Húsnæðisstofnun ríkisins
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Frsm. meiri hl. félmn. (Margrét Frímannsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hl. félmn. um frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Nál. er á þskj. 916. Meiri hl. flytur einnig brtt. við frv. á þskj. 917 og 971. Í nál. segir, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur fjallað ítarlega um frv. Var það sent til umsagnar fjölmargra aðila og bárust umsagnir frá eftirtöldum: Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, bæjarráði Mosfellsbæjar, Sjómannasambandi Íslands, Verkamannasambandi Íslands, samstarfshópnum ,,Þak yfir höfuðið``, Kjalarneshreppi, Alþýðusambandi Íslands, stjórn Verkamannabústaða Reykjavíkur, Verkamannafélaginu Fram og borgarstjóranum í Reykjavík.
    Páll Magnússon, formaður stjórnar Verkamannabústaða í Reykjavík, Ríkharður Steinbergsson framkvæmdastjóri og Gylfi Thorlacius lögfræðingur komu á fund nefndarinnar. Einnig sátu Grétar J. Guðmundsson, aðstoðarmaður félmrh., og Ingi Valur Jóhannsson, deildarstjóri í félmrn., fundi nefndarinnar.
    Athugasemdir hafa verið gerðar við nokkur atriði í frv. í áðurgreindum umsögnum og telur meiri hl. nefndarinnar að taka beri nokkrar þeirra til greina.
    Breytingarnar varða eftirfarandi:
    1. Þar sem sveitarfélög með fleiri en 10.000 íbúa hafa verulega meiri umsvif hvað varðar félagslegar byggingar þykir eðlilegt að húsnæðisnefndir í þeim sveitarfélögum séu skipaðar sjö mönnum.
    2. Skýrt sé kveðið á um það að húsnæðisnefnd hafi umsjón með byggingu félagslegs húsnæðis eins og fram kemur í greinargerð með frv. Slíkt er gert í umboði sveitarstjórnar.
    3. Framkvæmdaraðili getur vegna sérstakra aðstæðna hafnað forkaupsrétti án þess að glata lánsmöguleikum ef fyrir liggur að ekki er unnt að nýta félagslegar íbúðir á hagkvæman hátt.
    4. Nauðsynlegt þykir, til að auka rétt kaupandans, að kaupsamningur sé undirritaður við afhendingu íbúðar þegar kaupandi hefur greitt 10% áætlaðs kostnaðarverðs.
    5. Hert er á ákvæðum vegna óleyfilegrar útleigu. Leigusamningur er ógildur ef hann er ekki áritaður af húsnæðisnefnd eða sveitarstjórn.
    6. Lögin öðlast gildi 1. júní nk. að afloknum sveitarstjórnarkosningum.
    7. Í bráðabirgðaákvæði er kveðið á um að húsnæðisnefndir taki við réttindum og skyldum er stjórnir verkamannabústaða hafa tekist á hendur, svo sem varðandi úthlutanir.
    Einnig fjallaði nefndin um þá tillögu að endurskoða vexti lána með tilliti til fjölskyldutekna á fimm ára fresti í stað átta ára eins og ákvæði ss. (95. gr.) í 3. gr. frv. gerir ráð fyrir. Niðurstaðan varð þó sú að hafa þetta ákvæði óbreytt.
    Leggur meiri hl. nefndarinnar til að frv. verði

samþykkt ásamt breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.``
    Undir nál. rita Jóhann Einvarðsson, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Karl Steinar Guðnason, Danfríður Skarphéðinsdóttir og Margrét Frímannsdóttir.
    Herra forseti. Í áliti nefndarinnar er upptalning á þeim aðilum sem sendu inn umsagnir. Auk þeirra sem þar er getið bárust umsagnir frá stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins og frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Þegar gengið hafði verið frá nál. og þeim brtt. sem eru á þskj. 917, áður en þingið fór í páskaleyfi, höfðu þessi álit ekki borist. Nefndin hélt síðan fund í gær þar sem farið var yfir þessar tvær umsagnir. Í báðum umsögnum kemur fram að þessir aðilar telja að frv. feli í sér breytingar til hins betra en leggja til örfáar breytingar til viðbótar. Nefndin fjallaði um þær og taldi rétt að taka til greina nokkrar ábendingar þeirra og eru þær brtt. fluttar á þskj. 971.
    Ég tel rétt að fara í örfáum orðum yfir brtt. sem meiri hl. félmn. flytur. Á þskj. 917 eru breytingar ásamt ákvæði til bráðabirgða.
