Jarðgöng á Vestfjörðum
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil lýsa stuðningi mínum við þetta mál. Þetta er mál sem er stór liður í því að reyna að halda byggð í þessu landi í sæmilegu horfi og minnka mismuninn á lífsaðstöðunni í landinu. Ég ætla ekki að fara að ræða efni tillögunnar, það er búið að gera það af öðrum og ég hef litlu við það að bæta. En ég er ekki sammála því sem hefur komið hér fram. Það eru hliðstæðar ástæður t.d. á Austfjörðum og á Vestfjörðum í samgöngumálum og í byggðamálum. Þar á ég við t.d. Neskaupstað, Mjóafjörð og jafnvel Vopnafjörð þó að ég telji að það sé alveg rétt að jarðgöng um Vestfirði hafi átt að ganga fyrir. Það tel ég rétt. En við megum ekki gleyma því að það er ekki ósvipað ástand og knýjandi þörf að gera þetta t.d. á Austfjörðum. Við getum ekki búist við því að það fólk sem stendur undir velmegun í landinu, þ.e. í þessum sjávarplássum, uni því til lengdar að hafa allt aðra lífsaðstöðu en er í öðrum byggðum landsins. En ég get ekki betur séð en að óvíst sé hvernig þessar framkvæmdir verða á næstu árum. Við stöndum á krossgötum í sambandi við atvinnustefnu í landinu.
    Það er verið að tala um stóriðju. Það er verið að tala um það að meðan á uppbyggingu hennar stendur verði hið opinbera, bæði ríkið og sveitarfélögin, að draga úr sínum framkvæmdum. Ég heyrði að í fréttum í gær var talað um það að Atlantal-hópurinn vildi tryggja sér að byggja ekki 200 heldur 400 þúsund tonna álsmiðju á Íslandi á næstu tíu árum. Hvað þýðir þetta ef af verður og ef framkvæmdir liggja eftir eins og seðlabankastjóri er búinn að áleggja ríkisstjórn að gera og embættismenn ríkisins tala nú um á bak við tjöldin? Við sem berum ábyrgð á framkvæmdastefnunni í landinu hljótum að staldra við og hugleiða hvað er hér á seyði. Það er alveg rétt sem hv. þm. Friðjón Þórðarson sagði áðan, það var tekin ákvörðun um fyrir mörgum árum að stefna að því að byggja brú á Dýrafirði. Það er ekki nóg að samþykkja þessa tillögu ef svo er verið að tala um á sama tíma að það verði að draga úr þessum framkvæmdum. Það er ekki nóg að ákveða vegafé á fjárlögum í vegáætlun og taka það svo til baka. Það er ekki nóg. Ef við viljum vera ábyrg á annað borð verðum við að horfa á þessi mál af fullri einurð, af kjarki og ekki að láta alls konar agenta villa okkur sýn.

Agentar hafa hér áður sést
og oftast í gróðaleit.
Sannleikann fáir mátu mest,
mundu ekki gefin heit.

    Það hefur sannast og mun áfram sannast að það er ekki nóg að samþykkja gott mál á Alþingi ef því er ekki fylgt eftir. Og það er eins víst og tvisvar tveir eru fjórir að ef ákveðið verður að byggja á næstu tíu árum, hvar sem það verður staðsett, 400 þúsund tonna álver þá er byggðastefnan búin að snúast í andhverfu

sína og þá er þýðingarlítið fyrir okkur að samþykkja þetta mál að mér sýnist. Eða ég vil spyrja hæstv. samgrh. sem ég veit að berst fyrir þessu máli af heilindum: Hvernig getur hann tryggt það ef hin ákvörðunin verður tekin og ef farið verður eftir ráðleggingu seðlabankastjóra og annarra hagfræðinga, sem eru að ræða um það í skúmaskotum að þetta sé gott mál? Álverksmiðja er mjög gott mál, segja þeir. En þeir segja líka: Það fer verðbólguskriða af stað nema dregið verði úr öðrum framkvæmdum. Það er málið.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mál mitt lengra nú. Ég mun ræða þetta álævintýri betur hér í sölum Alþingis síðar. Ég hef reynt að afla mér þeirra upplýsinga sem mögulegt er að fá bæði í Evrópu og vestan hafs. Og ég hef reynt að kynna mér hvernig hefur verið staðið að eftirliti hjá ÍSAL. Ég hef reynt að fá þær upplýsingar sem hægt er í þessu máli. Það er ekki fallegur lestur að hlusta á fyrir þá sem hafa ráðið þessum málum á undanförnum árum og ráða enn. Og ætla sér svo að fara út í svona framkvæmd miðað við þá reynslu sem við höfum er forkastanlegt.