Áburðarverksmiðjan í Gufunesi
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Guðmundur G. Þórarinsson:
    Virðulegi forseti. Mér virðist að málið sem hér er til umræðu sé dæmi um það þegar málflutningur er ekki í nokkru samræmi við raunveruleikann. Mér virðist að í þessu máli hafi fréttir og fréttaflutningur, og jafnvel málflutningur ákveðinna stjórnmálamanna, verið alveg úr samhengi við raunveruleikann og úr öllum hlutföllum við það sem þarna var í rauninni að gerast. Kannski er erfitt að mæla slík orð á þessari stundu og í þeirri múgæsingu sem gripið hefur um sig varðandi þetta áburðarverksmiðjumál, annars vegar fyrir óábyrgan fréttaflutning fjölmiðla og hins vegar fyrir málflutning borgarstjórans í Reykjavík.
    Það hlýtur að dæmast óábyrgt af fjölmiðlum að birta línurit og kúrvur sem sýna allt að því götur íbúa í Reykjavík sem hugsanlega hefðu farist ef hitt eða þetta hefði verið til staðar sem í rauninni gat varla eða alls ekki gerst. Ég held að það sem þarna skeði, eins og hér hefur reyndar verið rakið, hafi mátt rekja að hluta til mannlegra mistaka. Ammoníumgasið streymdi út í loftið. Ef ekki hefði verið svanaháls á þessari leiðslu, sem beindi gasinu niður að tankinum aftur þannig að eldurinn virkaði sem logsuðutæki á tankinn, hefði ammoníakið brunnið bara rólega upp úr þessari leiðslu, án þess að mikil hætta hefði verið á ferðum. Mér virðist allt benda til þess að jafnvel þó að loginn hefði brennt gat á tankinn hefði það ekki valdið mikilli áhættu. Vegna þess að ammoníakið hefði farið þar upp og mjög litlar líkur eru á því, að mínu viti, að tankurinn hefði rifnað við það sem þarna var að ske. Ammoníak er hægbrennandi og varla eldfimt nema blandað við andrúmsloft í ákveðnum hlutföllum.
    Ég held að menn hafi í tilfinningahita farið algerlega fram úr sjálfum sér í þessu máli. Ég verð að játa það að ég óttast þá stjórnmálamenn sem taka afdrifaríkar ákvarðanir í slíkum tilfinningahita, án þess að huga að rökum og raunveruleika. Það var engin ástæða til að bregðast við á þann hátt sem þarna var gert. Dæmið var það að menn töldu tankinn hættulegan sem átti að taka úr notkun eftir tvo mánuði. Í rauninni var þegar ákveðið að taka hann úr notkun. Og yfirlýsingar um að borgin sé aldrei örugg fyrr en verksmiðjan fari er gersamlega út í hött ef skoðað er líf borgaranna og önnur athafnasemi í Reykjavíkurborg. Ég tel það þess vegna hreint ógæfuspor hjá borgarstjóranum í Reykjavík, varaformanni Sjálfstfl., sem sumir segja verðandi formanni innan tíðar, að hann skuli hafa varpað því inn á meðal Reykvíkinga að þeir geti aldrei nokkurn tíma verið öruggir fyrr en verksmiðjan sé flutt og það verður vafalaust fjöldi fólks sem trúir því. Ef horft er á þessi mál af hreinni rökvísi hljóta menn að gera sér grein fyrir því að þetta mál er alls ekki svona vaxið. Ég held að hræðsluáróður í þeim dúr sem viðhafður hefur verið í þessu máli sé hreint ógæfuspor.
    Auðvitað var alveg sjálfsagt, þegar þessi atburður átti sér stað, að menn settust niður og framkvæmdu nýtt mat á þessari verksmiðju. Hvaða hætta er fram

undan? Hvernig standa málin? En bein yfirlýsing í tilfinningahita um að verksmiðjan verði að fara og að íbúar Reykjavíkur séu aldrei öruggir fyrr en hún sé farin er auðvitað alveg gersamlega út í hött. Ég held að menn hljóti að horfa á þetta frá þeim sjónarhól að menn vissu að af þessum tanki gæti einhver hætta stafað. Menn höfðu ákveðið að verja 100 millj. kr. til öryggisráðstafana og byggja nýjan tank þar sem þeir sömdu nánast um það sín á milli, fyrrv. forsrh., Þorsteinn Pálsson, og Davíð Oddsson borgarstjóri.
