Kvikmyndastofnun Íslands
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég þakka fyrir þær athugasemdir og ábendingar sem hafa komið fram í umræðunni og svara fyrirspurnum. Fyrst frá hv. þm. Þórhildi Þorleifsdóttur, hvort ekki hafi komið til greina að hafa þarna með virðisaukaskatt af útleigu myndbanda, af hverju það sé ekki inni. Svarið er einfalt. Það er bara peningamál, það er einfalt. Ef útleiga myndbanda hefði verið þarna inni þá hefði það sennilega þýtt 50--60 millj. kr. í viðbót af mörkuðum tekjustofni fyrir sjóðinn og menn voru ekki tilbúnir til þess að marka sjóðnum meiri tekjur en sem nemur þeim virðisaukaskatti sem um er að ræða í frv. eins og það lítur út núna. Það eru ósköp einfaldlega rökin og í sjálfu sér ekki margt fleira um þau að segja.
    Hv. þm. spurði líka, af hverju er aðeins talað um heimild til athugunar ef framlög úr Kvikmyndasjóði, lán eða ábyrgðir, fara yfir helming af kostnaði, eins og stendur að mig minnir í 9. gr. Svarið er: Það er sniðið eftir gildandi lögum um Ríkisendurskoðun.
    Varðandi það sem fram kom hjá hv. 1. þm. Reykv. þá tel ég út af fyrir sig að það sé allt saman gildar ábendingar. Ég tel það ekki út í bláinn að hafa tvær úthlutunarnefndir. Það kannski virkar þannig, en það er auðvitað ekki út í bláinn. Það er hugsað þannig að tveir aðilar komi að úthlutuninni á fjármunum úr sjóðnum til að draga úr hættu á því að þröngir hagsmunir ráði ráðstöfun alls fjármagns Kvikmyndasjóðs hverju sinni. Það er í raun og veru svo einfalt.
    Hins vegar er alveg rétt hjá hv. 1. þm. Reykv. að það mætti kannski búa aðeins betur um hnútana varðandi það að ekki komi alltaf alveg nýr hópur að úthlutun eins og þetta er núna. Þeir sem eru t.d. í úthlutunarnefndinni núna komu að öllu leyti nýir til skjalanna. Þeir sem voru í úthlutunarnefndinni í fyrra voru allt aðrir. Auðvitað má reyna að stuðla að því að einhver samvinna sé á milli eða einhver tengsl náist á milli þessara úthlutunarnefnda. Það er út af fyrir sig alveg hægt samkvæmt frv. eins og það lítur út.
    Með skattfríðindin. Þannig var fyrir allmörgum árum að tekin var um það ákvörðun í landi nokkru, sem er nokkuð fjarlægt okkur og heitir Ástralía, að það yrðu veittir sérstakir skattafrádrættir vegna kvikmynda. Það var ákveðið að hver króna, sem fyrirtæki veitti til kvikmyndaframleiðslu, drægist frá skatti þess fjórföld. Árangurinn af þessu höfum við meira að segja hér uppi á Íslandi séð í kvikmyndahúsum og sjónvörpum okkar, þar sem fram hefur komið að Ástralíumenn hafa gert sig gildandi á alþjóðlegum kvikmyndamarkaði á undanförnum árum. Í upphaflegum tillögum, sem ég lagði fyrir í þessum efnum, var gert ráð fyrir því að svipað fyrirkomulag yrði tekið upp hér og kvikmyndagerð þannig í raun og veru raðað í forgangsröð með þeim rökum að framleiðsla á hverri leikinni mynd er dýr og um er að ræða verkefni, menningarlegt verkefni sem þess vegna er réttlætanlegt að verja fjármunum til með alveg sérstökum og afbrigðilegum hætti. Það er enginn vafi

á því í mínum huga. Ég tel líka að af því að markaðurinn er svo lítill hér séu full rök fyrir því að ganga lengra í þessum efnum að því er kvikmyndina varðar en ýmsa aðra þætti í okkar menningarstarfsemi.
    Niðurstaðan varð svo sú, út af einhverju sem heitir skatttæknilegar ástæður og hv. 1. þm. Reykv. sagðist skilja og ég verð að segja alveg eins og er að ég hef aldrei skilið og get sennilega aldrei lært að skilja, enda er ég ekki búinn að vera á þingi nema í 12 eða 13 ár, að ég taldi fullkomlega eðlilegt að vera með svona frádráttarákvæði inni í þessum sérlögum. Niðurstaðan varð svo sú að menn töldu það óeðlilegt og betra væri að hafa þetta á grundvelli tekjuskattslaganna sjálfra. Auðvitað er það rétt, það er hreinna að hafa það þannig og þess vegna segja menn sem svo: Við breytum reglugerðinni. Þá kem ég að því sem hv. þm. Friðrik Sophusson ýjaði sérstaklega að, hvernig verður henni breytt? Henni verður breytt nákvæmlega eins og stendur í greinargerðartextanum, en ég gæti sent hv. menntmn., ef menn vilja, reglugerðargreinina í heild, eins og hún liti út svo breytt þannig að menn hafi það alveg á hreinu hvernig með þetta yrði farið.
    Hv. þm. sagði að reglugerðir væru mótaðar af viðhorfum ráðherra á hverjum tíma og það er út af fyrir sig alveg rétt. En í sjálfu sér er þetta mjög einföld reglugerðarbreyting og sjálfsagt að nefndin fái það til meðferðar. Mér finnst mikilvægt að afgreiðsla nefndarinnar á frv. byggist m.a. á því að reglugerðinni verði breytt með tilteknum hætti þannig að það komi í raun og veru fram með óbeinum hætti hver vilji löggjafans er í þessu efni og að framkvæmdarvaldið geti þess vegna við reglugerðarbreytinguna tekið mið af því.
    Eins og hv. 1. þm. Reykv. sagði áðan þá er ég að sjálfsögðu tilbúinn til að stuðla að því að tekið verði tillit til skynsamlegra ábendinga um breytingar á frv. Ég kannast nú satt að segja ekki við að mjög hafi staðið á því í samvinnu minni við stjórnarandstöðuna í flestum málum. En að sjálfsögðu, ef menn eru með lagfæringar á frv., eins og að sumu leyti hefur verið bent á þegar, á að skoða það. Betur sjá augu en auga og það er eðlilegt, og stjórnvöldum í raun og veru skylt og menntmrh., hver sem hann er, að stuðla að því að mál fái
skynsamlega afgreiðslu þar sem menn reyna að nálgast þessa hluti af víðsýni. Ég heiti enn á hv. menntmn. að gera allt sem í hennar valdi stendur til að lenda þessu máli þegar á yfirstandandi þingi.
    Ég þakka svo að öðru leyti fyrir umræðuna.