Jarðgöng á Vestfjörðum
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Ég hlýt sem Vestfirðingur og íbúi á því svæði sem hér er verið að ræða um að fagna mjög þessari tillögu. Ég hygg, enda hefur það komið fram hjá velflestum hv. þm. sem hér hafa talað, að menn skilji þörfina og nauðsynina á því að hendi verði tekið til að því er samgöngumál varðar á Vestfjörðum. Það er að vísu ein undantekning, hv. 11. þm. Reykn. fór aðeins út af sporinu í sinni ræðu og fór að tala um Reykjanesbrautina í tengslum við þetta, eins og hún kæmi þessu máli eitthvað við, braut sem er búin að vera teppalögð í marga áratugi. Ég hygg að þeir sem eru þessarar skoðunar eins og hv. þm. Hreggviður Jónsson ættu að íhuga svolítið aðstæður á þessu svæði.
    Hér utan dyra eða suður með, í Hafnarfirði, Kópavogi eða enn sunnar sjá menn ekki mikinn snjó. Á Vestfjörðum eru þriggja hæða hús núna á kafi í snjó. Þeir sem tala á þann hátt sem hv. þm. Hreggviður Jónsson gerði gera sér auðvitað enga grein fyrir aðstæðum á þeim svæðum sem verið er að tala um. Einstaklingar á borð við hann ættu auðvitað að setjast að á þessum svæðum, vera þar í nokkurn tíma þegar mest gengur á og vita hvort hugarfarið breyttist þá ekki í þá veru að þarna sé þörf á því að bæta úr. Ég hygg að það dyljist engum, sem á annað borð hugleiðir málið og vill vera sanngjarn, að ekkert landsvæði er eins illa sett samgöngulega séð og Vestfirðir. Þá er ég að tala um landshlutann. Auðvitað geta menn tekið út úr einhvern tiltekinn stað annars staðar á landinu og sagt svipað um hann. En svæðið á Vestfjörðum, sem heild, er samgöngulega séð langverst sett af öllum svæðum sem hægt er að ræða um.
    Menn hafa mikið rætt um þessa framkvæmd, sem ég auðvitað geri ráð fyrir að verði, þó að ég taki að vísu undir það sem fram hefur komið í þessum umræðum, að oft er ekki nægilegt að þáltill. séu samþykktar hér á Alþingi. Meira að segja er ekki nóg að lög séu samþykkt á Alþingi. Það tekur ærið langan tíma að framkvæmdin skili sér þó að Alþingi sé búið að veita samþykki sitt og leggja
blessun sína yfir málið. Á það vil ég leggja mikla áherslu. Ég geri ráð fyrir því, og raunar veit eftir undirtektum sem hafa komið fram, að þessi tillaga verður samþykkt í þinglok. Ég er ekki í neinum vafa um það. En það dugar ekki. Það verður að sjá svo um að framkvæmdin skili sér. Það dugar ekki að samþykkja tillögur sem síðan eru lagðar til hliðar og ekkert með þær gert. Ég legg höfuðáherslu á það að framkvæmdin komi í ljós strax.
    Menn hafa eðlilega spurt: Er með þessari tillögu verið að slá einhverju öðru á frest í samgöngumálum? Ég er sömu skoðunar og hv. 4. þm. Vestf. að ekki sé verið að slá neinu öðru á frest. Hér er verið að tala um að afla fjármagns til þessa verkefnis án þess að það skerði önnur. Ef svo er ekki óska ég eftir því að hæstv. samgrh. greini frá því hér. Ef meiningin er, eins og sumir, ja fullyrða ekki en vilja upplýsingar

um, að þessi framkvæmd þýði að það verði skorið annars staðar í samgöngumálum þá eru menn að tala á röngum nótum. Ég lít þannig á þetta mál að hér eigi að afla sérstaks fjármagns án þess að skerða neins staðar annars staðar það sem búið er að ákveða. Auðvitað er nauðsynlegt að það komi fram hvort þetta er ekki réttur skilningur.
    Hv. 4. þm. Vestf. vitnaði til samþykkta frá fjórðungsþingi, ítrekaðra samþykkta þaðan, ekki bara einu sinni heldur oftar og um fleiri mál líka. Á sama tíma og fjallað var um jarðgangagerð á fjórðungsþingi var samþykkt sérstök ályktun að því er varðaði Óshlíðarveg og vakin athygli á að bæta þarf öryggi á þeirri leið. Skal ég ekki víkja að því frekar hér. Það kemur væntanlega til umræðu við afgreiðslu vegáætlunar. Auðvitað hefur Fjórðungssamband Vestfirðinga haft í fleiri horn að líta en þetta. Nú eru á ferðinni stórmál sem geta haft veruleg áhrif á byggðaþróun í landinu sem víða hefur farið mjög illa með tiltekið landsvæði og virðist eiga að halda áfram undir handleiðslu stjórnvalda ekki bara núverandi heldur og áður. Ég nefni þar t.d. kvótann, fiskveiðistefnuna. Hvaða áhrif halda menn að frv., sem hæstv. ríkisstjórn lagði fram á Alþingi og nú liggur fyrir í hv. Ed., eða þau lög, verði það samþykkt, hafi á byggðaþróun t.d. á Vestfjörðum á næstu árum og áratugum? Menn verða auðvitað að ræða byggðastefnuna í samhengi ef hún á að vera á annað borð.
    Virðulegur forseti. Ég skal fara að hætta. Það má segja miklu fleira um þessi mál og auðvitað er þörf á því að ræða þau. Ég legg áherslu á það að í mínum huga þýðir afskaplega lítið að byggja jarðgöng á Vestfjörðum eða flýta þeim um eitt ár ef á samtímis af hálfu stjórnvalda að draga kjark og líf úr því fólki sem byggir þetta svæði með helstefnu í fiskveiðum eins og henni hefur verið beitt og og á að versna, eins og allt lítur út fyrir, með frv. sem liggur fyrir Alþingi. Það dugar ekki að taka í einn spotta sem kannski virðist landfastur ef hinum er sleppt sem líka þarf að byggja á. Líftaugin er víðar en í samgöngum. Það þarf líka að afla teknanna, ekki bara fyrir Vestfirði heldur og fyrir þjóðfélagið. Og það gerist í gegnum fiskinn, fiskveiðar og fiskvinnslu. Til þess að það geti gerst þurfa menn að njóta þess að vera í nálægð fiskimiða og geta hagnýtt þau á sem ódýrastan hátt. En það gerist ekki með því að farið verði með fiskveiðistefnuna um ótiltekinn tíma eins og hæstv.
ríkisstjórn leggur til. (Forseti hringir.) Já, virðulegi forseti, ég skal hætta. En ég ítreka stuðning minn við þessa þáltill. en ítreka enn frekar að það er ekki nóg að samþykkja hana. Það verður að hefja framkvæmdir í áframhaldi af því. Ég er ekki í neinum vafa um það að til þess er ætlast og ég treysti hæstv. samgrh. til þess að sjá svo um, hvað sem öðru líður, að framkvæmdin eigi sér stað eftir að tillagan hefur verið samþykkt. Ég ítreka einnig þá skoðun mína að með þessu er ekki verið að mínu viti að draga úr framkvæmdum á öðrum sviðum.