Áburðarverksmiðjan í Gufunesi
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Eiður Guðnason (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt og nauðsynlegt að benda á það í upphafi þessarar umræðu, þrátt fyrir þær skýringar sem forseti hefur gefið, að skv. 32. gr. þingskapa er ekki eðlilegt að þessar umræður fari fram með þeim hætti sem forseti hefur lýst, ef forseti og þingmenn vilja halda sig við þingsköp og innan ramma þeirra. Í fyrri mgr. 32. gr. eru ákvæðin um takmarkaða umræðu utan dagskrár, þ.e. hálfa klukkustund, og það er alveg ljóst að samkvæmt henni getur hvaða þingmaður sem er, ef hann ber fram óskina með réttum hætti, eins og hér segir, fengið að ræða mál utan dagskrár í hálfa klukkustund. En í 2. mgr. 32. gr. þingskapa segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Forseti getur leyft að tekið sé fyrir mál utan dagskrár sem í senn er svo mikilvægt að ekki rúmast innan ramma 1. mgr. og svo aðkallandi að ekki geti beðið meðferðar skv. 31. gr. eða annarra formlegra þingmála. Fer þá um umræðu mmálsins skv. 36. gr. eftir því sem við á.``
    Nú á að ræða þetta mál samkvæmt þessari málsgrein þingskapa, þ.e. umræðunni eru ekki sett tímamörk og málið er svo mikilvægt að ekki rúmast innan ramma og svo aðkallandi að það geti ekki beðið meðferðar eða formlegra þingmála. Nú háttar hins vegar svo til, virðulegi forseti, að fyrir liggja tvö þingmál um þetta efni og verða væntanlega rædd hér á mánudag og þá sé ég í rauninni ekki að hér sé farið að þingsköpum. Ég hef a.m.k. miklar efasemdir um það og ég held að þetta sé óeðlileg og í rauninni röng málsmeðferð þar sem komin eru tvö bókuð þingmál, þ.e. 557. mál, um byggingu nýrrar áburðarverksmiðju, og 560. mál, um Áburðarverksmiðju ríkisins í Gufunesi, þar sem 1. flm. er virðulegur forseti Sþ.
    Ég held að hér verðum við aðeins að staldra við og athuga okkar gang því að hér sýnist mér beinlínis vera farið á svig við það sem stendur í 32. gr. þingskapa. Ég er ekki að leggja neinn efnisdóm á það hvort rétt sé að ræða þetta mál. Efni málsins er þessu óviðkomandi. Það er aðferðin og vinnubrögðin sem hér eru höfuðatriði og skipta máli. Ég mælist til þess að forseti íhugi þetta lítið eitt betur vegna þess að hér sýnist mér að mistök hafi átt sér stað.