Kvikmyndastofnun Íslands
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um frv. sem hér er til umræðu. Fyrst og fremst þakka ég fyrir ágætar ræður sem hér hafa verið fluttar, bæði af hálfu hæstv. ráðherra og ekki síður af hálfu hv. 2. þm. Reykv. og 18. þm. Reykv. sem bæði þekkja vel til þessara mála.
    Ég vildi leggja áherslu á það sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra, en það er að mikilvægt sé að afgreiða frv. á þessu þingi. Ég skildi hæstv. ráðherra svo að hann teldi að málið gæti farið til nefndarinnar með þeim hætti að óhætt væri að gera þær lagfæringar sem eðlilegt er að gera á þessu frv. sem hér er til umræðu. Það kemur í ljós að gagnrýnin sem beinist að frumvarpsgreinunum er mjög svipuð, bæði af hálfu talsmanna Sjálfstfl. og Kvennalista. Eftir að hafa lesið frv. þá sýnist mér kannski helsta gagnrýnin vera sú að í 2. gr. er gert ráð fyrir því að menntmrh. skipi stofnuninni þriggja manna stjórn til þriggja ára í senn. Það kemur fram gagnrýni á þessa skipan mála. Menn telja að varla sé hægt að gæta allra sjónarmiða með þessum hætti og eðlilegt væri kannski að stjórnin væri stærri og nefnt hefur verið til sögunnar að fleiri samtök gætu þess vegna átt tilnefningarrétt.
    Þá er ljóst að í 2. mgr. 6. gr. og í 5. gr. er efni sem ræðumenn hafa nokkuð rætt og talið að varla geti staðið óbreytt, eins og það er í frv. Ég held, án þess að ég þekki mikið til þessara mála, að augljóslega sé betra að úthlutunarnefndin blandist ekki saman við stjórn Kvikmyndastofnunar, þ.e. að það séu ekki sömu einstaklingar sem sitji annars vegar í stjórn Kvikmyndastofnunar og hins vegar í úthlutunarnefndinni. Ég segi nefndinni frekar en nefndunum, því ég tel að það sé út í bláinn að hafa A og B úthlutunarnefndir, eins og gert er ráð fyrir í þessu lagafrv.
    Ef litið er á uppsetninguna, hér er reynt að koma í veg fyrir það að einhver slys verði, en menn kalla það gjarnan slys ef þeir fá ekki sjálfir úthlutað,
þá er gengið þannig frá málum að fyrst á ein nefnd að koma að þessu og síðan önnur með ákveðnu fyrirkomulagi eins og er lýst í frv. Ég held að það væri stórkostlegt slys að samþykkja þessa útgáfu eins og hún birtist í lagafrv. Ég held að það hljóti að vera affarasælast að úthlutunarnefndin sé skilin frá stjórn Kvikmyndastofnunar. Það sem kannski þyrfti að tryggja betur en hefur verið gert á undanförnum árum er að einhver rauður þráður sé í starfsemi úthlutunarnefndanna. Það má tryggja með því að ekki komi sífellt alveg nýr hópur að þessu verkefni heldur sitji einn eða tveir eftir í nefndinni þannig að ekki fari mjög mikill tími í að rifja upp það sem áður hefur verið unnið á vegum nefndarinnar. En það gerist óneitanlega þegar alveg nýtt fólk kemur að þessu starfi.
    Ég þarf ekki, virðulegur forseti, að hafa mörg orð um þetta mál en vil þó ekki láta hjá líða að spyrja eins og aðrir að því atriði sem kemur fram í athugasemdum við lagafrv. En það var kannski ein

helsta rósin í frumvarpsdrögunum, sem nefndin skilaði af sér, að setja inn lagaákvæði um það að fyrirtæki gætu fengið skattfríðindi vegna framlaga til kvikmynda sem viðurkenndar eru af Kvikmyndastofnuninni. Lagatæknilega skil ég ósköp vel að slík ákvæði eigi fremur heima í tekju- og eignarskattslögum, og síðan í reglugerð sem byggist á þeim lögum, um frádrátt vegna framlaga til menningarmála. Vandinn er hins vegar sá, þar skil ég auðvitað það fólk sem telur sig eiga rétt til slíkra fjármuna af því það stundar menningarstarfsemi á borð við þá að framleiða kvikmyndir, að það er viss hætta á því að slík reglugerð verði mótuð af viðhorfum ráðherra á hverjum tíma, enda hefur Alþingi lítið um þá reglugerð að segja. Þess vegna þarf að vera fyrir hendi veruleg trygging fyrir því að fjmrn. og hæstv. fjmrh. hafi fullan skilning á þessu máli og það þarf að liggja fyrir í nefndarstarfinu, mjög duglega og eftir því gengið, að þetta kerfi geti gengið upp.
    Ég átta mig ekki alls kostar á því hvað 0,5% af aðstöðugjaldsstofni þýðir í raun og veru. Ég vissi að á sínum tíma fóru fram mælingar á því þegar nefndin sat að störfum hvað þetta þýddi. Ef ég man rétt þýddi þetta, eins og þetta stóð þá í lagafrv., að fyrirtækin, 25 stærstu fyrirtækin á suðvesturhorni landsins, gátu lagt allt að 1 millj. til kvikmyndagerðar með þessum hætti ef þau notuðu allar heimildir sem þau höfðu samkvæmt lögunum um frádrátt vegna framlaga til kvikmyndagerðar. Ég hygg þó að þetta hafi breyst, að hlutfallið hafi verið annað og miðað við tekjuskatt, en ekki miðað við aðstöðugjaldsstofn. En mér finnst eðlilegt, án þess að ég sé að beina þeim fyrirspurnum til hæstv. ráðherra, að fara fram á það við hv. menntmn., sem ég veit að er skipuð fólki sem þekkir þetta mun betur en ég, að það sé gengið úr skugga um þetta því ég hef trú á að í jafnfjármagnsfrekri listgrein og kvikmyndagerðin er, þá komumst við Íslendingar aldrei langt án þess að nýta alla þá möguleika sem við höfum til þess að afla fjár, þar á meðal að notfæra okkur ákvæði skattalaga til að reyna að ná fjármunum út úr venjulegum atvinnufyrirtækjum þar sem eigendur og stjórnendur hafa áhuga á því að leggja íslenskri menningu lið með þeim hætti.
    Að öðru leyti, virðulegi forseti, þarf ég ekki að ræða þetta frv. Ég get tekið undir flest það sem komið hefur fram af hálfu talsmanna stjórnarandstöðunnar. Mér heyrist hæstv. ráðherra vera á þeim buxunum að koma þessu máli fram með samstarfi stjórnar og stjórnarandstöðu, sem ég skil á þann veg að hann sé tilbúinn til þess að taka fyllsta tillit til þeirra sjónarmiða sem komið hafa fram af hálfu talsmanna annars vegar Kvennalistans og hins vegar Sjálfstfl.