Jarðgöng á Vestfjörðum
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs til þess að lýsa ánægju minni yfir þessari tillögu sem við hér ræðum og stuðningi við þessa tillögu. Þessi tillaga er nokkuð sérstaks eðlis. Það kemur til af því að Vestfirðir hafa sérstöðu í þróun byggðamála. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það í hverju þessi sérstaða liggur. Við skulum minnast þess að landsbyggðin vítt og breitt um landið og einstök byggðarlög hafa átt í vök að verjast, hlutfallslega fækkað fólkinu og samdráttur orðið víða út um landsbyggðina.
    Sérstaða Vestfjarða er fólgin í því að á Vestfjörðum hefur ekki einungis fækkað á þessari öld hlutfallslega íbúum heldur tölulega. Það er eina kjördæmið í landinu þar sem fólksfækkunin hefur orðið svo mikil að það hefur ekki einungis fækkað hlutfallslega heldur tölulega. Á þessu byggist sérstaða Vestfjarða og þróunin síðustu missirin er ekki til þess að hughreysta í þessu efni ef ekki verður gert neitt að. Það sem þarf að gera er að gera sérstakar ráðstafanir til þess að hamla þeirri ískyggilegu þróun sem hefur verið á Vestfjörðum og er sérstæð fyrir Vestfirði. Þess vegna var það að þegar hæstv. samgrh. kom í byrjun þessa árs með hugmyndir sínar um að flýta framkvæmd á jarðgöngum þeim sem hér um ræðir voru það fagnaðartíðindi fyrir fólkið á Vestfjörðum af því að mönnum þótti að þetta væri sérstakur skilningur á því að það yrði að grípa til sérstakra ráðstafana til þess að styrkja byggðina á Vestfjörðum.
    Ég þarf ekki að fjölyrða um þetta en nú er komin fram þáltill. um að flýta framkvæmdum við jarðgöng á Vestfjörðum eins og fram kom í hugmyndum ráðherra fyrst þegar þær komu í dagsins ljós í byrjun þessa árs. Og þá var tekið fram og samkvæmt þessari tillögu er það svo að það er gert ráð fyrir að útvega sérstakt fjármagn til þessara framkvæmda sem hér um ræðir. Það er ekki gengið út frá því að það sé gengið á framkvæmdafjármagn annarra verkefna á Vestfjörðum. Það er ekki gengið út frá því að það sé gengið á framkvæmdafjármagn annarra verkefna í öðrum kjördæmum, nei. Það er gert ráð fyrir því að það sé útvegað sérstakt fjármagn í þessu skyni. Og það er hægt að gera. Það er réttlætanlegt vegna þess að það eru sérstakar aðstæður í þessu kjördæmi, sem ég hef hér vikið að.
    Ég þarf ekki hér að fara að ræða um það hve þýðingarmikil jarðgöngin eru fyrir byggðaþróun á Vestfjörðum. Hæstv. samgrh. kom nokkuð inn á þau efni. En ég vil að það komi fram að á fjórðungsþingi Vestfirðinga í september sl. var gerð grein fyrir og lagt fram þingskjal sem varðar þetta mál, hvaða þýðingu jarðgöngin hafa fyrir Vestfirðinga og sérstaklega byggðina á norðanverðum Vestfjörðum í ýmsum samböndum. Þar eru tíunduð atriði sem varða þjónustustofnanir atvinnuveganna. Þar er tíundað það sem varðar sérstaklega sjávarútveginn og þar er tíundað það sem sérstaklega varðar fiskiðnaðinn, landbúnaðinn, opinbera þjónustu margs konar,

samgöngur o.fl. o.fl. Þetta var lagt fram á fjórðungsþingi Vestfirðinga í september sl. En ég vil upplýsa það að síðan hefur Fjórðungssambandið unnið að þessum málum og frekari athugunum og útfærslum á ýmsum hugmyndum sem geta komið til framkvæmda á grundvelli þess að jarðgöng verði fyrir hendi. Og það er ekki einungis að í því felist bætt þjónusta fyrir fólkið á Vestfjörðum heldur og eru ýmsir þættir þess eðlis að þeir geta dregið úr kostnaði sem þarf til þess að veita þessa þjónustu.
    Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins um leið og ég lýsi ánægju minni og stuðningi við þessa þáltill. drepa á örfá atriði sem ég hef hér gert. Meginatriðið er það að þessari tillögu verði tekið vel og afgreiðslu tillögunnar verði flýtt svo sem verða má og það megi verða tryggt að hún hljóti afgreiðslu á þessu þingi. Ég vil mega vonast til þess að sú verði raunin á og ég efast ekki um að hæstv. samgrh. er alvara þegar hann leggur ríka áherslu á það að málið fái skjóta og góða afgreiðslu á þinginu.