Jarðgöng á Vestfjörðum
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Þessar umræður hafa nú gengið nokkuð vítt og breitt í sumum efnum þannig að mér þykir rétt að leggja með örfáum orðum áherslu á aðalatriði þessa máls svo að þau drukkni ekki í því sem minna máli skiptir.
    Þá er það fyrst það að gripið er til sérstakra aðgerða á Vestfjörðum vegna þess að þar eru alveg sérstakar aðstæður. Ég lýsti því í minni ræðu áður í þessum umræðum í hverju sú sérstaða er fólgin og ég ætla ekki að fara að endurtaka það hér nú.
    Hitt aðalatriðið er það að frá fyrstu tíð, eftir að hugmynd kom fram um flýtingu á jarðgöngum á Vestfjörðum, hefur verið gengið út frá því að til þess yrði aflað sérstaks fjár, að það hefði ekki áhrif á aðrar vegaframkvæmdir. Þetta hefur margoft verið ítrekað af hæstv. samgrh. og m.a. á sameiginlegum fundi með þingmönnum Vestf. og öðrum þingmönnum þannig að þetta fer ekki á milli mála. Hæstv. ráðherra ítrekaði þetta hér á þessum fundi.
    En það þarf að útvega fjármagn. Auðvitað er það átak og ég vil ekkert gera lítið úr því. En ég vil samt jafnframt taka það fram að við megum ekki mikla þetta verkefni um of. Þá kemur mér í huga hliðstætt verkefni sem á sínum tíma var, það var að flýta framkvæmdum í samgöngumálum og það vill svo til að það var einmitt í sama kjördæmi. Það var á Vestfjörðum. Það var stórt átak. Ef það væri reiknað til verðlags nú var það upp á 9--10 milljarða, þrisvar sinnum meira verkefni en við erum að tala um nú. En þetta var leyst. Við höfðum ágæta ríkisstjórn þá og hún leysti þetta og það var almennur skilningur á Alþingi að það ætti að gera þetta sérstaka átak fyrir Vestfirði á grundvelli þess að þar voru sérstakar aðstæður. Það er nákvæmlega það sama og nú er um að ræða nema verkefnið er þrisvar sinnum minna.
    Eins og ég sagði áðan að við hefðum haft góða ríkisstjórn sem framkvæmdi þetta á sínum tíma, þá vil ég treysta hæstv. samgrh. til þess að sjá um að þetta verði nú framkvæmt. Ég hef enga ástæðu til þess að ætla annað en að hæstv. ráðherra sé full alvara í þessu efni. Það væri hörmulegt ef hæstv. ráðherra kæmi þessu ekki í framkvæmd vegna þess að þá hefði hann verið að vinna skemmdarverk í samgöngumálum Vestfjarða og byggðamálum Vestfjarða, því að þá hefðu brostið þær vonir sem Vestfirðingar fengu með þessum hugmyndum. Ég vil hins vegar ekki ganga út frá þessu og ég vil ekki ætla þetta. Ég vil mega reikna með því að málið nái fram að ganga. Og ef svo vill til að núv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra vinnist ekki embættisaldur til þess að framkvæma þetta, þá er ég líka vongóður því að ég vil ætla að þeir sem taki við stjórn landsins séu menn til þess að koma þessu máli í höfn.