Áburðarverksmiðjan í Gufunesi
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka virðulegum forseta fyrir þá ákvörðun að leyfa þessa umræðu sem er afar eðlileg eftir það sem á undan er gengið.
    Ástæðan fyrir því að ég hef óskað eftir þessum umræðum utan dagskrár er það óhapp sem varð við Áburðarverksmiðjuna á páskadag og þær umræður sem orðið hafa um atburðinn síðan. Ég tek það strax fram í upphafi að ég tel að fjölmiðlar, einkum ljósvakamiðlarnir, hafi ofgert í fréttaflutningi og ofmetið hættuna vegna óhappsins og gert meira úr þeirri hættu sem varð af þessu tiltekna slysi vegna þess hve ammoníakmagnið var lítið í geyminum á þeirri stundu sem slysið varð. Þá finnst mér mjög alvarlegt hvernig pólitísk samtök hafa reynt að nýta sér þetta óhapp til að vekja athygli á sér. Sérstaklega vil ég nefna pólitískar árásir Nýs vettvangs á borgarstjórann í Reykjavík og almannavarnanefnd Reykjavíkur.
    Í Morgunblaðinu í gær birtist grein frá Nýjum vettvangi þar sem segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum ríkisins hefur almannavarnanefnd Reykjavíkur ekki sinnt lágmarksskyldum sínum varðandi öryggismál og viðbrögð við hættuástandi í borginni. Almannavarnanefnd Reykjavíkur er talin ein verst skipulagða almannavarnanefnd landsins en þær eru 62 að tölu.`` Síðar í þessari grein segir: ,,Engin ítaráætlun er til vegna yfirvofandi hættuástands fyrir ný borgarhverfi. Gildandi ítaráætlun er frá árinu 1976. Á stopulum fundum almannavarnanefndar Reykjavíkur hefur komið fram að æðstu embættismenn borgarinnar hafa ólíkan skilning á hlutverkum sínum og viðbrögðum við hættuástandi. Almannavarnir ríkisins skortir úrræði til þess að veita almannavarnanefnd Reykjavíkur aðhald.`` Og enn síðar segir í þessari grein: ,,Víða í borginni eru geymdar birgðir hættulegra efna sem stefnt geta lífi og
heilsu borgarbúa í voða. Samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum ríkisins eru ákveðnir borgarhlutar í umtalsverðri hættu af þeim sökum. Aðstandendur Nýs vettvangs hafa gilda ástæðu til að efast um úrræðagetu almannavarnanefndar Reykjavíkur þegar bregðast þarf skjótt og skipulega við aðsteðjandi vá.``
    Þetta er orðrétt úr yfirlýsingu frá Nýjum vettvangi sem birtist í Morgunblaðinu í gær, hinn 19. apríl.
    Í morgun sendu Almannavarnir ríkisins frá sér fréttatilkynningu og í henni kemur fram þetta m.a., með leyfi forseta:
    ,,Almannavarnir ríkisins hafa ekki gefið neinar yfirlýsingar um að almannavarnanefnd Reykjavíkur hafi ekki sinnt lágmarksskyldum sínum varðandi öryggismál og viðbrögð við hættuástandi í borginni. Enginn samanburður er gerður á störfum almannavarnanefnda í landinu þar sem áherslur á störfum þeirra eru mjög mismunandi og miðast við ólíkar áhættur sem ógna á hverjum stað. Í neyðaráætlun Almannavarna Reykjavíkur eru fyrir

fram gefin fyrirmæli almannavarnanefndar til þeirra stofnana og sveita sem fara með fyrstu viðbrögð gegn hættu eða vá og ákvæði um verkaskiptingu þeirra í þeim viðbrögðum. Almannavarnanefnd tekur ekki við beinni stjórn og samræmingu aðgerða á neyðartímum fyrr en langtímaaðgerðir eru hafnar. Neyðaráætlun Almannavarna Reykjavíkur er frá 1982 en ekki 1976. Hlutverk æðstu embættismanna borgarinnar á neyðartímum eru nákvæmlega skilgreind í þeirri áætlun. Hefur nefndin falið embættismönnum sínum að taka þátt í námskeiðum og öðrum þjálfunum sem stofnað hefur verið til á sviði Almannavarna, svo og sent nefndarmenn og björgunarforingja til að kynna sér hliðstæð almannavarnastörf erlendis.
    Almannavarnir ríkisins hafa ekki reynt að túlka skilning æðstu embættismanna borgarinnar á hlutverkum sínum og viðbrögðum við hættuástandi. Í stóræfingum Almannavarna í Reykjavík, svo og í hættutilvikum og neyð þegar almannavarnanefndin hefur starfað að stjórn og samræmingu aðgerða, hefur ekkert annað komið fram en að hún sinni fullkomlega hlutverki sínu og leysi það af fagmennsku og festu.