    Í fyrsta lagi er þar breyting við 3. gr., a-lið, þar sem aðeins er um orðalagsbreytingu að ræða. Þá er breyting við 3. gr., f-lið, þar sem fjallað er um skipun húsnæðisnefnda og hverjir skuli tilnefna í nefndirnar. Í frv. er lagt til að fimm fulltrúar skuli skipa húsnæðisnefnd á hverjum stað. Mikil umræða varð í nefndinni um þessa grein frv., annars vegar um það hvort tryggja ætti að starfandi meiri hluti í sveitarstjórn skipaði jafnframt meiri hluta í húsnæðisnefnd í viðkomandi sveitarfélagi og hins vegar var mikil umræða um það hvernig að vali fulltrúa verkalýðshreyfingar skuli staðið, hvort eðlilegt væri að stærstu samtök launafólks eða stærstu einstök félög launafólks á viðkomandi svæði ættu að tilnefna fulltrúa. Ljóst var af þeirri umræðu sem átti sér stað í nefndinni að hugsanlega gæti skapast vandamál við skipan fulltrúa launþegahreyfinga í húsnæðisnefndir í stærstu sveitarfélögunum ef frv. yrði samþykkt óbreytt. Þar þyrfti að kveða skýrar á um það hverjir ættu að skipa fulltrúana og jafnframt þyrfti að fjölga fulltrúum til þess að tryggja
réttlæti við skipan þeirra. Það þótti því orka tvímælis að hafa sama fjölda nefndarmanna, þ.e. fimm, hvort sem um væri að ræða sveitarfélög með 2000 íbúa eða 10.000. Umsvif húsnæðisnefnda hlytu að vera meiri í stærri sveitarfélögum landsins. Af þessum ástæðum leggjum við til eftirfarandi breytingu:
    ,,Í sveitarfélögum með 400--10.000 íbúa skal sveitarstjórn skipa fimm manna húsnæðisnefnd og jafnmarga til vara að afloknum hverjum sveitarstjórnarkosningum, þrjá kosna af sveitarstjórn og tvo fulltrúa tilnefnda af stærstu samtökum launafólks í sveitarfélaginu.
    Í sveitarfélögum með yfir 10.000 íbúa skal sveitarstjórn með sama hætti skipa sjö menn í húsnæðisnefnd og jafnmarga til vara, fjóra kosna af sveitarstjórn og þrjá kosna af stærstu samtökum launafólks í sveitarfélaginu.``

    Til þess að taka af allan vafa um hvað þessi síðasta setning merkir þá er það skilningur nefndarinnar að það skuli staðið að tilnefningu fulltrúa launþega á sama hátt og gert er í dag í þessum stærstu sveitarfélögum landsins.
    Þá leggur nefndin til breytingu við 3. gr., k-lið, þar sem aðeins er um að ræða að kveða skýrt á um það að húsnæðisnefndir hafi umsjón með byggingu félagslegs húsnæðis, eins og reyndar kemur fram í grg. frv., en rétt þótti að hafa þetta ákvæði í 3. gr. frv. skýrara og án alls vafa.
    Þá er í fjórða lagi lögð til breyting við 3. gr., t-lið, þar sem segir að ef sveitarfélag hafnar forkaupsrétti sínum á íbúðum í félagslega kerfinu hafi það fyrirgert rétti sínum til að byggja nýjar íbúðir innan kerfisins í þrjú ár.
    Þarna þótti nefndinni fulllangt gengið því sú staða gæti komið upp, sérstaklega í minni sveitarfélögunum, að sú íbúð eða húseign sem í boði væri hentaði engan veginn að stærð eða gerð að teknu tilliti til þeirra umsókna sem fyrir kynnu að liggja. Því var nefndin sammála um að við greinina bættist nýr málsliður, svohljóðandi: ,,Þetta á þó ekki við ef íbúðin hentar ekki að teknu tilliti til fyrirliggjandi umsókna.``
    Þá leggur nefndin til breytingu við enn einn lið 3. gr. þar sem nauðsynlegt þykir, til þess að auka rétt kaupandans, að kaupsamningur skuli undirritaður strax við afhendingu íbúðar þegar kaupandi hefur greitt 10% áætlaðs kostnaðarverðs.