    Menn töldu sjálfsagt að ráðast í þá fjárfestingu til þess að tryggja öryggi Reykvíkinga, enda væri þá, eins og reyndar framkvæmdastjóri Vinnueftirlits ríkisins sagði, verksmiðjan í Gufunesi orðin öruggari en fjölmargir aðrir staðir í borginni. Þegar Reykjavíkurborg hefur, alveg nýlega,
samþykkt að nýr tankur sé byggður og framlengt lóðasamning við verksmiðjuna um 30 ár þá rjúka menn upp í hita augnabliksins og heimta að verksmiðjan sé lögð niður og henni lokað. Ég verð að játa það að í mínum huga virðist kókakólakynslóðin, sem nú er að alast upp, ekki gera sér neina grein fyrir verðmætum. Þarna er um að ræða verksmiðju sem kostar 2--3 þús. millj. kr. og 200--300 störf við framleiðslu eru í hættu, ekki bara þeirra sem í verksmiðjunni vinna heldur ýmissa annarra sem tengjast þessari starfsemi, vinna fyrir hana og annað slíkt. Ég held að það sé gersamlega út í hött að ræða það að flytja þessa verksmiðju. Til þess er framleiðslueiningin einfaldlega of lítil í minnkandi landbúnaði. Ef ég hef þessar tölur réttar í kollinum þá skuldar Áburðarverksmiðjan ekki nema 400-500 millj., sem er þó allnokkuð. Þrátt fyrir það gengur ekki allt of vel að reka hana. Þrátt fyrir ekki meiri fjármagnskostnað en þetta gerir hún ekki betur en svo, samkvæmt þeim skýrslum sem ég hef séð, að það eru áhöld um það hvort ekki sé ódýrara að flytja inn áburð. Það er alveg útilokað að verksmiðja af þessari stærð gæti borið fjármagnskostnað af 2000-3000 millj. Menn eru þess vegna hreinlega að ræða það hvort áburðarframleiðsla eigi að hætta á Íslandi. Út frá þeim sjónarhól held ég að menn verði að horfa á málið.
    Ég tel alveg sérstaka ástæðu til að vekja athygli á því líka að ammoníak er ekki framleitt eða geymt bara á Íslandi. Ammoníak er framleitt í flestum löndum í kringum okkar og það er geymt í flestum löndum í kringum okkur. Í löndum sem búa við mjög strangar öryggiskröfur. Forsrh. nefndi hér lönd með slíkar geymslur sem eru upp í 60 sinnum stærri tankar en það sem um er að ræða að geyma í þessum tanki, jafnvel í 2--3 km fjarlægð frá borgum. Menn telja þó að tvöfaldur geymir með kældri geymslu sé það öruggur að byggð stafi ekki af honum hætta. Það er það sem þarna er um að ræða. Í þessu máli er nauðsynlegt að menn nái áttum, að menn staldri andartak við. Það liggur ekkert á að taka neina ákvörðun í þessu máli. Verksmiðjan er þarna, þessi tankur hefur verið tekinn í notkun og menn hafa nógan tíma til að skoða það hver á að verða framtíð þessarar verksmiðju.

    Menn verða líka að átta sig á því að Áburðarverksmiðjan í Gufunesi nýtir kannski 11 þús. tonn af ammoníaki á ári til áburðarframleiðslu. Um 9 þús. tonn af því framleiðir hún sjálf. Þau 2 þús. tonn sem flutt eru inn eru það sem sett er á geyminn. Þannig að þó að geyminum væri út af fyrir sig lokað og þessi geymsla væri ekki til staðar er ekki endilega þar með sagt að ástæða væri til að hætta rekstri ammoníaksverksmiðjunnar sjálfrar, á daggeymslum eða rekstri Áburðarverksmiðjunnar.
