Jarðgöng á Vestfjörðum
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Þessi þáltill. vekur furðu mína vegna þess að á sama tíma hefur núv. ríkisstjórn skert verulega vegafé. Og það bitnar á öllum landsmönnum. Á sama tíma hefur núv. ríkisstjórn ekki bolmagn til þess að standa undir viðhaldi á einum fjölfarnasta vegi landsins. Ég er að tala um Reykjanesbrautina, þar sem þúsundir manna fara um á hverjum degi, þar sem stórkostleg hætta er og vegurinn er þannig að það er algerlega óforsvaranlegt að ekki skuli gert við hann. Ég vil benda á það í þessu sambandi að aðeins aukakostnaðurinn við flýtingu framkvæmda á þessari áætlun mundi nægja og meira til til að leggja nýtt slitlag á alla Reykjanesbrautina eina, en hann er 430 millj. Þetta sýnir hvílíkt ábyrgðarleysi er hér á ferðinni og hvernig tillöguflutningur þetta er.
    Ég flutti í haust með fyrstu málum á þinginu tillögu um tvöföldun Reykjanesbrautar. Sú tillaga hefur verið gagnrýnd fyrir það sem núna er sett í þessa tillögu af hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar, að það eigi að vera sérstök fjáröflun fyrir hana. Maður hlýtur að spyrja sig hvort ríkisstjórnin eigi ekki að standa ábyrg frammi fyrir því sem hún gerir eða hvort hún ætli bara að leggja á skattborgarana hærri skatta. Ég vil benda á að hér er um að ræða áætlun sem sennilega kostar 7--8 milljarða, a.m.k. stendur ekkert um það í tillögunni að hún kosti minna. Maður þyrfti að fá gleggri svör frá hæstv. samgrh. um hvað þetta þýðir í rauninni. Að leggja fram áætlun, eins og þessa hér, um þvílíkt stærðarverk er dónaskapur við þingið. Og það verður að fá því svarað hvaða vegaframkvæmdir á að skera niður í viðbót við þær sem þegar hefur verið ákveðið að skera niður á þessu ári. Það hefur verið ákveðið að skera niður vegafé um 10%, er okkur þingmönnum tjáð, í kjördæmum nú þegar vegna þess að ríkisstjórnin þarf að nota þá peninga í eitthvað annað. Hvar ætlar núv. ríkisstjórn að taka fjármuni upp á 8 milljarða í þetta? Þessum spurningum verður hæstv. samgrh. að svara. Það er ekki hægt að bera það á borð fyrir hv. Alþingi að hér sé fleygt inn áætlun á síðustu dögum þingsins með þessum hætti án þess að henni fylgi ítarleg úttekt og grg. um fjármögnun og hvernig á að standa að þessum framkvæmdum. Annað er dónaskapur. Hér hefur verið samþykkt vegáætlun sem okkur hv. þm. er sagt að megi ekki hvika frá, hún er gerð til fjögurra ára, og það er lágmark að þeirri áætlun sé breytt og þetta sett inn á hana.
    Ég ætla ekki að draga úr mikilvægi þess að leggja jarðgöng á Vestfjörðum, sem er allt annað mál. En hvernig að þessu er staðið er bara blekkingarleikur. Þetta er bara kosningamál. Það sem þeir eru að gera er að þeir hugsa sér að hlaupa frá hvort sem er og þá sé þessi víxill ógreiddur og það komi í hlut einhverra annarra að borga þetta eins og margt annað sem hæstv. ríkisstjórn hefur staðið fyrir. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra getur hrópað hér frýjuorð til skíðamanna, en þeir eru líka á Vestfjörðum. ( KP: Já og ekki verri.) Og ekki verri nei, það er rétt.

    Og það verður að segjast eins og er að grg. sem fylgir þáltill. fullnægir ekki þeim kröfum sem Alþingi Íslendinga gerir til grg. frá ríkisstjórn og ráðherrum um stórfellda framkvæmd sem á að fara fram upp á kannski 8 milljarða. Það hlýtur að vera krafa Alþingis að menn vinni heimavinnuna sína en hendi ekki inn einhverjum kosningavíxlum fyrir hv. Alþingi.