Kvikmyndastofnun Íslands
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Það er í sjálfu sér ánægjuefni að hér skuli liggja fyrir frv. til laga um nýja tilhögun á málefnum kvikmyndagerðar á Íslandi. Tíu ár eru liðin síðan kvikmyndavorið svokallaða hófst. Þetta 10 ára afmæli hefur e.t.v. orðið til þess að drepa á dreif því starfi sem áður hafði verið unnið. Það er mjög mikilvægt að menn geri sér grein fyrir að hér er ekki um að ræða tíu ára starfsemi heldur má segja að kvikmyndavorið svokallaða hafi einmitt verið uppskera sem aðrir sáðu til.
    Hér höfðu þó nokkrir einstaklingar reynt að stunda þessa listgrein árum og áratugum saman. Hér höfðu verið framleiddar kvikmyndir sem nutu vinsælda meðal almennings og heimildarkvikmyndir einnig. Nægir að nefna t.d. kvikmynd sem sýnd var núna um páskana, um björgunarafrekið fræga við Látrabjarg. Þess gætir hins vegar nokkuð í umfjöllun um kvikmyndagerð í dag að brautryðjendur hafi gleymst og mönnum þykir e.t.v. tíu ár ekki langur tími en þessi tími er í raun orðinn miklu lengri. Við áttum hér þó nokkra gagnmenntaða kvikmyndamenn sem höfðu verið við nám víðs vegar um Evrópu árum saman. Ég held að engum þeirra manna hafi auðnast að vinna að kvikmyndagerð eftir það nema mjög stopult og með löngum hléum og við mjög bágborin kjör þannig að þessi vorkynslóð er sú kynslóð sem hefur fyrst uppskorið.
    Á þessum tíu árum sem liðin eru frá því að myndin sem talin er marka upphaf þessa tímabils, Land og synir, var frumsýnd hafa verið frumsýndar 25 íslenskar myndir. En svo undarlega vill til að þeim fer fækkandi. Síðasta ár voru einungis frumsýndar tvær myndir, í ár ein og 1991 er ekki von til þess að verði frumsýnd nema ein mynd þar sem einungis var fé til í Kvikmyndasjóði til einnar leikinnar myndar. Það gefur auga leið að með svo lítilli framleiðslu þurfum við ekki að búast við miklum framförum eða stórvirkjum í bráð. Okkur hættir e.t.v. til þess að líta á menn sem hafa starfað við þetta í 10--12 ár
sem gamalreynda og reynslumikla en svo er auðvitað alls ekki því að í besta falli hafa þeir staðið að gerð nokkurra kvikmynda, þannig að engum hefur auðnast að ná þar fullum þroska. Það er ekki við þá að sakast og ég er ekki að draga úr framlagi þeirra eða getu, en það liggur auðvitað ljóst fyrir að enginn stekkur alskapaður úr höfði Seifs nema auðvitað Pallas Aþena forðum en aðrir þurfa sinn reynslutíma, sína eldskírn, og til þess hefur raunar engum veist tækifæri enn þá á Íslandi.
    Fjárframlög hafa því miður orðið minni nú undanfarið en fyrst var eftir að byrjað var að reyna að styrkja þessa grein en það kemur auðvitað fleira til. Framleiðsla myndanna er dýrari. Menn sætta sig ekki mjög lengi við frumbýlishætti. Það var eflaust auðveldara að fá fólk til starfa fyrir sáralitla greiðslu fyrstu árin og nægir að nefna hlut þess hóps sem hefur hvað drýgst stutt við bakið á kvikmyndagerðarmönnum sem vill því miður ærið oft

gleymast, bæði af þeim og öðrum, en það eru íslenskir leikarar sem hafa um árabil lagt þessari listgrein lið með því að gefa, lána og í besta falli fá heldur lágar greiðslur fyrir vinnu sína. Ég held að þeir hafi ekki talið þetta eftir sér, en þess hefur kannski verið að litlu getið hversu mikið þeir hafa í rauninni lagt til þessarar listgreinar.
