Áburðarverksmiðjan í Gufunesi
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Ég mundi gjarnan kjósa að hæstv. landbrh. yrði viðstaddur þessa umræðu. Enda heyrir verksmiðjan sem hér er til umræðu undir hann stjórnskipulega og vegna þeirrar ræðu sem hann flutti hér fyrr í þessari umræðu þarf ég að gera nokkrar athugasemdir og óska því eftir nærveru hans og þátttöku í umræðunum.
    En fyrst, frú forseti, vegna þess sérstaka máls sem hér hefur verið fjallað um. Það er alveg rétt, sem vakin hefur verið athygli á, að eftir að Vinnueftirlit ríkisins hafði vakið athygli á þeirri hættu sem stafaði af geyminum, sem notaður hefur verið um langa hríð, var brugðist við á þann veg af þáv. ríkisstjórn að ákveðið var að tillögu hæstv. félmrh. og hæstv. þáv. landbrh. að reisa nýjan geymi sem draga mundi mjög verulega úr þeirri áhættu sem talin var vera fyrir hendi. Í sjálfu sér eru það engin rök á þessu stigi umræðunnar að vísa til þessara ákvarðana. Ég er þeirrar skoðunar að þá hafi verið teknar eðlilegar ákvarðanir. Auðvitað gat á þeim tíma komið til álita að leggja verksmiðjureksturinn niður. Engar tillögur af því tagi voru fluttar af hálfu þeirra ráðherra sem um þessi mál fjölluðu, annars vegar rekstrarlega og hins vegar út frá öryggissjónarmiðum og því kom það ekki til álita á þeim tíma. Sjálfur svaraði ég hins vegar jákvætt hugmyndum að Reykjavíkurborg gæti keypt verksmiðjuna í þeim tilgangi að leggja hana niður en úr hugmyndum af því tagi varð ekki.
    Það sem er tilefni umræðna hér og nú er atvik sem nú hefur gerst og menn sáu ekki fyrir á þeim tíma þegar fyrri ákvarðanir voru teknar. Það er það sem gefur mönnum tilefni til umræðna og endurmats á fyrri ákvörðunum. Það vekur þess vegna mikla furðu hvernig sumir hv. þm. og ráðherrar stjórnarliðsins bregðast við þessari umræðu með einkennilegum yfirlýsingum sem lýsa að mínu mati fyrst og fremst tilfinningahita af þeirra hálfu og óskynsamlegum
viðbrögðum. Auðvitað er furðulegt, eins og hér hefur verið vakin athygli á af hálfu helsta talsmanns framsóknarmanna í Reykjavík, að tala um kókakólakynslóðina þegar borgarstjórinn í Reykjavík, borgarráð, fulltrúar allra flokka, þar á meðal Framsfl. í borgarráði, og almannavarnanefnd Reykjavíkur hafa fjallað um málið með þeim hætti sem raun ber vitni. Það er nánast dæmalaust. Ég hygg að ekki verði um það deilt þegar um þetta mál er fjallað af yfirvegun, að fullt tilefni er til að endurmeta fyrri ákvarðanir í ljósi þess atburðar sem átti sér stað á dögunum, atburðar sem menn sáu ekki fyrir og töldu að ekki gæti átt sér stað þegar fyrri ákvarðanir voru teknar sem menn á þeim tíma töldu vera fullnægjandi.
    Hér hefur líka komið til umfjöllunar rekstur þessarar verksmiðju og þjóðhagslegt gildi verksmiðjurekstursins. Hæstv. landbrh. vakti á því athygli að á stundum hefðu verið teknar pólitískar ákvarðanir um verð á áburði frá verksmiðjunni með alvarlegum afleiðingum fyrir rekstur verksmiðjunnar. Hann ítrekaði í ræðu sinni að þegar slíkar ákvarðanir

væru teknar væri ekki fyrir hendi þjóðhagsleg hagkvæmni af rekstrinum, ef ég skildi mál hans rétt.
    Ég vil henda þessi ummæli hæstv. ráðherra á lofti því rétt er að of oft hafa verið teknar pólitískar ákvarðanir, í engum tengslum við rekstur verksmiðjunnar, um útsöluverð á áburðinum. Þetta hefur verið gert í þeim tilgangi að falsa verðbólgutölur. Þetta hefur verið gert með því að fyrirskipa verksmiðjunni að taka lán erlendis í þeim tilgangi að falsa verðbólgutölur um stund, en hefur alltaf komið í bakið á mönnum aftur.
    Ég minnist þess frá veru minni í fjmrn. að hafa þurft að taka á óreiðusyndum af þessu tagi. Vegna þess að í fyrri tíma höfðu menn talið að hægt væri að lækna verðbólgu með því að ákveða verð í engum tengslum við framleiðslukostnað og taka lán erlendis fyrir mismuninum. En hvað er að gerast einmitt þessa daga? Hæstv. landbrh. fyrirskipaði verksmiðjunni, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, að hækka verð á áburði um 12%. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá stjórnendum verksmiðjunnar þýddi þessi fyrirskipun hallarekstur upp á 130 millj. kr. Hallarekstur sem er meiri en nemur kostnaði við nýja ammoníaksgeyminn. Með öðrum orðum, hér var tekin af hálfu ríkisstjórnar pólitísk ákvörðun um ábyrgðarlausa stjórn á verksmiðjunni. Pólitísk ákvörðun um hallarekstur upp á 130 millj. kr. Til hvers? Í þeim tilgangi að falsa verðbólgutölur. Í þeim tilgangi að telja mönnum trú um að verðbólga sé minni en hún í raun og veru er. Hverjar yrðu afleiðingarnar af því ef hæstv. ráðherra næði þessu máli fram? Vafalaust er það svo að það er ekki hugsjónamál hæstv. landbrh. Ég hygg að forustumenn Alþfl. eigi stærri hlut að máli, enda í samræmi við efnahagsstefnu þeirra að fela verðbólgu með erlendum lánum. Vafalaust er það svo að þetta mun runnið frá forustumönnum Alþfl. að reka þessa verksmiðju með halla. En hæstv. ráðherra landbúnaðarmála hefur fallist á þá stefnu og fyrirskipað verksmiðjunni rekstur af þessu tagi.
