Tekjustofnar sveitarfélaga
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Flm. (Hreggviður Jónsson):
    Hæstv. forseti. Hér er tekið til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum, um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 91/1989, með síðari breytingum. Flm. ásamt mér er hv. 5. þm. Vesturl. 1. gr. frv. er svohljóðandi:
    ,,Við 3. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 7/1990, bætist ný mgr. svohljóðandi:
    Sveitarstjórnum ber að tilgreina á álagningarseðli hlutfall annarra gjalda sem greidd eru af fasteign í sveitarsjóð samhliða fasteignaskatti. Enn fremur skal koma fram á seðlinum heildarhlutfall samanlagðra fasteignagjalda. Félagsmálaráðuneytið skal láta gera staðlaðan fasteignaseðil sem allar sveitarstjórnir skulu nota.``
    2. gr.: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu fasteignagjalda á árinu 1991.``
    Í greinargerð segir: ,,Fasteignagjöld eru orðin verulegur útgjaldaliður heimila um allt land. Hins vegar eru fasteignagjaldaseðlar, sem fólk fær í hendur, mjög mismunandi að gerð og oft erfitt að átta sig á hvað gjöldin á þeim þýða í raun. Oft er skýrt tekið fram hvert er hlutfall álagðs fasteignaskatts miðað við fasteignamat til álagningar, en ekki nærri alltaf. Aldrei er tekið fram hlutfall annarra álagðra gjalda, svo sem lóðarleigu, vatnsskatts, holræsagjalds, sorphreinsunargjalds og tunnuleigu. Í raun þýðir þetta að heildarálagning er afar mismunandi eftir sveitarfélögum án þess að fólki sé gert kleift að lesa það með einföldum hætti á fasteignaseðli sínum og hafi þannig tækifæri til að bera saman heildarfasteignagjöld í einstökum sveitarfélögum. Dæmi um þetta eru þrjú bæjarfélög sem öll eru á sama svæði, sveitarfélag A, B og C.
    Í sveitarfélagi A er hlutfall fasteignaskatts 0,375%, en séu öll fasteignagjöldin reiknuð er heildarhlutfallið 0,55%. Í sveitarfélagi B er hlutfall fasteignaskattsins 0,421%, en séu öll fasteignagjöldin reiknuð er heildarhlutfallið 0,60%. Í sveitarfélagi C er hlutfall fasteignaskattsins 0,50%, en séu öll fasteignagjöldin reiknuð er heildarhlutfallið 0,82%. Þetta þýðir að íbúar, sem eiga sambærileg hús í þessum bæjarfélögum, greiða mjög mismunandi upphæðir í fasteignagjöld. Gróft reiknað greiðir t.d. íbúi í sveitarfélagi A 100.000 kr., íbúi í sveitarfélagi B 107.000 kr. og íbúi í sveitarfélagi C 150.000 kr., allir af sambærilegri eign. Með öðrum orðum eru
fasteignagjöldin 50% hærri hjá íbúanum í sveitarfélagi C en hjá íbúanum í sveitarfélagi A. Þetta hafa íbúar þessara sveitarfélaga ekki tök á að vita þar sem þeir þurfa að vera mjög vel að sér í útreikningum og reglum um álagningu fasteignagjalda til að þeir geti áttað sig á þessu.
    Það ætti að vera grundvallarregla í nútímaþjóðfélagi að fólkið í landinu geti treyst því að það geti á einfaldan hátt áttað sig á hver er munurinn á fasteignagjöldum einstakra sveitarfélaga en slíkt sé ekki falið í flóknum talnarunum á fasteignagjaldaseðlunum eins og nú er raunin.``

    Það liggur nokkuð ljóst fyrir að það frv. sem hér er flutt kostar ekki neitt í framkvæmd. Það kostar sveitarfélögin ekki neitt aukalega, það kostar ríkið ekki neitt aukalega. Hins vegar yrði þetta til bóta fyrir íbúana og gerði þeim kleift að vita hver hin raunverulegu álögðu gjöld eru í því sveitarfélagi sem þeir búa í. Ég nefndi áðan dæmi um hve gífurlegur munurinn er á álögðum fasteignagjöldum milli sveitarfélaga. Þetta er svo alvarlegt að allir hljóta að taka undir þá ósk að íbúar geti glöggvað sig á tölum sem standa á þeim seðlum sem þeir fá hverju sinni með fasteignagjöldum á. Ég hef skoðað allmarga fasteignagjaldsseðla og geri mér ljóst að sveitarstjórnarmenn bera mikla ábyrgð gagnvart kjósendum og þá ekki síður alþingismenn gagnvart því að gera lögin þannig úr garði og seðlana að allir geti lesið á einfaldan hátt úr því hvað stendur á þeim og hvað þeir þýða í raun og veru.
    Nú eru senn sveitarstjórnarkosningar. Hér er kosið til fjögurra ára. Stefna sveitarstjórna í hinum ýmsu bæjum og sveitarfélögum er mjög mismunandi. Þess vegna hlýtur það að vera krafa að íbúar geti hverju sinni sagt við hina kjörnu fulltrúa: ,,Við krefjumst þess að fasteignagjöld okkar séu sambærileg við önnur sveitarfélög.`` Og það sé þá með þeim hætti að þeir eigi auðvelt með að lesa út úr því sem stendur á seðlinum, en svo er ekki í dag.
    Það hefði verið gagnlegt að hafa hæstv. félmrh. hér við þessa umræðu en svo er ekki. Ætla ég að vona að þegar þetta mál verður tekið til umræðu í nefnd fái það fá örugga og skjóta afgreiðslu en ég tel að ekki geti átt sér stað ágreiningur um slíkt mál. Svo einfalt er það, svo réttlátt er það, svo mikil skilvirkni er falin í því að framkvæma það með þessum hætti.
    Hæstv. forseti. Ég legg að lokum til að málinu verði vísað til hv. félmn. deildarinnar.