Áburðarverksmiðjan í Gufunesi
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Í mínum huga er mál þetta einfalt, augljóst. Þessari verksmiðju á að loka. Hér hafa verið haldnar tilfinninganæmar ræður, reynt að draga fram rökstuðning, sem mér hefur nú þótt lítilfjörlegur, reynt að brigsla mönnum um hræðslu, þeir þyrðu ekki að horfast í augu við raunveruleika o.s.frv. Það er heilbrigð skynsemi sem segir manni að þegar atvik gerist sem vekur ugg, ekki einungis Reykvíkinga heldur landsmanna allra, Reykvíkingar eru engin sérþjóð eins og sumir halda sem hér hafa talað, einhver óæðri þjóð, alltaf öðruvísi hugsandi en aðrir menn. Það sló óhug á íslensku þjóðina alla þegar það fréttist að eldur logaði í þessum margnefnda ammoníakstanki. Atvik sem var talið að ekki ætti að geta gerst. Ég hef skilið fréttir þannig og það sem vísindamenn hafa sagt, að þetta hafi verið útilokaður hlutur sem gerðist samt.
    Ég heyrði í sjónvarpi nú fyrir nokkrum kvöldum vísindamenn lýsa því að ekki séu nema tvö eða þrjú ár síðan eðli ammoníaks hafi verið kannað rækilega, hverju ammoníaksgufur gæti valdið. Mig minnir að tilraunir hafi verið gerðar á Nevada-eyðimörkinni eða einhvers staðar þar og þá hafi komið í ljós að þetta var allt annað en eitthvert glingur sem menn voru að leika sér með í höndunum, þetta ammoníak sem hér er haldið fram að sé langt frá því að af því geti stafað nokkur minnsta hætta. Það heyrðum við áðan úr þessum ræðustól.
    Nú er ráðist að borgarstjóranum í Reykjavík og talað um ógæfuspor hans, ógæfumanninn Davíð Oddsson, ógæfuspor sem hann stigi. Það ógæfuspor að vekja athygli á þeirri hættu sem þarna er og krefjast þess að henni verði bægt frá dyrum Reykvíkinga. Hvað ætli það séu margir hér í Reykjavík sem taka undir þessi orð hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar að þetta sé ógæfumaður sem stígur ógæfuspor þegar hann krefst þess að þessari vá sé beint frá dyrum Reykvíkinga? Það eru áreiðanlega ekki margir Íslendingar sem eru sammála þessu.
    Þetta var reyndar bara byrjunin. Þessu er varpað fram í tilfinningahita, órökstuddu. Það getur vel verið að ég sé í tilfinningahita, ég var það á sunnudagskvöldið þegar þessar fréttir bárust út. Og ég held að fleiri hafi orðið það og ég skammast mín ekkert fyrir það. Ég skammast mín ekkert fyrir að óttast hið ókunna, eins og einhver sagði hér, menn óttuðust það meira en það sem þeir þekktu. Það er vafalaust alveg rétt. Við eigum þess vegna ekki að vera að leika okkur með hið ókunna. Ég hef verið einn mesti baráttumaður fyrir iðnvæðingu Íslands, m.a. stóriðju. Ég hef aldrei haft álit á þessari verksmiðju. Mér hefur einhvern veginn boðið í hug að hún kynni að verða það ógæfuspor sem kannski hindraði iðnvæðingu Íslands. Hún var, eins og hér var getið um, byggð fyrir Marshall-fé. Marshall-fé kom auðvitað þjóðum sem verst urðu úti í styrjöldinni að mjög miklu gagni og var mikil hugsjón og merkileg af Bandaríkjamanna hálfu. En ég er hræddur um að

margt hafi fylgt þessum Marshall-gjöfum, ýmiss konar rusl sem var gott að geta selt og þar á meðal þessi verksmiðja og t.d. Hæringur sem kom til Íslands.
    Þeir sem hins vegar nutu þessara peninga best voru þjóðir eins og Japanar og Þjóðverjar þar sem allt var raunar í rúst. Þeir þurftu þetta fé, þeir þurftu þann kraft sem fjármagnið skapaði til að byggja upp nútímalegan iðnað og þeir gerðu það svo rækilega að fyrst varð þýska undrið og síðan það japanska. Þá voru byggðar fullkomnar verksmiðjur með allt öðrum hætti en þessi verksmiðja. Ég tala af nokkurri reynslu vegna þess að ég kynntist því þegar var verið að ræða hér um hugsanlega olíuhreinsunarstöð í kringum 1970. Þá var þessi verksmiðja skoðuð af þeim sem höfðu áhuga á að byggja olíuhreinsunarstöð. Hún var illu heilli stoppuð af vitleysu og þeir menn töldu ekki mikið bitastætt í þessari verksmiðju.
