Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það frv. til laga sem hér liggur fyrir um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og flutt er af hv. 1. þm. Reykv. og 5. þm. Vesturl. fjallar, eins og hér hefur komið fram, um að eftirlifandi maka sé heimilt að telja fram allar tekjur sínar og hins látna maka á andlátsári hans í samræmi við ákvæði 63. gr. laganna og skal eftirlifandi maka að auki heimill persónuafsláttur um hina sömu fjárhæð og ef maka hefði notið við til lækkunar á tekjuskatti í fulla níu mánuði frá og með þeim mánuði er maki féll frá.
    Það frv. sem hér liggur fyrir þarf auðvitað ekki frekari skýringa við svo sjálfsagt sem það er. Í umræðum fyrr á þessu þingi, þegar ég bar fram fyrirspurn Kolbrúnar Jónsdóttur varaþingmanns míns um þetta efni, gat ég ekki skilið annað en svo að hæstv. fjmrh. hefði goldið jáyrði við þessu frv. eins og það liggur hér fyrir efnislega. Það kom mér því mjög á óvart að hann vildi ekki standa við þau orð sem hann lét falla í þeim umræðum. Ég tel að það mál sem hér liggur fyrir ætti að fá hraðafgreislu í þinginu, svo sjálfsagt sem það er og mjög í anda þeirrar ríkisstjórnar sem telur sig ríkisstjórn félagshyggju og jafnréttis. Þetta er ekki mikið og stórt frv. hvað kostnað varðar. Ég tel að það muni ekki skipta sköpum í rekstri ríkisins því það eru mjög óglöggar tölur um raunverulegan kostnað sem ég held að sé ekki nærri eins mikill og hér hefur komið fram. Auðvitað væri hægt að fá það upplýst með lengri fyrirvara en ég held að það sé alveg ljóst að þetta er réttlætismál og mikið hagsmunamál þeirra sem fyrir þeirri ógæfu verða að maki fellur frá, því það getur oft verið mjög erfitt að standa uppi fyrst eftir að slíkur atburður hefur átt sér stað.
    Ég vil þakka hv. 1. þm. Reykv. fyrir framsögu hans um þetta mál og ætla að vona að honum takist að ýta því í gegnum nefnd hér á þinginu nú.