Jarðgöng á Vestfjörðum
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Friðjón Þórðarson:
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um að flýta framkvæmdum við jarðgöng á Vestfjörðum. Og svo sannarlega er þetta gleðiefni að geta flýtt framkvæmdum í samgöngumálum. Ég samfagna vinum mínum Vestfirðingum að eiga þarna von á svona mikilli samgöngubót fyrr en hefði mátt vænta. Það er alveg rétt líka að á undanförnum árum og mjög lengi raunar hafa farið fram umræður í þjóðfélaginu um byggðamál og byggðastefnu. Byggðastefnu sem við áhugamenn, sem um hana höfum talað, höfum ekki getað komið í framkvæmd nema að litlu leyti. Byggðastefnu sem á eftir að vinna stórmikið við og gera stór átök áður en hún rís undir nafni. Og það er ekki hægt að neita því að Vestfirðingar í þeim ágætu byggðum hafa búið við sérstaka erfiðleika í samgöngumálum. Ég segi fyrir mig að ég má ekki til annars hugsa en að allt verði gert sem mögulegt er til að létta þeim róðurinn í þessum efnum. Það eiga þeir svo sannarlega skilið Vestfirðingar. Þær byggðir sem leggja á borð með sér í þjóðarbúið ekki minna en hver maður getur séð sem vill kynna sér það.
    Þess vegna er það svo að okkur getur ekki dulist að það átak sem hér er fyrirhugað í samgöngumálum sé mikils virði fyrir þróun atvinnulífs, menningu og félagsmál þar vestra. Ég fagna öllum átökum sem gerð eru til þess að bæta samgöngur á Vestfjörðum og ann Vestfirðingum alls góðs í þessum efnum. Ég vil endurtaka það.
    Það er aðeins eitt atriði sem ber að íhuga og staldra ögn við þegar rætt er um að hraða framkvæmdum í þessu ,,byggðapólitíska stórmáli``, eins og hæstv. samgrh. komst að orði. Sú athugasemd er þess efnis hvort flýting þessarar jarðgangagerðar kunni ekki að seinka öðrum framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru í samgöngumálum, hvort sem þær eru innan eða utan gildandi vegáætlunar. Það er þetta atriði sem við þurfum að staldra við og íhuga.
    Og auðvitað eru þær athugasemdir réttar, sem hér hafa komið fram frá fleirum en einum ræðumanni, að þegar um svo dýrar og miklar framkvæmdir er að ræða þurfi vitaskuld að gera nákvæma og glögga grein fyrir því hvernig afla eigi fjár til þeirra af hálfu stjórnvalda.
    Ég ætla ekki að ræða um þetta í löngu máli en í þessu efni vil ég þó aðeins ræða og nefna eina einustu framkvæmd í samgöngumálum. Svo vill til að sú vegagerð snertir einmitt Vestfirðinga allra manna mest að mínum dómi. Það er vegagerð yfir Gilsfjörð. Það mál hefur verið kannað á undanförnum árum og til þeirra rannsókna hefur runnið fé árlega. Þeirri rannsókn lýkur á þessu ári og er fullyrt að nægileg fjárveiting sé þegar fyrir hendi til að greiða allan kostnað sem um verður að ræða í þessu skyni. Allar rannsóknir, sem þetta mál varða, lofa góðu og sýna arðsemi og hagræði frá öllum hliðum. Þær eru óteljandi þær samþykktir sem gerðar hafa verið um þetta mál bæði á Vesturlandi og Vestfjörðum og ég veit ekki betur en alþingismenn Vesturlands og

Vestfjarða séu einhuga um málið. Óteljandi samþykktir í háum bunkum hafa verið gerðar um þetta efni bæði vestan Gilsfjarðar og sunnan. Og allir sem til þekkja telja þetta stórmál.
    Ég vil leyfa mér að benda á að fyrir þessari framkvæmd, sem ég nú nefni, má færa mörg rök sem ég ætla ekki að telja upp nú en segja þó að hún er á svæði svokallaðrar Dalabyggðaáætlunar. Það er ein elsta byggðaáætlun sem gerð hefur verið og staðfest af ríkisstjórn. Það var á ríkisstjórnarfundi 13. febr. 1981. Ég held að okkur alþingismönnum sé sæmra að reyna að framfylgja þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið heldur en láta okkur nægja að þær rykfalli einhvers staðar uppi í hillum. En um þetta mál má ræða svo margt að ég ætla ekki að eyða tíma í það, aðeins segja að það er mitt álit að þessi ágæta framkvæmd sem við ræðum hér um og varðar jarðgöng á Vestfjörðum megi ekki seinka þeirri framkvæmd sem ég hef hér gert að umtalsefni, vegagerð yfir Gilsfjörð, sem fyrirhugað er að framkvæmd verði í beinu framhaldi af brúargerð á Dýrafirði sem á að ljúka á næsta ári, þ.e. að það þurfi að hefja þessa framkvæmd á Gilsfirði á árinu 1992.