Einangrun útveggja húsa
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Á þingi 1980--1981 mæltu hv. þm. Helgi Seljan, Steinþór Gestsson, Alexander Stefánsson og Magnús H. Magnússon fyrir þáltill. sem orðaðist svo:
    ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta fara fram rækilega könnun varðandi einangrun útveggja húsa. Skulu Húsnæðisstofnun og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins annast könnun þessa og birta niðurstöður sínar sem fyrst.``
    Í framsögu með þessari þáltill. kom fram hjá 1. flm., Helga Seljan, að hér sé trúlega um byltingu að ræða í byggingarkostnaði með betri endingu, meiri einangrun og meiri orkusparnaði húsa. Hann og fleiri telja að þetta geti þýtt allt upp í 20% sparnað á orkukostnaði.
    Hv. þm. Magnús H. Magnússon sagði í umræðunni þá að á verðlagi þess tíma væri reiknað með að 200 fermetra einbýlishús mundi verða um 12 millj. kr. ódýrara í byggingu með þessari aðferð. Þriðji flm., Alexander Stefánsson, kom síðan inn á lagaákvæði um Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins sem fjallar um endurbætur í byggingariðnaði og lækkun kostnaðar við mannvirkjagerð, þar á meðal sjálfstæðar grundvallarrannsóknir í byggingartækni, hagnýtingu húsrýmis, bæjaskipulagningu og gatnagerð. Í þeim tilgangi skal stofnunin fylgjast með nýjungum í byggingariðnaði og laga þær að íslenskum staðháttum, þ.e. kynningu á niðurstöðum rannsókna og veitingu upplýsinga um byggingarfræðilegt efni, aðstoð við eftirlit með byggingarefnum og byggingarframkvæmdum og nauðsynlegri rannsóknaþjónustu í þeim greinum sem stofnunin fæst við.
    Þessari þáltill. var síðan vísað til nefndar. Þegar hún kom þaðan mælti hv. þm. Magnús H. Magnússon, frsm. nefndarinnar, fyrir samþykkt nefndarinnar á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin telur að einskis megi láta ófreistað til að bæta byggingaraðferðir og lækka byggingarkostnað og um leið upphitunarkostnað húsa.``
    Þessi þáltill. var samþykkt óbreytt þann 21. maí 1981. Eftir því sem ég best veit hefur lítið skeð síðan. Sá aðili sem að þessari uppfinningu eða hugmynd stendur hefur ekki fengið neina fyrirgreiðslu í kerfinu þrátt fyrir að hann hafi m.a. uppáskrifað frá iðnrn. bréf til Húsnæðisstofnunar þar sem farið er fram á að gata hans verði greidd í þessum efnum. Því leyfi ég mér að spyrja hæstv. félmrh. hvað líði þeirri könnun sem þessi þáltill. gerði ráð fyrir.