Áburðarverksmiðjan í Gufunesi
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Á páskadag varð sá atburður í Áburðarverksmiðju ríkisins sem hefur dregið athygli manna, einkum Reykvíkinga, að starfsemi verksmiðjunnar og þeirri hættu sem íbúum borgarinnar gæti stafað af henni. Nú var það löngu þekkt staðreynd að nokkur áhætta fylgdi starfsemi verksmiðjunnar og reyndar allveruleg hætta ef allt færi á versta veg. Þegar áhættuþættir á höfuðborgarsvæðinu voru metnir, bæði á vegum almannavarnanefndar Reykjavíkur, en þar átti ég sæti í tvö ár, og Almannavarna ríkisins var sprenging í ammoníaksgeymi verksmiðjunnar sá atburður sem menn óttuðust einna mest. Einmitt þess vegna voru gerðar athuganir á þeim hættuþáttum sem þar blöstu við, eins og komið hefur fram í umræðunni á undan. Þar var gerð tilraun til þess að meta bæði áhættu og síðar gerð önnur könnun um rekstrarhagkvæmni. Niðurstöður þessara kannana leiddu til þess að rekstri verksmiðjunnar var haldið áfram, með vissum skilyrðum þó, og tillögur gerðar til úrbóta til að auka öryggi, t.d. með því að smíða nýjan ammoníaksgeymi, sem lýst hefur verið hér fyrir okkur af hæstv. forsrh. Mikilvægt er að minnast þess nú að vitneskjan um hættuna hefur alltaf verið til staðar. Hún var reyndar líka til staðar þegar ákvörðun var tekin um að færa byggðina að hlaðvarpa verksmiðjunnar.
    Atburðurinn á páskadag, þegar kviknaði í ammoníaksgasi sem hleypt var út í andrúmsloftið við efri hluta kúlugeymisins, hefur skotið mönnum skelk í bringu, minnt okkur óþægilega á það að menn hafa látið sig hafa það að taka vissa áhættu þrátt fyrir að jafnan hafi verið reynt að gæta fyllsta öryggis. Það er eðlileg krafa nú að atburðarásin, sem varð við dælingu þennan dag, verði könnuð ítarlega til þess að skilja orsakir brunans og læra af þeim mistökum sem þar voru gerð. Það er einnig eðlilegt að ríkisstjórnin láti kanna ítarlega allt framleiðslukerfi, tækja- og vélakost Áburðarverksmiðjunnar í þeim
tilgangi að meta alla hugsanlega áhættuþætti í framleiðsluferli verksmiðjunnar og ástand alls búnaðar hennar. Síðan má ákveða, í ljósi niðurstaðna og í samráði við borgarstjórn, hvort verjandi sé að halda áfram rekstri verksmiðjunnar á þessum stað. Þessar athuganir hafa að vísu þegar farið fram, a.m.k. að hluta til, að undirlagi Vinnueftirlitsins. En þeim hefur sinnt breskt ráðgjafarfyrirtæki, Technical Consulting Scientists and Engineers, sem m.a. hefur unnið fyrir norsk stjórnvöld við olíuvinnslu í Norðursjó. Þetta fyrirtæki hefur þegar framkvæmt áhættugreiningu á hönnun nýja geymisins og búnaði sem tengist honum og var einmitt tekið tillit til niðurstöðunnar við endanlega hönnun geymisins. Vinnueftirlitið hefur lagt til að sama fyrirtæki verði látið framkvæma hættumat og nánari áhættugreiningu á öðrum þáttum verksmiðjunnar. Tel ég það mjög við hæfi og fagna því að ríkisstjórnin skuli nú hafa gert samþykkt þar um.
    Það er rétt, sem kom fram í umræðunni hér áðan,

að eðlilegt er að borgarbúar hafi nokkuð um málið að segja. Ég minni á tillögur og frv. sem kvennalistakonur hafa flutt á þingi en þau heimila íbúum sveitarfélaga að greiða um það atkvæði þegar einstakar ákvarðanir eru teknar í viðkomandi sveitarfélagi, ákvarðanir sem skipta miklu. Eðlilegt er að fólk hafi sitt um þær að segja. Ég minni hv. 16. þm. Reykv. á það þegar um 10% Reykvíkinga höfðu skoðun á því að ekki ætti að reisa ráðhús í Tjörninni. Þær skoðanir voru virtar að vettugi. En auðvitað er mikilvægt að fólk fái að tjá sig og taka ákvarðanir um það sem skiptir máli í nánasta umhverfi þess.