    Eins og liggur fyrir hér í þessu frv. til laga stendur til að gera nokkra breytingu á stjórn Kvikmyndastofnunar Íslands eins og henni er ætlað að heita núna. Áður áttu sæti í stjórn fulltrúar Bandalags ísl. listamanna. Eflaust má deila um hvort það er réttmætt, en raunin hefur orðið sú að það hefur verið fulltrúi kvikmyndagerðarmanna í Bandalagi ísl. listamanna sem tekið hefur svo sæti í þessari stjórn líka. Aðrir sem sátu í stjórn voru kvikmyndahúsaeigendur. Ég get ekki með nokkru móti séð hvaða erindi þeir áttu í þessari stjórn hvort eð var. Ég er hrædd um að mörgum þætti einkennilegt ef atvinnurekendur ættu sæti í stjórn Dagsbrúnar t.d. Þeir eru auðvitað hagsmunaaðilar, kaupendur framleiðslunnar, og hafa ekkert að gera í stjórn þessara mála. Og eflaust má deila um hvort þriggja manna stjórn er of mikil fámennisstjórn. Ég hef ekki á reiðum höndum hverjir ættu að sitja í þessari stjórn ef fjölgað væri en ég gæti ímyndað mér að það væri þá helst að fjölga fulltrúum þessara tveggja aðila sem nú eiga hvor sinn mann samkvæmt tilnefningu Félags kvikmyndagerðarmanna og Sambands ísl. kvikmyndaframleiðenda. Varðandi það sem hv. 2. þm. Reykv. sagði um nauðsyn þess að Félag kvikmyndaleikstjóra ætti þarna hlut að máli bendi ég á að ég held að enginn kvikmyndaleikstjóri á Íslandi sé ekki meðlimur í öðru hvoru eða báðum þeirra félaga sem núna tilnefna í stjórn. Þetta mun ekki vera fjölmennt félag, en flestir íslenskir kvikmyndaleikstjórar eru jafnframt framleiðendur mynda þannig að þeir eru þá í Sambandi ísl. kvikmyndaframleiðenda og eiga sinn fulltrúa í gegnum þann félagsskap.
    Um verkefni ætla ég ekki að ræða. Þau eru tíunduð í 3. gr.
    Í 4. gr. stendur að menntmrh. ráði framkvæmdastjóra Kvikmyndastofnunar til fjögurra ára í senn að fengnum tillögum stjórnar og vil ég gjarnan spyrja hæstv. menntmrh. hvort beri að skilja þetta þannig að hægt sé að endurráða
framkvæmdastjóra Kvikmyndastofnunar aftur og aftur til fjögurra ára eða hvort þarna sé átt við eitthvert hámark ráðningar eins og gjarnan tíðkast nú, sérstaklega í stjórnun menningarstofnana af ýmsu tagi. Ég held að full þörf væri á því í þessu tilfelli að hafa ákvæði um hversu oft mætti endurráða, en víðast í svipuðum tilvikum eru ákvæði um að endurráða megi einu sinni. Þarna er að vísu um að ræða framkvæmdastjóra en ekki stjórnendur, en það mun þó orða sannast að framkvæmdastjóri mun í þessu tilfelli hafa afskaplega mikil áhrif á rekstur Kvikmyndastofnunar og því nauðsynlegt að þar gæti endurnýjunar.

    Í 5. gr. er svo ákvæði um hvernig stjórn Kvikmyndastofnunar skuli skipa tvær þriggja manna nefndir til að úthluta úr Kvikmyndasjóði. Hér virðist vera talsvert flókinn hlutur á ferð, þ.e. að það á að setja á stofn tvær nefndir og síðan eiga tveir stjórnarmanna að hreyfast milli þessara nefnda þannig að þeir veiti þessum nefndum formennsku til skiptis og þarna verði hreyfanleiki. Hvort hér er í raun um valddreifingu að ræða efast ég um. Í þriggja manna stjórn hljóta samskipti og samvinna að vera mjög náin og ef tveir þeirra stjórnarmanna eiga síðan að veita forstöðu hvor sinni nefndinni efast ég dálítið um að það nái þeim tilgangi sem hér virðist stefnt að.
