Jarðgöng á Vestfjörðum
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Þessar umræður hafa verið um margt athygli verðar. Ég vil segja það sem mína skoðun að því er varðar efnisatriði tillögunnar sem hér liggur fyrir að ég hygg að fá mál skipti meira til þess að tryggja byggð á Vestfjörðum en einmitt framkvæmdir af þessu tagi. Ég hygg réttnefni að hér sé um byggðapólitískar ákvarðanir að ræða. Ég hef sannfærst um það í heimsóknum vestur á firði að slíkar framkvæmdir muni alveg vafalaust ráða úrslitum um þróun byggðar á þessu mikilvæga atvinnusvæði landsins.
    Ég vil þess vegna minna á og taka undir þá áminningu hv. 2. þm. Vestf. að það var hv. 1. þm. Vestf., á meðan hann var samgrh., sem varðaði veginn í þessu efni og lagði af stað með þau stórhuga áform sem menn sjá nú fyrir að senn komist í framkvæmd. Það er jafnframt nauðsynlegt að vekja á því athygli, sem hér hefur rækilega verið gert ekki einungis af talsmönnum stjórnarandstöðunnar heldur líka af öllum talsmönnum stjórnarflokkanna sem hér hafa talað, að hæstv. samgrh. hefur ekki sýnt mönnum fram á að hann sé að flytja tillögu um að flýta verkáætlun í fullri alvöru. Honum hefur ekki tekist að sýna fram á að það sem við á að eta, sem eru peningarnir, sé fyrir hendi. Og þær efasemdir hafa komið fram ekki síður af hálfu talsmanna stjórnarflokkanna en stjórnarandstöðu. Þessum framkvæmdum verður ekki flýtt án þess að fjármagn sé fyrir hendi. Hæstv. núv. samgrh. hefur reist sér minnisvarða. Hann hefur reist sér minnisvarða um að vera sá ráðherra samgöngumála sem gengið hefur lengst í því að skera niður framkvæmdir í samgöngumálum, að stöðva þá þróun sem verið hefur í þeim efnum og að hindra að þær áætlanir, sem gerðar hafa verið, næðu fram að ganga. Enginn samgrh. hefur gengið jafnlangt í því og núv. hæstv. ráðherra. Það er sá minnisvarði sem hann hefur reist sér. Og nú á að reyna að bæta nokkuð úr með því að leggja fram
tillögu um að flýta framkvæmdum, sem eru mikilvægar fyrir þróun byggðar á Vestfjörðum, en án þess að sýna fram á að það sé unnt að gera þetta, án þess að sýna fram á að fjármagnið sé fyrir hendi.
    Það eru opnuð ávísanahefti á lánsfjárlög og fjárlög en ekki gerð grein fyrir því með hvaða hætti á að ná þeim markmiðum. Hæstv. fjmrh. hefur á stundum sagt að taka þurfi á ríkisfjármálum með miklu aðhaldi. Ekki sé hægt að ávísa úr ríkissjóði án þess að menn hafi séð fyrir hvernig á að afla peninganna. Og hann hefur stundum flutt hér ádrepur í þeim efnum. Að vísu hefur enginn fjmrh., að ég hygg, haft önnur eins lausatök á stjórn ríkisfjármálanna og einmitt sá hæstv. ráðherra sem nú situr í þeim stól. Hann talar þannig tungum tveimur. Það kemur heim og saman við aðrar athafnir hans. Hann er hvort tveggja í senn formaður Alþb. og helsti andstæðingur þess í framboði til borgarstjórnarkosninga hér í Reykjavík. Þeir eru formaður og varaformaður í Alþb., hæstv. fjmrh. og hæstv. samgrh. Og það er ástæða til að spyrja hvort

það kunni að vera vík milli vina í samgöngumálunum eins og í flokksmálunum.
    Það er auðvitað ekki hægt að ljúka, frú forseti, umræðu af þessu tagi án þess að hæstv. fjmrh. geri grein fyrir fjárhagslegri hlið málsins. Því hæstv. samgrh. er búinn að opna ávísanahefti bæði á fjárlög og lánsfjárlög, ekki bara á næstu árum heldur líka á þessu ári, vegna þess að það á að breyta fjárlögum þessa árs í þessu skyni. Og með hliðsjón af öllum hinum stóru yfirlýsingum hæstv. fjmrh. um hina nýju stefnu sem hann stundum segir að ríki í fjmrn. er alveg óhjákvæmilegt að hæstv. fjmrh. komi hér og geri grein fyrir afstöðu sinni til málsins. Geri grein fyrir því hvernig þessi málatilbúnaður um fjármögnun verksins samræmist öðrum yfirlýsingum fjmrh. um fjármálastjórn hæstv. ríkisstjórnar. Það eru stundum gerðar kröfur til þess að ríkisstjórnir hafi samræmda stefnu.
    Við vitum að þetta er ekki í fyrsta skipti sem áform eru uppi um að flýta framkvæmdum af byggðapólitískum ástæðum. Í flestum kjördæmum, að ég hygg, hafa verið teknar ákvarðanir í samgöngumálum vegna brýnna byggðahagsmuna að flýta mikilvægum verkefnum. Ég veit að a.m.k. í mínu kjördæmi hafa slíkar ákvarðanir verið teknar. En hæstv. núv. ríkisstjórn hefur með niðurskurði sínum reynt að koma í veg fyrir og reyndar komið í veg fyrir að unnt væri að endurgreiða lán, sem tekin hafa verið af þeim sökum, eins og áætlanir stóðu til um. Það veit hæstv. dómsmrh. Í ljósi þessa er auðvitað full ástæða til að hæstv. fjmrh. geri ítarlega grein fyrir því hvernig á að standa að fjármögnun þessara framkvæmda. Það verður ekkert gert, það vita Vestfirðingar, nema peningar séu fyrir hendi.
    Ég óska þess vegna eftir því, frú forseti, að þessari umræðu ljúki ekki fyrr en hæstv. fjmrh. hefur gert grein fyrir þessari mikilvægustu hlið málsins af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Því að öll þessi góðu áform velta á því hvaða ákvarðanir verða teknar í þeim efnum. Stjórnarþingmenn hafa lagt á það áherslu að þessi áform megi ekki skerða aðrar framkvæmdir. Hvernig eiga menn að trúa því eftir þann mikla niðurskurð sem núv. hæstv. ríkisstjórn hefur staðið fyrir í samgöngumálum? Það er óhjákvæmilegt að hæstv. fjmrh. geri, a.m.k.
stjórnarþingmönnum, nokkra grein fyrir þeim áleitnu og alvarlegu spurningum sem þeir hafa sett fram í þessu efni.
    Þess vegna ítreka ég þá ósk mína, frú forseti, að hæstv. fjmrh. verði kallaður til þessarar umræðu og honum verði gert að gera ítarlega grein fyrir fjármögnunarhlið þessara áforma svo að menn geti rætt tillöguna í fullri alvöru. Því að sannarlega er það svo að það verkefni, sem er verið að fjalla um, og þau áform um að flýta framkvæmdum eru mikilsverð og verðskulda það að ítarlega sé gerð grein fyrir þeirri forsendu hvernig fjármagna eigi framkvæmdirnar.