Áburðarverksmiðjan í Gufunesi
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs einungis til að þakka hv. þm. Eiði Guðnasyni fyrir þær athugasemdir sem hann gerði við mál mitt áðan. Hann hefur bersýnilega misskilið það sem ég ætlaði að segja og held ég hafi sagt. En hafi hann gert það mun svo vera um fleiri og þess vegna nauðsynlegt að koma að leiðréttingum.
    Ég sagðist hafa óttast að Áburðarverksmiðjan mundi tefja fyrir iðnvæðingu hérlendis og vék þá raunar að því að á sjöunda áratugnum hefði ég verið mikill baráttumaður fyrir því að hér risi álverksmiðja og raunar fleiri iðnfyrirtæki. Sannleikurinn er sá að Áburðarverksmiðjan naut aldrei mikils almenns stuðnings, held ég. Raunar var svo kannski um Sementsverksmiðjuna líka, að hún var kannski byggð af vanefnum og naut ekki þess stuðnings upphaflega sem menn hefðu getað ætlað. Nú vita það allir menn að þegar Bandaríkjamenn veittu Marshall-aðstoðina lögðu þeir kapp á að einkarekstur yrði á þeim fyrirtækjum sem byggð yrðu fyrir þetta gjafafé sem voru gífurlegar upphæðir. Sumir kölluðu það nú að verið væri að múta mönnum og efla auðvaldið í heiminum. Það fór nú svo þrátt fyrir allt að blessaðir Bandaríkjamennirnir, vinir okkar, höfðu rétt fyrir sér, að kapítalisminn var þó eitthvað betri en kommúnisminn. Það hefur nú sagan sannað og þrætir víst enginn fyrir lengur.
    En þá var verið að vandræðast með þessa blessaða verksmiðju. Stofnað var fyrirtæki sem hét, held ég, Borgarvirki. Hlutafélag um þessa verksmiðju var stofnað af góðum flokksmönnum mínum og ýmsum fleirum sem áttu einhverja peninga í handraðanum. Það gekk allt saman brösuglega. Ég held að komið hafi verið á verðlagshöftum. Ég held að það hafi verið innflutningsbann á áburði og allra handanna ríkisafskipti af þessu fyrirtæki og það endaði svo auðvitað í þjóðnýtingu. Þó að þar hafi auðvitað verið að störfum ágætis menn þá er svo farið með þetta fyrirtæki eins og svo mörg önnur þjóðnýtt, bæði hérlendis og enn þó frekar þar sem sósíalisminn
hefur verið í algleymingi, að afraksturinn varð nú aldrei mikill. Það var ekki talið neitt sérstaklega eftirsóknarvert að fjárfesta í nýjum iðngreinum og er kannski ekki enn í dag vegna þess að ofstjórnin í efnahags- og peningamálum er við lýði enn þann dag í dag þó hún sé kannski ekki á alveg sama hátt og hún var fyrir 3--4 áratugum.
    Það var þetta sem ég vildi sagt hafa. Ég held að ég hafi rétt fyrir mér í því að töf hafi orðið á iðnvæðingu vegna þessa skipulags sem var á þessum fyrstu iðnfyrirtækjum okkar sem við þó auðvitað vorum stolt af að vissu marki.
    Hin athugasemdin var um það hvort Bandaríkjamenn hefðu notað sér af því að selja okkur rusl. Í fyrsta lagi seldu þeir nú ekkert af því að þeir gáfu þetta allt saman. Ef ég man rétt voru það gífurlegar upphæðir sem þeir gáfu. Þar að auki held ég að menn hafi verið frjálsir að því að kaupa varning

til iðnvæðingar og uppbyggingar hvar sem var þannig að Bandaríkjamenn höfðu enga sérstaka aðstöðu til að selja okkur vöru. Hitt hygg ég sé rétt að ekki hafi verið byggt mikið af áburðarverksmiðjum í heiminum á styrjaldarárunum og þróunin á því sviði hafi ekki verið mikil. Hún var meira og minna á sviði hernaðarmálefna og sjálfsagt hafa menn þá hugsað að gott gæti verið að framleiða einhver sprengiefni, hvort sem þar voru efnasprengingar eða púður, sem er efni sem mér skilst að svona verksmiðjur geti líka framleitt. Ég held að þessi verksmiðja hafi um það leyti sem hún var byggð, 1950--1952, þá strax verið úrelt tæknilega. Ekki hafa margar verksmiðjur af þessari gerð verið byggðar. Ég hef nokkuð fyrir mér í því en get kannað það betur. Ég held að ég fari rétt með það að hún hafi aldrei verið nútímaleg, því miður, og þess vegna hafi hún aldrei skilað neinu í þjóðarbúið. Ég held að reikna mætti út að hún hafi aldrei gert það. Það er kannski staðhæfing á móti staðhæfingu. Ráðherra segir annað. Ég gat um það að í fjh.- og viðskn. Ed. fyrir einum 4--5 árum var farið ofan í þessa sauma og ég fyrir mína parta gat nú ekki séð að það hefði verið um mikinn hagnað þjóðhagslegan, eða fyrir einn eða annan, að ræða af þessari verksmiðju. Ég hygg að svo sé ekki en auðvitað má segja að þetta sé mín staðhæfing, mín tilfinning og sjálfsagt hægt að reikna þetta. Það er nú allt mögulegt sett í tölvur núna. Að vísu koma nú ekki alltaf réttar útkomur úr tölvunum. Stundum eru þær útkomur ansi einkennilegar, enda hægt að mata tölvur á mismunandi hátt.
