Þróunarsjóður lagmetisiðnaðarins
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það er undarlegt mat sem ráðherrar hafa á afgreiðslu þingmála. Þau mega dankast í ráðuneytum eins og þeim sýnist, það má senda þau milli allra þessara flokksbrota sem standa að ríkisstjórninni en um leið og málið er komið inn á löggjafarsamkunduna á að fara að flýta því. Ég hélt það væri nú nær að segja að mál ættu að fá vandaða meðferð í deildum. Vandaða meðferð í þinginu. Ég held að það veiti ekki af því að reyna að passa upp á þessa ráðherra, satt að segja.
    Mér var það mikilsvert að heyra ráðherra viðurkenna það að vandi þessa iðnaðar er að hluta til tilkominn vegna þess sem ráðherra kallaði skammtímasveiflur í gjaldeyrismálum eða gengismálum, ég tók ekki eftir hvort heldur hann sagði, en hann notaði orðið skammtímasveiflur. Með því er fengin viðurkenning á því að ríkisstjórnin hafi, eins og ég sagði áðan, vísvitandi haldið genginu röngu til þess að ná efnahagslegum markmiðum sem ríkisstjórnin taldi meira virði en þau að útflutningsframleiðslan hefði viðunandi starfsaðstöðu. Þetta er kjarni málsins. Ráðherra viðurkennir að erfiðleikarnir eru að hluta til tilkomnir vegna þeirrar stefnu sem viðsk.- og iðnrh. hefur haft í gjaldeyrismálum og efnahagsmálum, í atvinnumálum. Það er kjarni málsins. Hitt er laukrétt hjá ráðherra að ýmis fyrirtæki í lagmetisiðnaði hafa löngum átt í miklum erfiðleikum. Sum hafa yfirleitt staðið vel, önnur verr. Auðvitað veit ég að það fyrirtæki sem hér hefur sérstaklega verið nefnt, niðursuðuverksmiðja Kristjáns Jónssonar & Co á Akureyri, er mjög til fyrirmyndar um vinnuaðstöðu, aðbúnað allan og vöruþróun. Þetta liggur ljóst fyrir.
    Ég er líka sammála hæstv. iðnrh. um það að Sölustofnun lagmetis hefur ekki skilað þeim árangri sem menn höfðu vonast til. Af þeim sökum er ég kannski ekkert voðalega sorgmæddur yfir því að það kerfi sem við búum nú við skuli lagt niður. En ég vil líka minna á að það er ekki gott ef þeir menn sem standa í útflutningi eru of sundraðir og auðvitað best að framleiðendur sjálfir, án opinberra afskipta, vinni úr því hvernig hægt verði að koma á fót skynsamlegri markaðssetningu vörunnar.
    Hæstv. ráðherra svaraði mér ekki um eignarhlut Þróunarsjóðs lagmetisiðnaðarins í fasteigninni að Síðumúla 37. Ég spurði hvenær sjóðurinn hefði eignast þetta hús. Ég hélt að sjóðurinn ætti ekki húseignir. Ég stóð í þeirri meiningu. Ég vissi að sjóðurinn keypti á sínum tíma húseignir en ég hélt að það hefði, samkvæmt ábendingum Ríkisendurskoðunar, verið ákveðið að þessi húseign yrði seld. Er þetta rangminni hjá mér? Hvenær varð þessi eign
til? Er þetta eitthvað nýtt? ( Iðnrh.: Ég hef ekki svar við því.) Nei. ( Iðnrh.: Ætli það hafi ekki verið í tíð Friðriks Sophussonar?) Ég veit það ekki. Þetta er ekki stórmál í sambandi við þetta frv.
    Ég tel, herra forseti, nauðsynlegt að frv. verði athugað mjög gaumgæfilega í Nd. Ég álít að sumar

greinar frv. séu þess eðlis að óhjákvæmilegt sé að athuga frv. enn betur en gert hefur verið og fleiri sjónarmið komi þar að. Ég álít raunar líka að það sé sorglegt hvernig komið er fyrir þessum þýðingarmikla útflutningsiðnaði og vonast sannarlega til þess að hæstv. viðskrh., ef hann gegn von minni á eftir að vera í þessu embætti mikið lengur, dragi lærdóm af því sem hér hefur verið að gerast og standi ekki eftirleiðis á móti nauðsynlegum leiðréttingum á gengi krónunnar til þess að útflutningsframleiðslan geti haft viðunandi starfsaðstöðu.