    Í i-lið 3. gr. frv. er fjallað um óleyfilega útleigu. Nauðsynlegt þykir að herða ákvæði í núgildandi lögum um viðurlög við óleyfilegri útleigu íbúða í félagslega kerfinu. Við yfirferð nefndarinnar á frv. og eins í athugasemdum lögfræðings stjórnar Verkamannabústaða komu fram efasemdir um að greinin, eins og hún er orðuð í frv., stæðist. Niðurstaða nefndarinnar varð sú tillaga til breytingar sem er á þskj. 917 og reyndar viðbót á þskj. 971. Þar sem okkur fannst eftir nánari athugun ekki nóg að gert leggjum við til að greinin orðist svo:
    ,,Íbúðareiganda er óheimilt að leigja út íbúð sína nema að fengnu skriflegu samþykki sveitarstjórnar eða húsnæðisnefndar í umboði hennar. Heimilt er að binda samþykki skilyrðum um leigutíma og leigufjárhæð. Leigusamningur, sem eigi er áritaður af sveitarstjórn eða húsnæðisnefnd, er ógildur. Nú verður leigutaki fyrir tjóni sökum ógilds leigusamnings og er þá leigusali bótaskyldur.
    Framkvæmdaraðili getur rift leigusamningi sem er ógildur skv. 1. mgr. og krafist útburðar leigutaka.``
    Hér leggur meiri hl. nefndarinnar svo til að við bætist ný mgr. sem orðist svo:
    ,,Auk ákvæða 1. og 2. málsgr. er Byggingarsjóði verkamanna heimilt að breyta vöxtum á láni íbúðareiganda frá þeim tíma sem íbúðin var leigð út án heimildar þannig að vextir frá þeim tíma verði þeir sömu og gilda um lán til almennra kaupleiguíbúða.``
    Meiri hl. nefndarinnar leggur einnig til að ákvæði þessi eigi við um allt félagslegt húsnæði, einnig það sem byggt var samkvæmt eldri lögum.

    Við leggjum einnig til að ákvæði um gildistöku laganna verði breytt. Og að síðustu er hér á þskj. 917 ákvæði til bráðabirgða um að húsnæðisnefndir taki við réttindum og skyldum sem stjórnir verkamannabústaða hafa tekist á hendur. Er þessi tillaga einkum komin til vegna ábendinga stjórnar Verkamannabústaða í Reykjavík, sem virðist hafa haft algjöra sérstöðu hvað varðar sjálfræði þessara stjórna sem í nær öllum tilvikum hafa orðið að standa skil á verkum sínum og ákvörðunum til viðkomandi sveitarstjórnar, nema hér í Reykjavík.
    Þær brtt. meiri hl. félmn. sem birtast á þskj. 971 fjalla, eins og ég sagði áðan, um viðurlög við óleyfilegri útleigu íbúða.
    Þá var samkomulag um að leggja til breytingu við 3. gr., ss-lið, þar sem fjallað er um endurskoðun vaxta með tilliti til fjölskyldutekna en töluverð umræða var um það í nefndinni hvort sú endurskoðun, sem frv. gerir ráð fyrir að eigi sér stað átta árum eftir kaup íbúðar á tekjum íbúðarkaupanda, ætti að fara fram fyrr, t.d. fimm árum eftir að kaupsamningur er gerður. Það álit kom m.a. fram í umsögn stjórnar Húsnæðisstofnunar ríkisins og öðrum umsögnum reyndar.
    Mótrökin eru þau að fyrstu árin eftir að einstaklingur eða fjölskylda festir kaup á húsnæði séu ár mikillar vinnu og raunhæft mat á tekjum verði því ekki til staðar svo stuttu eftir íbúðarkaup. Niðurstaðan varð því sú að halda inni ákvæðinu um að endurskoðun tekna skuli fara fram átta árum eftir að kaupsamningur er gerður en síðan leggjum við til að eftir það verði endurskoðun framkvæmd á þriggja ára fresti í stað fimm eins og frv. gerir ráð fyrir.
    Þá er lagt til að í stað orðsins ,,varasjóður`` í 3. gr., uu-lið, komi: Tryggingarsjóður vegna byggingargalla og breytist liðurinn allur í samræmi við það. Þetta er gert eftir ábendingum frá stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins.
    Virðulegi forseti. Ég hef hér farið yfir brtt. meiri hl. félmn. Eins og áður er nefnt fengum við umsagnir frá þó nokkuð mörgum aðilum. Fresturinn sem þeir höfðu til þess að skila inn umsögnum var stuttur og ber að þakka hversu fljótt og ljúflega þeir brugðust við. Það komu margir að samningu frv. og ekki oft sem maður sér hér á borðum hv. Alþingis frv. sem náðst hefur eins víðtæk samstaða um og það frv. sem hér um ræðir. Ég leyfi mér því að vona að hv. þm. hér í deildinni greiði fyrir samþykkt þess og það fái fljóta og góða afgreiðslu.