt þingskapalögin nokkuð rúmt því að í þeim segir einungis að ekki sé þinglegt að flytja brtt. við frumvörp eftir að brtt. sama efnis hafi verið felld áður í meðferð deildarinnar. Það mætti hugsa sér að jafna ætti út frá þessu ákvæði og banna
að flytja frumvörp sem hefðu sama tilgang, en ég hef átt tal við sérfræðinga í þessum efnum og þeir telja ekkert því til fyrirstöðu að þetta frv. geti orðið að lögum af formsástæðum.
    Virðulegur forseti. Ég kom hingað einungis til þess að þakka undirtektir við frv.