    Hvað þýðir það ef hæstv. ráðherra nær þessu fram? Annað tveggja, að greiða þarf þau erlendu lán sem taka á til að fela verðbólguna næst þegar taka þarf ákvörðun um áburðarverð eða eftir að núv. ríkisstjórn hefur gengið til feðra
sinna. Þá þarf ekki aðeins að greiða þann mismun sem nú er á milli gjalda og tekna, og taka þarf lán fyrir, heldur líka fjármagnskostnaðinn. Þegar til lengdar lætur leiðir fjármálastjórn af þessu tagi því til hærra áburðarverðs og meiri verðbólgu. Þetta er sóðaskapur í fjármálastjórn sem ekki á að þekkjast. Þegar ákvarðanir voru teknar á árunum 1986 og 1987 um að hreinsa upp fyrri syndir í þessu efni með beinum framlögum úr ríkissjóði, sem lögðust auðvitað á skattborgarana, voru gefin um það alveg skýr fyrirheit af hálfu stjórnenda verksmiðjunnar að aldrei aftur yrði horfið að stjórnunarháttum og fjármálastjórn af þessu tagi. En núna ætlar hæstv. ráðherra að knýja þetta fram, sennilega með lagasetningu hér á Alþingi vegna þess að meiri hluti verksmiðjustjórnarinnar

hefur hafnað því að efna til ábyrgðarleysis í fjármálastjórn verksmiðjunnar eins og ráðherrann hefur krafist. Sennilega ætlar hann þá að ná vilja sínum fram í þessu efni með lagasetningu á Alþingi. Ég sé ekki að hann eigi annarra kosta völ. En vinnubrögð af þessu tagi gera það að verkum að ekki er þjóðhagslega hagkvæmt að reka verksmiðjuna. Ef á að stjórna fjármálum hennar með þessum hætti þá er alveg augljóst að það getur ekki verið þjóðhagslega hagkvæmt. Það mun leiða til hærra áburðarverðs og meiri verðbólgu í landinu. Og bændur og neytendur landbúnaðarvara eiga fyrst og fremst kröfu á því að fá ódýran áburð, hvort heldur hann er framleiddur hér eða fluttur inn. Það er ekki höfuðmálið, heldur hitt, að það sem nota þarf af áburði fáist á sem lægstu verði. Það er höfuðmálið, bæði fyrir bændur og neytendur. En stefna hæstv. ríkisstjórnar nú er að steypa verksmiðjunni í erlenda skuldasöfnun sem þýðir aukinn fjármagnskostnað og hærra áburðarverð.
    Hinn kosturinn er auðvitað sá að velta þessu yfir á skattgreiðendur. Hækka skatta enn á ný. Kannski telur hæstv. ríkisstjórn og forustumenn Alþfl. að ekki sé nóg að gert í skattahækkunum. Kannski verður hér flutt frv. um enn eina hækkunina á tekjuskattinum til þess að standa undir hallarekstri Áburðarverksmiðju ríkisins. Kannski er það það sem forustumenn Alþfl. stefna að. En það er alveg ljóst að með þessari pólitísku verðákvörðunarstefnu, eins og hæstv. ráðherra kaus að kalla hana, er búið að kippa fótunum undan rekstrarlegri hagkvæmni. Hæstv. ráðherra er með tilraunum sínum af þessu tagi að ganga þvert gegn skýrum fyrirheitum þáv. yfirvalda í landbrn. og stjórnar verksmiðjunnar þegar síðast var tekið til eftir óráðsíu af þessu tagi. Vegna ummæla hæstv. ráðherra er óhjákvæmilegt að draga þessa staðreynd inn í umræðuna um það hvort halda á þessum verksmiðjurekstri áfram.
    Ég vænti þess að hægt verði að koma í veg fyrir að ákvarðanir af því tagi sem hæstv. ríkisstjórn hefur stefnt að í þessu efni nái fram að ganga. Það skiptir afar miklu máli að svo verði.
    Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri en vildi aðeins, vegna ummæla hæstv. ráðherra um hinar pólitísku verðákvarðanir sem hefðu áhrif á það hvort verksmiðjan væri rekstrarhæf eða ekki, draga þessa staðreynd fram. Núv. hæstv. ríkisstjórn er með ákvörðunum sínum í þessu efni að grafa undan því að svo muni verða. Og það hlýtur að skjóta enn sterkari stoðum undir kröfur um að verksmiðjurekstrinum verði hætt ef þessu á að halda áfram með þeim hætti sem hæstv. ráðherra hefur helst kosið.