Stimpilgjöld
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. greinargóð svör og þá túlkun sem hann leggur til þótt sú túlkun, ef notuð verði, muni koma mjög illa við ýmsa. Svo sem fram kom í máli hæstv. dómsmrh. og samkvæmt heimildum mínum hefur einmitt framkvæmdin verið sú í Reykjavík og Kópavogi að sama regla hefur verið látin gilda um sambúðarfólk og hjón sem hafa viljað leiðrétta rangskráningu fasteigna aðilanna í þeim tilvikum sem aðeins annað hjóna hefur verið þinglýstur eigandi eignarinnar. Í þeim tilvikum hefur aðilum verið gefinn kostur á að leggja inn til þinglýsingar yfirlýsingu um að viðkomandi fasteign skuli framvegis vera skráð á nafn beggja hjóna eða sambúðarfólks.
    Forsendur fyrir slíkri beiðni eru venjulega þær að þótt eignin hafi fram til þessa einungis verið skráð á nafn annars aðilans þá sé eignin afrakstur sameiginlegs framlags beggja aðila. Enn fremur er stundum vísað til þess að við fasteignakaup hafi aðilar ekki verið upplýstir um, hvorki af fasteignasala né af lánveitendum, t.d. Byggingarsjóði ríkisins, hverjar lagalegar afleiðingar mismunandi skráning á eignaraðild fasteignar hafi varðandi innbyrðis réttarstöðu aðilanna, bæði í hjónabandi og óvígðri sambúð. Þetta tel ég raunar að sé atriði sem þurfi að gefa gaum að þrátt fyrir þá túlkun sem dómsmrh. lagði í þessi mál hér áðan.
    Lögmaður sá sem ég vitna til nefndi dæmi um að sambúðarfólki í Hafnarfirði hafi verið gert að greiða um 20 þús. kr. í stimpilgjald eins og um afsal hafi verið að ræða fyrir leiðréttingu á rangskráningu eignaraðildar á fasteign sem sambúðarfólkið byggði í sameiningu. Í yfirlýsingunni var beðið um að eignin væri skráð sem eign beggja í tilgreindum eignarhlutföllum eftir framlagi hvors um sig sem tíundað var ítarlega í yfirlýsingunni. Ef þessir aðilar hefðu búið í Reykjavík eða Kópavogi hefðu þeir einungis þurft að greiða þinglýsingargjald, 600 kr. Þetta kemur raunar heim og saman við þær upplýsingar sem komu fram í máli hæstv. dómsmrh. Lögmaðurinn hafði samband við fulltrúa fjmrh. sem hafa með innheimtu stimpilgjalda að gera og spurðist fyrir um hvað hægt væri að gera við slíkar aðstæður. Þá var lögmanni bent á að láta skjólstæðinga sína greiða stimpilgjaldið en óska síðan formlega eftir endurgreiðslu þess með vísan til heimildar í 13. og 14. gr. stimpillaga, nr. 36/1978, sbr. ákvæði 5. málsgr. 16. gr. þeirra laga. Í raun er ekki hægt að treysta því að slík endurgreiðsla fáist og þar af leiðandi er staða þessa fólks erfiðari.
    Það er augljóslega óviðunandi ástand í landi sem telur sig til réttarríkja að mismunandi réttarreglur gildi um fólk eftir lögsagnarumdæmum
þinglýsingadómara. Ítreka ég því að þessu máli þarf að kippa í lag og samræma sanngjarnar reglur sem gera fólki kleift að skrá fasteignir sínar á réttan hátt án þess að það þurfi að greiða stórfé fyrir.