Jarðgöng á Vestfjörðum
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Virðulegi forseti. Hæstv. samgrh. lauk máli sínu áðan með þeim orðum að menn gætu stytt ræðuhöldin út af byggðamálum og vegamálum. Ég tek undir þau orð ráðherrans og vitna til þess að snemma í haust lagði ég fram þáltill. sem lýtur að vegagerð. Ég sé að hv. 1. þm. Suðurl. kannast við tillöguna þar sem hann yfirgefur salinn. Tillaga sú átti öðrum tillögum fremur undir högg að sækja í þingsalnum. Það þurfti nafnakall til þess að koma henni til nefndar sem er a.m.k. einsdæmi núna í vetur þó að slíkt komi fyrir öðru hvoru. Og nú er þess gætt mjög tryggilega að hún sofi vært í viðkomandi nefnd.
    Tillagan sem hér um ræðir laut að því að kanna hvort varnarliðið væri reiðubúið til að taka þátt í að gera þjóðvegi hér á landi. Ég veit ekki hvort hæstv. fjmrh. kannast við tillöguna en hún lýtur að sjálfsögðu að því að spara ríkiskassanum útgjöld en fyrst og fremst þó að treysta svo varnir þjóðarinnar að hægt sé í rauninni að tala um varnir. Þau ríki sem taka að sér að vernda aðrar þjóðir, eins og Bandaríkin hafa gert, mega ekki láta staðar numið við moldina. Verndin hlýtur að beinast að fólkinu sjálfu ef við eigum að geta talað um vernd af nokkurri sannfæringu. Sú vernd sem lýtur aðeins að moldinni er ekki vernd fyrir fólkið. Hluti af þeim viðbúnaði sem ég sé fyrir mér sem vernd eru greiðir akvegir um landið til þess að komast fram og til baka ef í harðbakkann slær. Það þarf að færa íbúa landsins til eftir því hvar hættusvæði myndast og það þarf að færa varnarliðið til milli landshluta eftir því hvar eldarnir brenna hverju sinni. Allar þjóðir sem hafa staðið í hernaði hafa viðurkennt það sem frumskyldu til þess að koma herjum á milli staða að hafa sæmilegt vegakerfi. Og Bandaríkin hafa staðfest það með því að þau hafa áður boðið að leggja hér vegi Íslendingum að kostnaðarlausu. Við höfum aldrei þegið það. Við höfum verið það stórir upp á okkur. Á meðan tókum við á móti Áburðarverksmiðjunni sem Marshall-aðstoð. Ég sé að hv. þm. Ingi Björn Albertsson skilur líka hvað ég er að tala um.
    Kjarni málsins er sá að á sínum tíma voru Bandaríkin reiðubúin til að leggja akbraut frá Keflavíkurflugvelli utan byggðar alla leið upp í Hvalfjörð. Seinna voru Bandaríkin aftur reiðubúin til að leggja tvöfalda akbraut, hraðbraut, frá Reykjavík til Akureyrar til þess að þjálfa verkfræðisveitir sínar í að gera vegi við svokallaðar heimskautaaðstæður. Þessu höfnuðum við öllu saman. En við höfum þegið Marshall-aðstoðina og við höfum þegið PL480-aðstoðina þar sem Bandaríkin gáfu okkur alla sekkjavöru í 12 ár, alls
kyns korn, tóbak og aðra vöru. Og andvirði þessarar vöru var lagt í sjóð sem seinna varð Framkvæmdasjóður og Framkvæmdastofnun og nú er Byggðastofnun. Byggðastofnun er því meira og minna komin á fót fyrir blóð, svita og tár þrælanna á ekrum Bandaríkjanna. Við erum fullsæmd af því að nota þá peninga hér í landinu. En þegar talað er um vegi sem

hluta af vörnum þá er öllum krossbrugðið og menn fara að tala um að selja landið, leigja landið, selja fjallkonuna og allt þetta bull.
    Í tillögunni sem ég lagði fram var gert ráð fyrir að leggja veg hringinn í kringum landið og velja jafnan skemmstu leið á milli byggða með því að leggja vegina ekki yfir fjöllin eins og hefur tíðkast heldur í gegnum þau. Og þau göng sem þar mynduðust yrðu notuð sem almannavarnabyrgi ef til tíðinda drægi á viðkomandi svæði. Þar er sérstaklega tekið tillit til þjóðvega á Vestfjörðum, Austurlandi, Norðurlandi, í Hvalfirði og víðar. Einmitt á þeim stað sem núna er verið að ræða um hvort og hvernig við getum fjármagnað af eigin rammleik að grafa göng og leggja vegi á milli þeirra byggðakjarna sem þar eru. Því það er alveg rétt að helsta forsenda fyrir byggðaþróun, að byggð haldist út um landið, eru samgöngurnar, að það sé hægt að nýta sameiginleg mannvirki eins og hafnir, að það sé hægt að nýta sameiginleg mannvirki eins og flugvelli og væntanlegan varaflugvöll. Í framtíðinni verður fiskinum skipað burt úr landinu með flugvélum. Þess vegna þurfa að liggja greiðir akvegir til flugvalla til þess að hver einasta verstöð geti nýtt sér þá.
    Ég nefni þetta hér af tveim ástæðum. Ég mundi telja vitinu meira að kanna fyrst hvort Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið séu reiðubúin til þess að fjármagna þessa vegagerð áður en við förum að ræða það hér að við fjármögnum hana ein. Við skulum kanna þennan möguleika áður. Þetta var og er af mörgum kallað aronska í höfuðið á Aroni heitnum Guðbrandssyni sem rak Kauphöllina í Reykjavík í áratugi. En í dag þegar þessi umræða fer fram eru tilviljanirnar bæði margar og merkilegar og á borðinu hjá mér liggur till. til þál. um könnun á fjárveitingum úr Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins. Það eru tveir fyrrv. flokksbræður mínir, Eggert Haukdal og Hreggviður Jónsson, sem er flokksbróðir minn úr mörgum flokkum, sem leggja þetta til. Tillagan hljóðar svo: ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta fara fram könnun á því hvort ákvæði um Mannvirkjasjóð Atlantshafsbandalagsins eða önnur ákvæði heimili fjárveitingar til bættra samgangna vegna stórbrúa og jarðgangagerðar sem nauðsynlegs hluta varnarkerfis landsins.`` Einmitt það sama og ég var að segja. En þá var það kallað að selja fjallkonuna. Og áfram er haldið í þessari
tillögu: ,,Jafnframt verði kannað hvort fordæmi eru fyrir fjárveitingum í öðrum ríkjum bandalagsins til samgangna, fjarskipta og flugvallagerðar af hálfu þess.`` Auðvitað vitum við öll að það er. Norðmenn hafa ekki blakað auga við að taka á móti milljörðum í sitt vegakerfi. Að við tölum ekki um þjóðir eins og Portúgal, Spán, Grikkland og fleiri lönd. Þetta er alls staðar gert vegna þess að í öðrum löndum, þar sem fólk hefur barist í stríði, eru vegir viðurkenndir sem hluti af vörnum. Svo einfalt er það nú.
    Eftir að hafa lesið þessa tillögu sé ég að við Aron Guðbrandsson erum orðnir vanmetakindur í þessari umræðu. Þeir félagarnir Eggert og Hreggviður eru

miklu miklu kaþólskari en við Aron og miklu kaþólskari en páfinn. Og sem aronisti hlýt ég að fagna þeim liðsauka. Samkvæmt þessu sýnist mér þess ekki langt að bíða að skynsamleg tillaga um að kanna þessa möguleika fái þinglega meðferð á hæstv. Alþingi.