    Ég tel mjög mikilvægt, og við kvennalistakonur allar, að staðið verði málefnalega að könnun málsins, en ég hygg að nokkur kosningaskjálfti hafi komist í þetta mál og er það mjög miður. Eftir því sem ég hef kynnt mér var ekki ástæða til að óttast sprengingu með ammoníaksskýi sem borist gæti í nærliggjandi byggðir þegar þessi atburður varð. Þess vegna var hvorki rétt né eðlilegt, og gat því ekki skipt mínútum, að tilkynnt yrði um almennt hættuástand. Ég tek undir þau orð málshefjanda þegar hann gagnrýndi fréttaflutning af málinu. Nú veit ég ekki hver ber sök í því máli, hvort þetta var miðlun upplýsinga til fréttamanna eða þeirra eigin túlkun á ástandinu. En hún varð til þess að vekja upp meiri ótta en ég tel hafa verið réttlætanlegan á þessu stigi málsins. Það segir hins vegar ekkert um það sem hefði getað orðið ef meira ammoníak hefði verið komið í geyminn og allar aðstæður verið aðrar á þeim tíma sem bruninn varð. Það dregur heldur ekki úr mögulegri staðbundinni hættu fyrir þá starfsmenn sem vinna í verksmiðjunni eða koma á vettvang til aðstoðar eins og slökkviliðsmenn eða lögregla.
    Sá geymir sem ævinlega hefur verið mestur þyrnir í augum manna og mest áhætta er bundin við er ekki lengur í notkun. Því er sú hætta úr sögunni og Áburðarverksmiðjan ekki lengur sú tímasprengja sem getur réttlætt það að loka vinnustað 150 manns án tafar. Hins vegar er ekki þar með sagt að menn vilji una því að verksmiðja af þessu tagi verði staðsett áfram eins og nú er orðið, í þéttbýli, ekki síst þar sem enn frekari byggð er fyrirhuguð í nágrenni
hennar. Ég legg þó megináherslu á að gengið verði að þessu máli á yfirvegaðan og málefnalegan hátt og niðurstöður fengnar þannig.
    Það eru nokkur atriði sem mér finnst skipta miklu í þessu máli. Eins og komið hefur fram í greinargerð Vinnueftirlitsins til hæstv. félmrh. virðist mega rekja orsakir atburðarins til mannlegra mistaka. Annars vegar að halda áfram dælingu á fljótandi ammoníaki úr skipi þegar sá barki reynist skemmdur sem notaður er til að hleypa aftur til skipsins til þéttingar því ammoníaki sem verður að gasi við að streyma frá skipinu og í geyminn. Rétt hefði verið að stöðva þá löndun á ammoníaki og gera við barkann og halda síðan áfram dælingu. Það var ekki gert. Hins vegar var gripið til þess ráðs að hleypa gasinu beint út í andrúmsloftið frá geyminum. Þetta varð til þess að eldur kviknaði og þetta voru ekki eðlileg vinnubrögð

að mati Vinnueftirlitsins og brýtur reyndar gegn yfirlýsingum sem forvígismenn verksmiðjunnar hafa gefið í nýlegum viðræðum við Vinnueftirlitið þar sem farið var markvisst yfir hugsanlegar lekaleiðir. Þessi vinnubrögð bera vott um vanþekkingu og vanmat á aðstæðum og brýna fyrir okkur að enginn tæknilegur ferill né önnur þau verk sem menn koma nærri eru öruggari en þeir menn sem þau vinna. Þetta er líka þarft að íhuga þegar staða verksmiðjunnar er metin og öryggi hennar.
    Að lokum þetta, sem lítið hefur verið minnst á. Þegar atburðurinn varð brugðust þeir aðilar við, sem koma áttu á vettvang, þ.e. slökkvilið og lögregla, eins og best mátti vona. Bæði þeir og starfsmenn Áburðarverksmiðjunnar sinntu störfum sínum eftir það vel og vandlega. Ég vil leggja áherslu á þetta.
    Lyktir þessa máls kunna að verða þær að Áburðarverksmiðjan verði flutt eða lögð niður. Öllu skiptir þó að menn komist að niðurstöðu í málinu eftir vandlega yfirvegun. Ég tel ekki að íbúum borgarinnar sé slík hætta búin, eins og nú er komið, að hún réttlæti óðagot og leyfi ekki vönduð vinnubrögð. Auðvitað er aðalatriði að lífi manna sé ekki stefnt í hættu.
    Kvennalistakonur hafa frá öndverðu lagt megináherslu á umhverfisvernd og beitt sér gegn því sem líklegt er til að valda mengun eða skapa hættu í lífríkinu. Þetta mál hefur sannarlega einnig leitt huga manna að ýmsum öðrum mögulegum hættum á höfuðborgarsvæðinu sem nauðsyn er að huga að. Má þar sem dæmi nefna olíugeyma, gasgeyma og sjálfan Reykjavíkurflugvöll sem oft hefur komið til umræðu. Nauðsynlegt er að nýta tilvik eins og þetta til að læra af því, leita úrbóta og draga úr þeim margvíslegu hættum sem mönnum og dýrum eru búnar, bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar á landinu. Okkur er nauðsynlegt að auka árvekni í umhverfismálum almennt. Vonandi verður óhappið í Áburðarverksmiðjunni hvati að verulegum umbótum í þessum efnum.