    Ég er algjörlega samþykk því að útdeilt skuli tvisvar á ári. Það er vissulega til bóta. Það getur oft dregist mjög lengi að þeir sem sækja um fjárframlög úr Kvikmyndasjóði fái svar við sínu erindi og eins og segir hér í greinargerð getur það gefið áfrýjunarmöguleika, ef svo má að orði komast, og eins og málum er háttað nú er líklegt að flestir sem fengju styrk til framleiðslu fengju hann í janúar svo að þeir gætu hafist handa við framleiðslu myndarinnar svona undir vor en þau fjárframlög sem fengjust að hausti væru frekar til undirbúnings.
    Það hafa vissulega verið uppi hugmyndir um ýmsa aðra tilhögun á úthlutun. Tillögur hafa komið fram frá Félagi kvikmyndagerðarmanna og Sambandi ísl. kvikmyndaframleiðenda um að veita stjórn Kvikmyndastofnunar Íslands sjálfdæmi um hverjum væri falin þessi úthlutun og væri hægt að gera það á marga mismunandi vegu og þyrfti ekki að setja um það svo fastar reglur. Það hafa verið gerðar athyglisverðar tilraunir á Norðurlöndum um tilhögun þessara mála og við hljótum t.d. að líta til Danmerkur þar sem kvikmyndagerð hefur staðið með miklum blóma undanfarið. Bæði hafa verið framleiddar margar myndir og góðar og þeir vakið athygli heima fyrir og um heim allan fyrir kvikmyndagerð. Að vísu eiga þeir langa sögu að baki í þeim efnum, en víst er um það að þar hefur kvikmyndagerð tekið verulegan fjörkipp nú undanfarið. Þeir hafa notað þá, að því er manni virðist, sérkennilegu aðferð, að fela jafnvel einum aðila að standa að þessu máli, þ.e. stjórn kvikmyndastofnunar þeirra hefur ráðið sér ráðgjafa til þess að fara yfir umsóknir og mæla með umsækjendum og fylgja síðan þessum verkum eftir alveg til enda. Ég verð að viðurkenna það að mér finnst þetta hljóma nokkuð sérkennilega, en þennan hátt hafa þeir nú haft á og það hefur skilað góðum árangri. Það mætti eflaust reyna ýmsar aðferðir en með því að binda þetta svona verða hendur Kvikmyndastofnunar bundnar. Væri þetta hins vegar haft opnara væri hægt að viðhafa margar mismunandi aðferðir við úthlutun og í rauninni væri lagt í hendur Kvikmyndastofnunar sjálfrar hvernig hún ákvæði að standa að málum og gæti þá hugsanlega gert þar ýmiss konar tilraunir. Það væri út af fyrir sig miklu djarfari ákvörðun en að negla það alveg niður hvernig staðið skuli að málum. Í tillögum sem þessi tvö félög hafa sent frá sér er lagt til að stjórnin skipi tvo

mismunandi aðila til að annast úthlutun, einn eða fleiri í hvora úthlutun. Ég held að þarna séu athyglisverðar hugmyndir á ferðinni sem a.m.k. eru umræðu virði og má e.t.v. segja að í þessu naglfasta skipulagi hér, sem er skipulagt út í æsar, gæti nokkurrar forræðishyggju.
    Í 6. gr. er hlutverk úthlutunarnefndar nokkuð tíundað og þykir mér sú grein nokkuð stuttaraleg. Í fyrsta lagi vil ég nefna að í 1. mgr. stendur: ,,Hlutverk úthlutunarnefnda er að úthluta styrkjum úr Kvikmyndasjóði til íslenskrar kvikmyndagerðar.`` Ég held að það væri afskaplega heppilegt að taka burt orðið ,,styrkjum`` og nota orð sem notuð eru í flestum öðrum tilfellum, þ.e. fjárframlög eða eitthvað í þeim dúr. Það er óþarfi að kalla þetta styrki. Þetta eru framlög ríkisins til þessarar greinar. Menn tala ekki um að skólar séu styrktir eða leikhús séu styrkt eða sjúkrahús. Það er opinbert fé sem er veitt til ákveðinnar starfsemi og í þeim fjárframlögum birtist hugur löggjafarvaldsins en ekki í styrkjum. Þetta er e.t.v. orðhengilsháttur en töluverður munur er á því að taka við styrk úr hendi manns eða fjárframlögum. Hér er einungis sagt að úthluta skuli ,,styrkjum úr Kvikmyndasjóði til íslenskrar kvikmyndagerðar, óháð því hvaða tækni er notuð við myndgerðina``. Þarna hefði mér fundist ástæða til að tíunda frekar það sem fengi fjárframlög, þ.e. að um geti verið að ræða styrki til handritagerðar, undirbúnings, framleiðslu eða dreifingar íslenskra kvikmynda, að það sé áréttað í lögunum að það sé ekki bara lokaframleiðslan sem þarna um ræðir.