    Þá dettur mér nú í hug það sem gerðist hér þegar fjmrh. í stjórn Steingríms Hermannssonar sagðist mundu segja af sér ef erlendar skuldir færu yfir 60% af þjóðartekjum. Svo fóru þær í 62% og þá kom allt í einu orðsending frá Þjóðhagsstofnun um að landstekjur hefðu verið mun hærri en þjóðartekjur áður þannig að hlutfallið, miðað við landstekjur, fór niður í 54%. Það var sem sagt skipt bara um spólu og ráðherrann sat áfram og þurfti ekki að segja af sér. Þó að hlutfallið af þjóðartekjunum sem hann talaði um væri orðið 62% þá var það reiknað niður í 54% með einu handtaki í tölvunni. Svo að margt er nú hægt að gera með tölvunum.
    Það er talað um að Reykjavíkurborg hafi samþykkt að verksmiðjan yrði hér áfram og samþykkt ýmiss konar áætlanir fyrir tveim, þrem, fjórum árum og enn þá fyrr. Það hefur ekki nokkur maður mótmælt því, ekki svo að ég viti. Þetta liggur allt saman fyrir skjalfest. Það þarf ekki að rifja það upp. Menn hafa bara vaknað upp við vondan draum. Þeir hafa bara vaknað upp við það að þeir sitja á púðurtunnu. Svo einfalt er málið. Og sá maður sem ekki reynir að koma tunnunni í burtu þegar hann hefur þó séð hana, rétt eins og gert var við einar 15 tunnur af arseniki sem fundust hér við Elliðaárnar út af glerverksmiðju sem átti að reisa og sem var víst nægilegt magn, að mér skildist, til þess að drepa alla Evrópubúa, þær voru fjarlægðar. Þeim var komið úr landi og því arseniki eytt. Því skyldum við ekki gera það sama nú

þegar við höfum uppgötvað að við sitjum á sprengju? Þá var það eiturefni og er eiturefni reyndar núna líka.
    Hv. þm. Eiður Guðnason sagði að hann gerði ráð fyrir því að það liðu ekki mjög mörg ár til viðbótar þangað til verksmiðjan yrði fjarlægð bara vegna byggðarinnar, umhverfisins o.s.frv. Ég er alveg sammála honum um það að jafnvel þó að þessi umræða hér og tillöguflutningur eða ályktanir borgarstjórnar mundu ekki bera þann árangur að þessu yrði hrundið í framkvæmd strax þá verður það gert mjög bráðlega, innan fárra ára. En ég er líka sannfærður um að ef menn reikna þetta bara í peningum og leiða hættuástandið hjá sér er það miklu ódýrara og hagstæðara að byggja fullkomna verksmiðju strax og vera ekki að reka þessa úreltu verksmiðju í nokkur ár bara af einhverri þvermóðsku. Það á þá að vinda sér í það að byggja fullkomna litla verksmiðju þar sem menn vilja hafa hana og auðvitað með öllu því öryggi sem hægt er að koma við. Allir vita hve gífurlegar framfarir eru einmitt á tæknisviðinu nú. Menn eru að tala um að t.d. álverksmiðjan í Straumsvík, sem var endurnýjuð, sett í hana nýtískuleg skaut fyrir um það bil tíu árum, sé algerlega úrelt núna. Við vitum að framþróunin er svona gífurleg og þess vegna er auðvitað langsamlega hagkvæmast að hætta rekstri þessarar verksmiðju strax og byggja nýja og nútímalega verksmiðju, minni eða stærri eftir því sem menn telja ástæðu til.