Einangrun útveggja húsa
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Til mín er beint fyrirspurn um hvað líði könnun þeirri á einangrun útveggja húsa sem Húsnæðisstofnun og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins var falið að gera með þáltill. 21. maí 1981. Því er til að svara að á Alþingi 1986--87 var lögð fram fsp. af þáv. þm. Helga Seljan um framkvæmd ályktunar Alþingis um einangrun húsa frá 21. maí 1981. Hér er um að ræða sömu þál. og nú er spurt um framkvæmd á af hv. þm. Inga Birni Albertssyni.
    Í svari félmrh. á Alþingi árið 1987 um þessa sömu þál. kom fram að hún hefði verið send Húsnæðisstofnun ríkisins til umsagnar 9. febr. 1982. Í svari Húsnæðisstofnunar hafi komið fram að stofnunin telji ekki nóg að einungis fari fram könnun á einangrun útveggja eins og þál. gerði ráð fyrir. Að mati stofnunarinnar væri nauðsynlegt að könnunin næði einnig til ýmissa annarra húshluta, svo sem húsþaka, lofta, gólfa o.s.frv. Stofnunin mælti jafnframt með að könnunin færi fram.
    Með bréfi dags. 9. nóv. 1983 fól félmrn. Húsnæðisstofnun að vinna sérstaklega að þessu máli. Ráðuneytið óskaði eftir því að stjórn Húsnæðisstofnunar fæli tæknideild stofnunarinnar að gangast fyrir úttekt á íbúðarhúsnæði í öllum landshlutum utan hitaveitusvæða í þeim tilgangi að fá yfirlit um ástand húsnæðis. Jafnframt var greint frá því að í ársbyrjun 1984 hafi ráðherrar félagsmála og iðnaðarmála komið sér saman um að gangast fyrir sérstöku orkusparnaðarátaki til að minnka og jafna húshitunarkostnað. Var stefnt að því að framkvæma endurbætur á eldra húsnæði sem miðuðu að bættri einangrun og orkunýtingu. Sérstök þriggja manna verkefnisstjórn var skipuð til að annast yfirstjórn þessa verkefnis.
    Sérstök samráðsnefnd var verkefnastjórn til ráðgjafar. Í þeirri nefnd voru m.a. fulltrúar Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Sem svar við þessari sömu fsp. á Alþingi 1987 var jafnframt greint frá því að á vegum verkefnisstjórnar hefði farið fram umfangsmikið starf sem var m.a. unnið í samvinnu við Húsnæðisstofnun. Orkusparnaðarátakið var kynnt með sýningum sem haldnar voru um allt land. Þar voru kynntar sérstaklega allar nýjungar og nýr tæknibúnaður á sviði einangrunar. Var það gert í samvinnu við Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og ýmsar aðrar stofnanir.
    Í mars 1987 taldi þáv. ráðherra, og það kom fram hér á hv. Alþingi, að með því sem ég hef hér lýst væri framkvæmd á þessari ályktun Alþingis lokið. Þess má geta að Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins hefur eftir 1980 gefið út alls 17 rit og RB-blöð um einangrun og upphitun húsa. Rit þessi fjalla m.a. um einangrun húsa, hitun húsa, einangrunarefni, gerðir, eiginleika og fleira. Af framansögðu má sjá að ýmislegt hefur verið gert í því að kanna einangrun útveggja húsa ásamt öðrum þáttum einangrunar og orkunýtingar eins og samþykkt

var í þál. árið 1981.