    Í 7. gr. er kveðið á um tekjur Kvikmyndasjóðs. Í raun er ekkert sem tryggir í þessum frumvarpsdrögum að tekjur Kvikmyndastofnunar verði nokkuð meiri eða
tryggari en þær hafa verið hingað til: ,,Árlegt framlag úr ríkissjóði er nemi áætluðum virðisaukaskatti af kvikmyndasýningun. Áætlun þessi skal gerð af Hagstofu Íslands`` o.s.frv. Menn þekkja náttúrlega hvernig eyrnamerkt fé hefur skilað sér til starfsemi. Þarna er gerð enn ein tilraun til slíkrar eyrnamerkingar og er eflaust nokkur stoð í þessu en trygging er það ekki eins og dæmin sanna, en aftur á móti er hér einungis gert ráð fyrir áætluðum virðisaukaskatti af kvikmyndasýningum. Það mun þó mála sannast að ekki eru síður tekjur af útleigu kvikmynda af myndbandaleigum og jafnvel mætti hugsa sér af myndum sýndum í sjónvarpi, en þarna mundi þó mest muna um að bætt yrði inn í lögin virðisaukaskatti af útleigu myndbanda. Virðisaukaskattur af sjónvarpsauglýsingum hefur líka verið nefndur en einhvern grun hef ég um að það tengist hugsanlegum menningarsjóði sem er víst væntanlegur einhvern tíma.
    Kvikmyndagerðarmenn hafa gert tillögu um athyglisverða tekjuöflun fyrir Kvikmyndasjóð sem felst í því að Kvikmyndastofnun fái tekjur af kvikmyndum í jöfnu hlutfalli við það sem þeir leggja til ákveðinna kvikmynda að frádregnu tvöföldu áhættufé framleiðenda. Þetta mundi hugsanlega líta þannig út að mynd kostaði 40 millj., ríkið legði tl 20 millj.,

framleiðandi 20, þannig að eignarhaldið væri helmingaskipt. Þegar myndin hefði skilað 20 millj. til framleiðanda að viðbættum öðrum 20, með öðrum orðum að hann hefði tvöfaldað sitt áhættufé, skiptust tekjur af aðgangseyri myndarinnar eftir það til helminga. Fengi þá Kvikmyndastofnunin auknar tekjur ef mynd skilaði ágóða en jafnframt hefði framleiðanda verið sköpuð aðstaða til þess að hefja framleiðslu nýrrar myndar. Þetta ætti því að geta komið báðum aðilum til góða, eflt framleiðanda til dáða og skapað Kvikmyndastofnun tekjur.
    8. gr. verð ég að viðurkenna að er mér nánast óskiljanleg. Í fyrsta lagi virðist hér átt við lán. ,,Nú ákveður stjórn Kvikmyndasjóðs að lána til verkefnis,,, segir í 1. mgr. Seinna segir svo: ,,Miða skal við að stjórnin veiti að jafnaði ekki styrki til kvikmyndaframleiðenda sem hafa minna en 10% eigið fé.`` Nú eru náttúrlega engin dæmi þess að kvikmyndaframleiðendur hafi lagt til minna en 10%. Vel getur verið að framtíðin kunni að bera það í skauti sér, en ég verð að játa að ég bið um nánari útskýringu á þessari grein og hvað hún í rauninni merkir. Lán hafa verið veitt í neyðartilfellum þegar ekki hefur t.d. tekist að ljúka við gerð myndar eða komast yfir lokaáfanga, en að lögfesta slík lán veit ég hreint ekki hvort er til bóta og allra síst að lögfesta það að lánið falli á Kvikmyndasjóð. Auk þess er hér sérkennileg setning: ,,Nú ákveður stjórn Kvikmyndasjóðs að lána til verkefnis. Skal stjórnin þá kynna sér fjárhag fyrirtækisins eftir föngum.`` Ja, skárri væri það nú stjórnin sem ekki kynnti sér fjárhag fyrirtækis sem hún ætlaði að fara að ganga í ábyrgð fyrir. Mér finnst þetta vera orðalag sem ætti miklu frekar heima í reglugerð og hálfsnuprukennt að hafa það inni í lagatexta.