    Ég held að það viti allir menn að Áburðarverksmiðjan hefur aldrei skilað Íslendingum nokkrum sköpuðum hlut. Ég kynntist því í fjh.- og viðskn. fyrir nokkrum árum þegar var verið að fara yfir reikningana og skoða tapið frá þessari verksmiðju. Ég sannfærðist um það þá að hún hefði aldrei skilað einseyring og minnu en engu og mun aldrei gera það. Það ódýrasta væri auðvitað að byggja strax nýja áburðarverksmiðju ef við viljum hafa slíkt fyrirtæki og þá nútímalega verksmiðju og hættulausa, eða a.m.k. ekki með þeirri geigvænlegu hættu sem augljóslega er við bæjardyr okkar sem erum í þessu húsi í dag. Það er áreiðanlega það billegasta, að fá nútímalega verksmiðju sem framleiðir á ódýrari hátt með meira öryggi. Því fyrr sem hún yrði byggð þeim mun ódýrara væri það, þeim mun meiri hagur er það fyrir þjóðina.
    Nú rjúka menn upp í hita baráttunnar. Og hverjir eru það sem rjúka upp í hita baráttunnar? ,,Það er borgarstjórinn í Reykjavík. Kókakólakynslóðin sem nú er að alast upp gerir sér enga grein fyrir verðmætum.`` Þetta eru orð töluð úr þessum ræðustóli í sameinuðu Alþingi, af framsóknarmanni að sjálfsögðu. Þetta er borgarstjórinn í Reykjavík og samstarfsmenn hans. Þetta eru synir okkar og dætur sem elstir erum hér inni. Þetta er heitið sem unga fólkinu er sent. Kókakólakynslóðin sem nú er að alast upp gerir sér enga grein fyrir verðmætum. Og síðan kemur: Það liggur ekkert á að flytja þessa verksmiðju eða leggja hana
niður. Nógur tími, hættan er ekki fyrir hendi og var ekki fyrir hendi og verður ekki fyrir hendi.
    Öll þessi orð heyrðum við hv. þm. Guðmund G. Þórarinsson segja hér áðan. Þetta ber að fordæma, sagði hann líka. Það ber að fordæma að vara við þessari hættu. Þessari hættu sem allir landsmenn gera sér grein fyrir nema einhverjir örfáir sérvitringar. Hún er fyrir hendi. Og þó hún væri minni en við sem ekki erum tæknifróðir höldum að hún sé þá er það sjálfgefið að þessa verksmiðju á að leggja niður. Það á að loka henni strax. Hún skilar þar að auki engum verðmætum, hefur aldrei gert og mun aldrei gera. Og ég held að það væri hægt að færa að því sterk rök,

og meira en rök, það væri hægt að sanna það ef maður fengi tæknifróða menn til þess að reikna út allt það tap, öll þau ósköp sem þessi verksmiðja er búin að kosta, og líka hvað hún hefur tafið fyrir tæknivæðingu og iðnvæðingu landsins vegna þess að það hefur verið óhugur í Íslendingum út af þessari verksmiðju, fleirum en mér, alla tíð. Sprengihætta fyrst af áburðinum sjálfum, síðan kemur ammoníak og margar íkveikjur í þessari verksmiðju, margsinnis kviknað í. Ekki íkveikjur af manna völdum þó.
    Ég hygg að við hefðum kannski fengið eitthvað af þeim tuttugu álbræðslum sem var sagt að ég hefði predikað hér í eina tíð. Ég sagði að vísu í útvarpsþætti eða sjónvarpsþætti á móti Magnúsi Kjartanssyni að sú álverksmiðja sem var verið að tala um að byggja í kringum 1967--1968 mundi taka 1 / 20 af vel virkjanlegri orku. Þessu var snúið upp í það að ég hefði viljað byggja 20 slíkar verksmiðjur. Það var ekki rétt, en hún var nú svo lítil þessi reyndar að kannski er kominn svona obbinn af þessum 20 ef allt er saman lagt.
    Ef við tökum áhættu af efnaiðnaði, sem er kannski sá áhættusamasti, þá getur hann valdið stórslysum. Persónulega hef ég alltaf verið heldur ragur við efnaiðnað þó menn segi að jarðhitinn geti nýst þar mjög vel og við getum hagnast á því og iðnvætt landið með þeim hætti. En þá yrði það auðvitað að gerast með nútíma tækni og með þeim vinnubrögðum sem þekkt eru í dag en ekki 40 ára gamalli tækni, eins og nú er verið að tala um.
