Jarðgöng á Vestfjörðum
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þáltill. sem er til umræðu. Ég tel hana góðra gjalda verða og eðlilegt að hæstv. samgrh. leggi sig fram um að sýna fram á að hann hafi áhuga á því að flýta jarðgangagerð á Vestfjörðum. Þetta mál verður væntanlega sent til hv. fjvn. og skoðað þar ásamt vegáætlun. Mig langar hins vegar, þar sem ég hef tækifæri til þess við þessa umræðu, að ræða örlítið mál sem kannski er efnislega óskylt en er þó náskylt að því leytinu til að til þess þarf verulega fjármuni og það telst einnig til vegagerðar. Þar á ég við þær miklu skuldir sem hrannast hafa upp vegna framkvæmda hér á höfuðborgarsvæðinu, einkum í höfuðborginni sjálfri. Skuldir sem hafa orðið til vegna þess að Reykjavíkurborg hefur fjármagnað sjálf bráðnauðsynlegar framkvæmdir í vegagerð sem ríkið á í tímans rás að greiða en ekki hefur enn tekist, svo að ég viti til, að ná samkomulagi um hvernig greiða skuli þessar skuldir. Ef allur kostnaðurinn sem ríkið ætti að borga lögum samkvæmt fellur á ríkið, en um það er vissulega deilt, a.m.k. um þær framkvæmdir sem áttu sér stað fyrir allnokkru síðan, má áætla að skuldir ríkisins við Reykjavíkurborg aðeins af þessum málum séu um 900 millj. kr. Við afgreiðslu fjárlaga rétt fyrir síðustu jól var opnuð heimild í 6. gr. laganna til þess að semja um þetta mál m.a. Það hlýtur að vera hlutverk hv. fjvn. og reyndar hæstv. samgrh. og auðvitað hæstv. fjmrh. að fjalla um þetta mál því að hér er um að ræða slíkar upphæðir að ekki verður hjá því komist þegar rætt er um vegagerð og fjármögnun vegagerðar að taka tillit til þessara miklu skulda ríkissjóðs við Reykjavíkurborg. Ég er ekki að ætlast til þess við fyrri umræðu málsins að hæstv. ráðherra svari því nákvæmlega hvar þetta mál stendur. En ég hlýt að gera þá kröfu að hv. nefnd og hæstv. ráðherra vinni að þessu máli þannig að úrslit liggi fyrir eigi síðar en hv. Alþingi afgreiðir þær tillögur sem snerta vegagerð. Því miður hefur sá háttur ekki verið hafður á á undanförnum árum að kalla til þingmenn Reykvíkinga þegar fjallað er um vegáætlun. Það hefur ekki tíðkast mestmegnis vegna þess að á sínum tíma var tiltölulega lítið um framkvæmdir í höfuðborginni sem ríkið átti að greiða. Nú hefur það breyst. Þess vegna er eðlilegt að Reykvíkingar taki í auknum mæli þátt í því að ráðstafa fjármagni til vegagerðar enda er umferð langmest í höfuðborginni sjálfri. Kannski má halda því fram að þar hafi ekki verið staðið að öllu leyti eins vel að málum og með sama hraða og ætlast mætti til miðað við þann mikla umferðarþunga sem er á götum Reykjavíkur, ekki síst á þeim vegum sem teljast til þjóðvegakerfisins. Þá á ég við þann hluta gatnakerfisins sem ríkissjóður á að greiða að öllu eða að hluta.
    Þetta vildi ég, virðulegur forseti, ræða án þess að draga úr því að þessar framkvæmdir eigi sér stað vestur á fjörðum. Ég hef fullan skilning á því en þegar verið er að gefa út ávísun á slíka fjárhæð eins og hér er um að ræða og taka erlent lán til þess að

flýta framkvæmdum þar, sem ugglaust eru nauðsynlegar, verða menn jafnframt að gera sér grein fyrir því hvernig fjárhagsstaðan er að öðru leyti. Ég tel það eitt af forgangsverkefnunum til þess að heildaryfirsýn fáist að hæstv. ríkisstjórn og þá þeir tveir hæstv. ráðherrar sem nefndir hafa verið til sögunnar, ef þeir tala saman, sem ég efast ekki um að þeir geri, ræði þetta mál sín á milli og í framhaldi af því geri þingmönnum Reykjavíkur, og jafnvel hv. Alþingi, grein fyrir því hver staða málsins er að þeirra áliti.
    Virðulegur forseti. Ég vænti þess, án þess að ég sé að gera kröfu til svara við þessa umræðu, að hv. fjvn. skoði þetta mál og geri sér grein fyrir því hvernig afgreiða skuli vegáætlun þegar nefndin kemur saman til að ræða hana.