Áburðarverksmiðjan í Gufunesi
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Ég hef, kannski ekki síður en hv. 1. þm. Norðurl. v. sem hér var að ljúka máli sínu, taugar til þess fyrirtækis sem hér er til umræðu, Áburðarverksmiðju ríkisins í Gufunesi. Ég var um skeið yfirmaður verksmiðjunnar og átti sem slíkur hlut að ákvörðun um stækkun hennar á þeirri tíð.
    Ég tel að ekki fari á milli mála að það óhapp sem varð á páskadag við verksmiðjuna hafi verið mjög alvarlegt. Ég skal ekki dæma um það sem komið hefur fram í þessari umræðu, bæði af hálfu málshefjanda og eins af hálfu hæstv. forsrh., að úr þessari hættu hafi verið gert helsti mikið, ekki síst af fjölmiðlamönnum og pólitískum aðilum, en ljóst er að um alvarlegt óhapp var að ræða.
    Ég ætla ekki heldur að rekja það á nokkurn hátt eða dæma um það hvort nægilega verður bætt úr öryggi við þessa verksmiðju með nýjum ammoníaksgeymi sem nú er í byggingu en það kom glöggt fram í máli hæstv. forsrh. að þá verður öryggi verulega aukið við geymslu á þessu hættulega efni. Hins vegar er rétt að leggja á það áherslu að við verksmiðju sem er við bæjardyr aðalþéttbýlis landsins verður að gæta fyllsta öryggis. Ég tek undir það sem fram kom í máli hæstv. forsrh. að eðlilegt er að að þessu máli verði unnið með þeim hætti sem hann greindi frá, af hálfu hæstv. ríkisstjórnar annars vegar og borgaryfirvalda í Reykjavík hins vegar með fullu samstarfi þessara aðila.
    Ég skal ekki gera því skóna hver niðurstaða verður að lokinni þeirri athugun sem hafin er í þessu máli, en fari svo að tekin verði ákvörðun um að fella niður starfsemi Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi, þá þykir mér það einsýnt að verksmiðjan verði endurbyggð og framleiðsla á áburði fari fram annars staðar á landinu. Og það er ekkert smámál sem þar er um að tefla vegna þess að þarna
eru miklar eignir og því fylgir mikill kostnaður að endurbyggja slíka verksmiðju annars staðar. Ég vil í tilefni af því taka það fram sem mér þykir eiga erindi inn í þessa umræðu, að komi til slíkra aðgerða, þá verði sá kostnaður sem af endurbyggingu verksmiðjunnar annars staðar hlýst ekki borinn uppi af áburðarverði. Þar er þá um að ræða aðgerð sem er sprottin af því að nauðsyn þykir bera til að öryggis sé gætt fyrir fjölda fólks hér á höfuðborgarsvæðinu og öryggis þessa fólks verður vitaskuld að gæta. Og ef það þykir, að bestu manna yfirsýn, svo komið að öryggis fólks á þessu svæði sé ekki nægilega gætt nema með því að loka verksmiðjunni, þá verður hún að mínum dómi byggð annars staðar. Sá kostnaður getur ekki verið borinn uppi af notendum áburðarins. Hann verður að vera borinn uppi af almannafé. Þetta vil ég að komi alveg skýrt og skorinort fram af minni hálfu.
    Ég vil svo bæta um betur en hv. 1. þm. Norðurl. v. og bjóða fram lóð undir nýja verksmiðju, ef byggð verður, á Norðurlandi vestra. Svo vill til að starfandi er samstarfsnefnd héraðsnefnda í því kjördæmi ásamt

fulltrúa frá Siglufjarðarkaupstað og iðnráðgjafa iðnþróunarfélags kjördæmisins. Þessi samstarfsnefnd hefur einmitt fundað um þetta mál þann 18. þ.m. og sent hæstv. ríkisstjórn erindi þar sem vilji samstarfsnefndarinnar liggur fyrir um það að ef af slíkri tilfærslu yrði þá væri mjög mikilvægt að nýrri verksmiðju væri þar valinn staður eftir því sem heppilegt kann að sýnast.
    Þetta kemur heim við það sem er í fskj. með tillögu hv. þm. Egils Jónssonar, að nýrri verksmiðju yrði vitaskuld að velja stað með tilliti til þess að öryggishagsmuna sé gætt. Ef þeirra þykir ekki nægilega gætt á þessu svæði þá verður að velja annað og hættuminna svæði. Þar þarf m.a. að taka tillit til jarðhræringa. Fskj. sem er hér og er hluti af ritgerð Sigurðar heitins Þórarinssonar jarðfræðings sýnir að landinu er skipt niður í svæði eftir áhættuþáttum vegna jarðhræringa og eru þeir býsna miklir hér á þessu svæði en mjög litlir á Norðvesturlandi og Austfjörðum.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu. Ég ítreka þá skoðum mína að fyllsta öryggis verður að gæta við verksmiðju af þessu tagi og við geymslu á hættulegum efnum svo sem ammoníaki. Ég vænti þess að með samstarfi hæstv. ríkisstjórnar annars vegar og Reykjavíkurborgar hins vegar takist að leiða í ljós hvort sú hætta sem menn telja að sé til staðar í núverandi verksmiðju sé það rík að hún réttlæti að verksmiðjureksturinn verði felldur niður og verksmiðjan byggð annars staðar. Fari svo þá liggur það fyrir af minni hálfu alveg tvímælalaust að kostnaður við slíka flutninga verði borinn uppi af almannafé en ekki af notendum áburðarins.