    Það var sagt að kannski mundu Reykvíkingar aldrei þora að sætta sig við verksmiðjuna. Kannski þora þeir aldrei að sætta sig við verksmiðjuna. Og það var sagt: Trúið þið því að á Alþingi séu annars vegar menn sem vilji drepa Reykvíkinga, hins vegar menn sem vilja bjarga þeim? Hver hefur haldið fram slíkum firnum? Hvernig í ósköpunum er hægt að vera með slíkar öfgar? Það er sagt að við eigum að ræða öfgalaust og rólega hvað sé að gerast. Við erum með nánast atómsprengju hér í túngarðinum og við eigum að ræða um það alveg öfgalaust. En hitt, að því sé haldið fram í sölum Alþingis að einhverjir þingmenn vilji drepa kannski helming þjóðarinnar eða hana alla jafnvel. Þessi málflutningur gengur ekki. Hann hittir auðvitað fyrir þá sem beita honum.
    Ég get náttúrlega ekkert annað gert en að óska borgarstjóranum í Reykjavík hjartanlega til hamingju því það er margsagt hér að hann finni enga andstæðinga. Það séu allir sem styðji hann. Þess vegna hafi hann farið að leita að þessari verksmiðju, margsagt hér. Borgarstjórinn í Reykjavík, Davíð Oddsson, verður að leita sér að andstæðingum því hann finnur þá enga. Hann er farinn að leita og leita. Ég held að nokkuð sé til í þessu. Ég veit varla um nokkurn andstæðing Davíðs Oddssonar. Ég held að svo til allir Reykvíkingar ætli að kjósa hann sem borgarstjóra, ef þeir væru ekki bundnir við einhverja flokka sem eru nú raunar allir klofnir út og suður og norður og niður, þannig að maður veit nú ekkert hvað út úr því kemur. En þetta eru náttúrlega einhver mestu

meðmæli sem nokkur stjórnmálamaður hefur fengið, a.m.k. á þessu landi, líklega á þessum hnetti, þ.e. þeim parti hans þar sem menn mega yfirleitt tala um stjórnmál og þar sem frjálsræði ríkir. Hann finnur sér hvergi andstæðing og verður þess vegna að búa til einhverja sprengju eða sprengihættu í verksmiðju sem staðið hefur í 40 ár. Meiri tiltrú getur enginn maður haft. (Gripið fram í.) Nei, ég held það nú ekki.
    Mér er nú enginn hlátur í huga en það varð að vekja athygli á því sem ég nú hef gert, að sá málflutningur gengur ekkert upp sem hér hefur verið haldið á loft. Mergurinn málsins er sá, hvort sem menn kalla það hræðslu eða eitthvað annað, óhugnan gjarnan, hvað sem er, sem ríkir meðal Reykvíkinga og Íslendinga allra út af þessu óvænta atviki og óskýrða atviki, óskýranlega víst, þetta getur gerst sem sagt en mun vonandi ekki gerast vegna þess að verksmiðjan verður auðvitað lögð niður. Það eru svo til allir Reykvíkingar sammála um það og þjóðin öll og það mun gerast. Auðvitað eru Reykvíkingar ekkert annað en hluti af landsmönnum. Öll erum við meira og minna utan af landi og ein og sama þjóðin.
    Af því að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson er nú kominn hér þá held ég að ég verði að endurtaka þetta, að það er ekki hægt að láta að því liggja að við séum að reyna að fá fólk til að trúa því að á Alþingi séu ekki nema tvenns konar menn, annars vegar menn sem vilja drepa Reykvíkinga, hins vegar þeir sem vilja bjarga þeim. Hver hefur sagt þessi ósköp? Hef ég sagt þessi ósköp? Hver hefur sagt þetta? Hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson sagði að það væru hættulegir stjórnmálamenn, Davíð Oddsson og þeir aðrir sem ynnu eins og hann.
Þá er ég hættulegur stjórnmálamaður, stórhættulegur, miklu hættulegri en ég hef haldið að ég gæti orðið því ég ætla ekki að ... ( Gripið fram í: Það liggur alveg ljóst fyrir.) Já, það liggur alveg ljóst fyrir. Þeir menn sem vara við slíkum hættum eru stórhættulegir af því að það þjónar ekki málstað framsóknarafturhaldsins.