    Ekki tekur betra við í 9. gr.: ,,Fari stuðningur við framleiðslu myndar fram úr helmingi af kostnaði við gerð hennar getur stjórn sjóðsins óskað eftir því að ríkisbókhaldið fari yfir fjárreiður fyrirtækisins.`` Þeir sem úthluta fé hverju sinni hljóta að gera það af einhverri ábyrgð og hljóta að hafa kynnt sér fjárhagsáætlun og forendur þess sem um sækir. Það er harla einkennileg ráðstöfun ef á að festa það í lög að eftir úthlutun eigi að fara yfir fjárreiður fyrirtækis. Ef það gerist ekki fyrir úthlutun hefur verið illa að málum staðið. Úthlutunaraðilar eru ekki einungis að taka tillit til innihalds, menningarlegs eða sögulegs gildis eða listræns gildis. Þeir eru auðvitað líka að taka afstöðu til þess hvort umsóknin er á einhverjum rökum reist eða hvort hún stendur bara á brauðfótum. Auðvitað er sjálfsagt að hafa ákvæði um að hvenær sem er eftir að framleiðsla myndar er hafin megi fara fram á það að framleiðandi leggi fram bókhald til þess að hægt sé að fara yfir það, en svona tilhögun finnst mér í fyrsta lagi út í hött og í öðru lagi finnst mér þetta lítillækkandi bæði fyrir umsækjendur og úthlutunaraðila. Og ég vil bara biðja menn að athuga þessa grein rækilega áður en svona er hleypt í gegn.
    Að lokum vík ég aðeins að ákvæði sem var, skilst mér, upphaflega í frumvarpsdrögunum en er nú

einungis nefnt í athugasemdum við lagafrv., þ.e. að reglugerð verði breytt þannig að frádráttur vegna gjafa til menningarmála gildi einnig um íslenskar kvikmyndir. Í fyrsta lagi er hér sagt að það muni orðast svo: ,,og íslenskar kvikmyndir sem hafa hlotið viðurkenningu Kvikmyndastofnunar``. Nú vil ég leyfa mér að spyrja hvort umsækjandi sem ekki hlýtur náð fyrir augliti úthlutunaraðila hverju sinni geti þá ekki fjármagnað kvikmynd sína með framlögum einkaaðila eða fyrirtækja sem geti þá nýtt sér þennan frádrátt. Eða hvað merkir þetta, ,,hafa hlotið viðurkenningu Kvikmyndastofnunar``? Nú getur stofnun sem hefur takmarkaða fjármuni til umráða auðvitað aldrei veitt öllum sem hún vildi veita fé, en getur hún þá gefið út hæfnisvottorð þannig að viðkomandi geti lagt það fram ef hann leitar styrkja eða framlaga hjá einkafyrirtækjum?
    Það er mjög vandmeðfarið, ekki bara í kvikmyndagerð, heldur í öllum listgreinum hvernig draga skuli þessi mörk milli framlaga einkaaðila og ríkis og sjálfsagt að reyna að setja um það nokkuð strangar reglur hvernig að skuli
staðið því auðvitað er alltaf sú hætta fyrir hendi að fyrirtæki af einhverju tagi fari að ráða óhóflega miklu um innihald, í þessu tilfelli kvikmynda, og auðvitað verður að koma í veg fyrir það. Hugsanlegt væri að ef fyrirtæki ætti að njóta skattafrádráttar rynnu framlögin beint til Kvikmyndastofnunarinnar en ekki til einstakra mynda, þannig að fyrirtækið sýndi þá í rauninni þann hug sinn að það vildi stuðla að kvikmyndagerð en veldi ekki sjálft úr verkefni.
    Þær greinar sem fjalla svo um kvikmyndasafn eru að mínu viti ágætar og þarfnast ekki nánari skoðunar. Ýmislegt annað í frv. gerir það hins vegar og vona ég að það verði skoðað með opnum huga og af víðsýni í nefndinni og fái góðan framgang.