    Menn hafa látið berast af leið í þessari umræðu allri. Sú hætta sem hefur verið lýst þarna var ekki til staðar og hún verður ekki til staðar heldur í framtíðinni. Íslendingar hafa ekki efni á því að kasta frá sér framleiðslufyrirtækjum og tekjum í þessum dúr með fljótfærnislegum yfirlýsingum stjórnmálaleiðtoga sem gefa þær í tilfinningahita. Þessar ákvarðanir þarf að skoða miklu betur. Það er til annars konar öryggi á Íslandi en það öryggi sem menn eru að ræða um hér. Til eru líka hlutir sem heita fjárhagslegt öryggi. Til eru líka hlutir sem heita atvinnuöryggi. Alla þessa þætti verða menn að vega og meta saman. Menn verða að gera sér grein fyrir því að þessi verksmiðja hefur staðið þarna í um það bil 40 ár. Þeir áhættuþættir sem menn eru að tala um eru ekki lengur til staðar. Og það er ábyrgðarhluti hjá ábyrgum stjórnmálaforingjum að haga máli sínu þannig í jafnviðkvæmu máli og þetta er, að Reykvíkingar geti jafnvel aldrei verið fyllilega óttalausir vegna þess hræðsluáróðurs sem vakinn hefur verið upp varðandi þessa verksmiðju.
    Ég hef, virðulegur forseti, lagt hér fram brtt. við eina af þeim þáltill. sem fyrir liggja í þeim dúr, sem ég lagði reyndar áherslu á þegar í upphafi, að menn stöldruðu við við þetta óhapp sem þarna varð og allsendis óvíst er að hefði nokkurn tíma getað leitt til slíkra hluta sem menn hafa verið að leika sér að að lýsa í fjölmiðlum að undanförnu, að menn stöldruðu við og framkvæmdu nýja öryggisgreiningu á fyrirtækinu, framkvæmdu nýtt hættumat, gerðu það á vandaðan hátt og gæfu sér til þess nægan tíma. Að því framkvæmdu settust menn niður, skoðuðu þær niðurstöður upp á nýtt og áttuðu sig á því hver framtíð þessarar verksmiðju ætti að vera.
    Ástæða er til að ítreka það að framkvæmdastjóri Vinnueftirlitsins lýsti því alveg sérstaklega að eftir að þessi geymir væri tekinn úr notkun, eftir að nýr geymir væri kominn, þá væru fjölmargir þættir í Reykjavík miklu hættulegri en þessi verksmiðja, hvort sem menn hafa talað hér um gasgeymslur, eldsneytisgeymslur, bensíngeymslur, eða hvað menn vilja kalla það, í borginni. Ég ætla ekki að gera það að umræðuefni hér að almannavarnanefnd Reykjavíkur hafi ekki haldið fundi árum saman eða að borgarstjórinn hafi síðan hann tók við völdum aðallega látið byggja í kringum verksmiðjuna. Það skiptir ekki máli í þessu sambandi.
    En fyrst og fremst þetta: Ég held að hér hafi það skeð, sem við höfum allt of mörg dæmi um, að menn hafa í tilfinningahita látið berast af leið án þess að

skoða málið og raunveruleikann eins og hann lá fyrir. Menn munu, þegar tilfinningahitann lægir, átta sig á því að með þeim geymi sem þarna er byggður er sú hætta, sem menn hafa verið að ræða um, ekki til staðar. En eftir stendur að þeir aðilar sem telja átti ábyrga í stjórnmálum á Íslandi hafa með orðum sínum og athöfnum vakið slíkan ótta hjá Reykvíkingum að það kann að vera að þeir þori þess vegna aldrei í framtíðinni að sætta sig við verksmiðjuna. Og það er ábyrgðarhluti vegna þess að þó ekki sé um að ræða nema 3 milljarða kr. og 200--300 störf, þá skiptir það máli í okkar litla þjóðfélagi.
    Aðaláherslan hlýtur að vera á því að yfirfara stöðuna, skoða hana eins vandlega og unnt er og taka að því loknu ákvörðun um framhaldið. En það ber að fordæma slíkar yfirlýsingar sem gefnar hafa verið í þessu máli. Ég leyfi mér að gagnrýna fjölmiðla fyrir hvernig þeir hafa haldið á þessu. Múgæsing í þeim skilningi sem hér hefur verið reynt að vekja upp er alltaf til skaða.