    Könnun á geymslu og notkun hættulegra efna í Reykjavíkurborg var gerð að frumkvæði almannavarnanefndar Reykjavíkur en öryggissvæði kortlögð fyrir nefndina af Almannavörnum ríkisins. Samkvæmt lögum um almannavarnir fer stjórn Almannavarna ríkisins með umsjón með almannavarnanefndum. Hafa samskipti Almannavarna ríkisins og almannavarnanefndar Reykjavíkur verið með miklum ágætum. Framkvæmdastjóri Almannavarna ríkisins er ætíð boðaður á fundi nefndarinnar og situr þá verði því við komið. Nefndin hefur tekið undir allar tillögur sem komið hafa frá Almannavörnum ríkisins um framkvæmd einstakra þátta í almannavörnum. Hins vegar hefur verið lýst yfir áhyggjum við nefndina um að framkvæmdir á ákvörðunum nefndarinnar gengju hægar en æskilegt væri.
    Nefndin brást þegar við því og réð sérstakan verkefnisstjóra í fullt starf til að hraða málum í framkvæmd. Almannavarnir höfuðborgar landsins eru mikið ábyrgðarstarf og hefur þessi fagnefnd hennar eitt víðtækasta verksvið allra nefnda borgrinnar. Hefur almannavarnanefnd Reykjavíkur haft forustu í
framkvæmdum á mörgum sviðum almannavarna í héraði sem ekki verða talin upp hér.``
    Virðulegur forseti. Þetta hef ég kosið að lesa hér upp vegna þeirrar gagnrýni sem hefur komið fram og byggist á misskilningi eða þá á einhverjum annarlegum sjónarmiðum.
    Það er einkum tvennt sem mér finnst skipta mestu máli þegar rætt er um framtíð Áburðarverksmiðju ríkisins í ljósi atburða og umræðu á undanförnum dögum. Annars vegar verður óhappið með öðrum hætti en menn höfðu áður gert ráð fyrir að gæti orðið. Ekki er enn ljóst hvað valdið hefur íkveikjunni en ein af tilgátunum er sú að rafdrifinn öryggisloki hafi orsakað eldinn. Sú staðreynd að slys skuli eiga sér stað með þessum hætti sýnir að áhættan er önnur og

meiri en menn ætluðu þegar málið hefur verið til skoðunar áður. Hins vegar eru meiri efasemdir nú en áður um þjóðhagslegt gildi framleiðslunnar í Áburðarverksmiðjunni. Í fréttagrein DV er sagt að skattborgararnir hafi styrkt verksmiðjuna um tæplega 1 milljarð á síðustu fimm árum og er þá verðlagið fært upp til marsmánaðar þessa árs. Raforkuverð sem verksmiðjan greiðir er mjög lágt. Verð raforku til Álversins í Straumsvík er t.d. 80--90% hærra en til Áburðarverksmiðjunnar um þessar mundir. Sala raforku til Áburðarverksmiðjunnar er 140 gwst. á ári og gefur það innan við 1,5% tekna Landsvirkjunar. Þá er á það bent að á næstu árum hljóti áburðarnotkun að fara minnkandi vegna samdráttar í landbúnaðarframleiðslunni.
    Virðulegur forseti. Ég þarf ekki að rekja einstaka þætti málsins, hvorki þá sem snerta óhappið sjáft né heldur fyrri ákvarðanir um öryggismál í verksmiðjunni. Ljóst er að árið 1988 töldu menn að nýr geymir mundi draga svo mikið úr áhættunni vegna ammoníaksbirgða að hættan yrði hverfandi. Síðustu atburðir hafa vakið upp nýjar efasemdir sem nauðsynlegt er að bregðast við. Á fundi sínum sl. þriðjudag samþykkti borgarráð Reykjavíkur samhljóða tillögu borgarstjóra sem hljóðar svo, með leyfir forseta:
    ,,Borgarstjórn Reykjavíkur krefst þess að ríkisstjórnin taki nú þegar ákvörðun um að leggja eins fljótt og auðið er niður rekstur Áburðarverksmiðju ríkisins í Gufunesi.``
    Ég vek athygli á að fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga í borgarráði greiddu atkvæði með tillögunni. Hæstv. ríkisstjórn hefur fjallað um þetta mál á tveimur fundum sínum, þeim seinni í morgun. Það hlýtur að vera eðlilegt að hæstv. ríkisstjórn geri Alþingi grein fyrir þeirri umfjöllun og skýri frá niðurstöðu sinni. Hér er um mál að ræða sem er þess eðlis að þing og þjóð hljóta að krefjast þess að fá að fylgjast með hvernig hæstv. ríkisstjórn hyggst taka á því.
    Verksmiðjureksturinn heyrir undir landbrn. og öryggismálin undir félmrn. Ég hef því beðið hæstv. félmrh. og hæstv. landbrh. að vera viðstadda umræðuna en tel eðlilegast að beina máli mínu til hæstv. forsrh. og biðja hann að gera Alþingi grein fyrir afstöðu hæstv. ríkisstjórnar. Afstaða hennar hlýtur að hafa áhrif á það hvernig Alþingi fjallar um málið á næstunni.