Kvikmyndastofnun Íslands
Miðvikudaginn 11. apríl 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um Kvikmyndastofnun Íslands. Í frv. er gert ráð fyrir nokkrum breytingum á skipan kvikmyndamála hér á landi frá því sem verið hefur. Þar er fremst að nefna að gert er ráð fyrir að sameina Kvikmyndasjóð og Kvikmyndasafn í eina stofnun sem heiti Kvikmyndastofnun Íslands. Stjórn stofnunarinnar verði þriggja manna og skipuð til þriggja ára í senn. Verður einn skipaður samkvæmt tilnefningu Félags kvikmyndagerðarmanna, einn samkvæmt tilnefningu Sambands ísl. kvikmyndaframleiðenda og einn án tilnefningar. Í greininni er gert ráð fyrir
því að enginn sitji í stjórn stofnunarinnar lengur en þrjú ár samfellt og að stjórnin skipti sjálf með sér verkum.
    Þá er gert ráð fyrir því í 4. gr. að menntmrh. ráði framkvæmdastjóra Kvikmyndastofnunar til fjögurra ára í senn og að kostnaður við rekstur hennar greiðist úr ríkissjóði. Hér er um þá breytingu að ræða frá því sem er að kostnaður við starfsemi Kvikmyndasjóðs hefur verið greiddur úr ríkissjóði en í raun og veru tekinn af fjármunum Kvikmyndasjóðsins sjálfs og þannig skert ráðstöfunarfé hans til framlaga og styrkja vegna kvikmynda. Í þessu ákvæði, seinni mgr. 4. gr., felst einn þátturinn í því að styrkja stöðu Kvikmyndasjóðs frá því sem verið hefur.
    Ein veruleg breyting kemur fram í 5. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir því að stjórn Kvikmyndastofnunar skipi tvær þriggja manna nefndir til að úthluta úr Kvikmyndasjóði og að þær úthluti tvisvar á ári í stað þess sem verið hefur, einu sinni á ári snemma hvers árs.
    Í 7. gr. frv. er fjallað um tekjur Kvikmyndasjóðs. Þar er gert ráð fyrir því að uppistaðan sé virðisaukaskattur af kvikmyndasýningum.
    Í 8. gr. frv. eru nokkur nýmæli. Þar er gert ráð fyrir því að þegar framlag er ákveðið til íslenskrar kvikmyndar á stjórn Kvikmyndasjóðs að kynna sér fjárhag þess fyrirtækis sem fær stuðning frá Kvikmyndasjóði og á að miða við að stjórnin veiti að jafnaði ekki styrki til kvikmyndaframleiðenda sem hafa minna en 10% eigið fé til að leggja fram til verkefnis. Þá er stjórninni heimilt að veita til viðbótar við styrkinn ábyrgð fyrir bankalánum til þess að standa undir allt að 15% af kostnaði viðkomandi kvikmyndar. Verði hagnaður af sýningu myndarinnar greiðir kvikmyndafyrirtækið lánið, ella fellur það á Kvikmyndasjóð.
    Það má segja að ákvæði 9. gr. sé skylt ákvæði 1. málsl. 8. gr. að því leytinu til að þar er fjallað um fjárhag þeirra fyrirtækja sem framleiða kvikmyndir. Gert er ráð fyrir því að fari stuðningur við framleiðslu kvikmyndar fram úr helmingi kostnaðar við gerð hennar geti stjórn sjóðsins óskað eftir því að ríkisbókhaldið fari yfir fjárreiður fyrirtækisins. Þá segir að stjórn sjóðsins skuli hafa heimild til þess að bjóða fyrirtækjum sem framleiða kvikmyndir með styrk úr sjóðnum upp á fjárhagslega og skipulagslega ráðgjöf.

Hér er satt að segja um að ræða mjög veigamikið nýmæli þar sem fjöldamörg fyrirtæki sem lagt hafa út í framleiðslu kvikmynda hafa tekið á sig þyngri byrðar en þau hafa í raun og veru ráðið við og einstaklingar hafa orðið fyrir tilfinnanlegum alvarlegum skakkaföllum. (Gripið fram í.) Hv. þm. bendir á það að það sé svo sem ekki meira en margir aðrir og það er út af fyrir sig nokkuð til í því, en engu að síður er hér iðulega um að ræða stærri upphæðir en algengt er í framleiðslu menningarefnis hér á landi en stórar upphæðir eru auðvitað til í öðrum greinum.
