Áburðarverksmiðjan í Gufunesi
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Nú fer fram umræða utan dagskrár um Áburðarverksmiðjuna í Gufunesi. Forseti vill aðeins skýra gang þess máls.
    Þegar umræðubeiðandi kom til forseta og fór fram á að þessi umræða færi fram í dag leyfði forseti hana vegna þess að erfitt var fyrir forseta, þó ljóst væri að fram kæmi þáltill., að neita um umræðu utan dagskrár þar sem forseti átti þar sjálfur í hlut. Forseti vissi hins vegar ekki að fram kæmi önnur tillaga frá samflokksmanni hv. 1. þm. Reykv. Það er því ljóst að hér verða umræður, ef leyfðar verða, þær krefjast að vísu afbrigða en að öllum líkindum fara þær umræður fram.
    Að þessu sögðu vill forseti þess vegna fara fram á það við hv. þingheim að menn reyni að takmarka svolítið lengd umræðna vegna þess að umræður um þetta viðamikla mál fara fram hér innan tíðar í þinginu.
    Forseti hafði hugsað sér að halda fundi ekki lengur áfram en til kl. 6 og vænti ég að þá náist að ljúka þessari umræðu með góðri samvinnu við hv. þingmenn.