Húsnæðisstofnun ríkisins
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Þar sem ég átti þess ekki kost að sitja þennan síðasta fund nefndarinnar þar sem málið var endanlega afgreitt vildi ég aðeins láta koma fram að ég styð brtt. á þskj. 971 og tel þær allar vera til bóta.
    Það sem ég tel mikilvægast í þessu máli er að samstaða hefur náðst. Eins og fram kemur í umsögnum um frv. þá eru þær allar mjög jákvæðar. Kvennalistinn hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á að styrkja og bæta félagslega húsnæðiskerfið og við teljum að með þessu frv. sé tekið mikilvægt skref í þá átt. Í sumum atriðum hefði e.t.v. mátt hugsa sér að ganga lengra og auðvitað hefði verið æskilegt að fyrir lægi frv. um leiguhúsnæði og húsaleigubætur, en við metum það svo að hér sé um svo mikilvægt mál að ræða að full ástæða sé til að styðja það. Helsta ágreiningsefnið, eins og fram hefur komið í umræðunni og einnig í þeim umsögnum sem borist hafa, er varðandi skipan í húsnæðisnefndir. Ég tel að þau ákvæði sem eru í frv. séu viðunandi lausn, þar sem skýrt er kveðið á um að þær starfi í umboði sveitarstjórna og verður að treysta því að vel takist til með samráð og samstarf með sveitarstjórnunum.
    Hins vegar bárust umsagnir, eins og fram kom í máli hv. formanns félmn., mjög seint miðað við þann frest sem hafði verið gefinn, bæði frá Húsnæðisstofnun ríkisins og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Þar eru auðvitað ýmsar athugasemdir en í öllum meginatriðum fær frv. jákvæðar undirtektir. Í ljósi þess teljum við rétt að styðja það.