    Í 10. gr. er síðan fjallað um hlutverk Kvikmyndasafns og í 11. gr. segir að hverjum þeim sem fær styrk úr Kvikmyndasjóði sé skylt að afhenda Kvikmyndasafni sýningarhæft eintak af viðkomandi mynd til varðveislu.
    Í upphaflegum drögum að frv., sem samin voru af nefnd sem starfaði undir forustu Þráins Bertelssonar á árinu 1989, var gert ráð fyrir því að framlög til kvikmynda væru frádráttarbær frá skatti. Með þeim hætti lagði ég frv. t.d. fyrir stjórnarflokkana fyrir nokkrum mánuðum. Niðurstaða okkar varð sú, eftir ítarlega athugun á þessu máli, að fella þetta ákvæði út úr frv. sjálfu. Jafnframt var tekin um það ákvörðun að þegar frv. hefur verið samþykkt mun fjmrh. gefa út reglugerð um breytingu á reglugerð um frádrátt vegna gjafa til menningarmála þannig að þar bætist við íslenskar kvikmyndir sem hlotið hafa viðurkenningu Kvikmyndastofnunar. Þetta þýðir að fyrirtæki geta dregið frá tekjum sínum fyrir skatt allt að 0,5% af aðstöðugjaldsstofni vegna kvikmyndagerðar. Hér er í raun og veru um að ræða mjög myndarlega ákvörðun sem getur skipt miklu máli í sambandi við framleiðslu á íslenskum kvikmyndum, að kalla til fjármuni frá fyrirtækjunum með beinum hætti. Hér er um að ræða aðferð sem var ákveðin og notuð í lögum í Ástralíu fyrir 12 árum síðan þar sem fyrirtækjum var sérstaklega gert kleift að leggja fram fjármuni til kvikmyndagerðar. Árangurinn af því þekkjum við mörg sem horfum á kvikmyndir og sjónvarpsmyndir. Ástralíumenn hafa stigið stór skref fram á við í framleiðslu góðra kvikmynda, bæði fyrir kvikmyndahús og sjónvarp á undanförnum árum. Það má segja að fyrirmyndin sé að nokkru leyti sótt þangað. Ég er sannfærður um að
þarna er um að ræða verulega möguleika fyrir íslenska kvikmyndagerð umfram það sem verið hefur.
    Það sem mestu máli skiptir, virðulegi forseti, varðandi það að styrkja stöðu kvikmyndarinnar á Íslandi er þetta:
    1. Heimild til þess að draga frá 0,5% af veltu fyrirtækis þegar um er að ræða framlög til íslenskra kvikmynda sem hlotið hafa viðurkenningu Kvikmyndastofnunar.
    2. Stjórn Kvikmyndasjóðs er heimilt að veita til viðbótar við styrkinn ábyrgð fyrir bankalánum til þess að standa undir allt að 15% kostnaðar.
    3. Það er gert ráð fyrir því að gengið verði úr skugga um að ekki verði að jafnaði veittur styrkur til

kvikmyndaframleiðenda sem hafa minna en 10% eigið fé til að leggja fram til verkefnisins.
    Þegar þetta allt og fleira í frv. er lagt samam sjá menn að hér er um að ræða frv. sem felur sér talsverðar endurbætur á umhverfi íslensku kvikmyndarinnar, enda veitir ekki af. Vegna þess að það er auðvitað ljóst að framlög á þessu ári til Kvikmyndasjóðs eru í raun og veru út úr öllum hlutföllum miðað við veruleikann sem blasir við, stórfelldan og vaxandi áhuga á framleiðslu íslenskra kvikmynda. Við þurfum að eiga kvikmyndasjóð sem hefur burði til þess að leggja fjármuni til tveggja til þriggja leikinna mynda á ári ef vel ætti að vera. Til þess dygðu ekki allir markaðir tekjustofnar Kvikmyndasjóðs einu sinni hvað þá heldur skertir, eins og þeir eru nú, og við höfum neyðst til að skera niður, bæði í fjárlögum og lánsfjárlögum í ár og að undanförnu.
    Ég tel ástæðulaust, herra forseti, að fara frekari orðum um mál þetta að sinni og legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.