Skaðsemisábyrgð
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Sólveig Pétursdóttir:
    Hæstv. forseti. Það kemur mér nokkuð á óvart að hæstv. ráðherra skuli nú mæla fyrir þessu frv. um skaðsemisábyrgð.
    Mér er kunnugt um að mál þetta hefur ekki verið lengi í undirbúningi og mér sýnist að talsvert eigi eftir að betrumbæta það, jafnvel þannig að töluverð vinna sé eftir, enda um flókið mál að ræða, ekki síst lögfræðilega.
    Þar að auki er nokkuð ljóst að ekkert liggur á setningu lagareglna sem þessara næstu árin. Að því er ég best veit er forsaga þessa máls sú að Jón Finnbjörnsson héraðsdómari flutti erindi hjá Lögfræðingafélaginu nýverið um ráðstilskipun EB um skaðsemisábyrgð, eins og gerð eru rækileg skil í greinargerð. Þetta erindi er mér tjáð að hafi verið mjög fróðlegt og varð m.a. til þess að ráðuneytisstjóri í viðskrn. bað Jón Finnbjörnsson um að semja þetta frv. sem hann og hóf störf að ásamt Arnljóti Björnssyni, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. Þeirra starfi virðist þó ekki hafa verið að fullu lokið. Því fagnaði ég sérstaklega þegar hæstv. ráðherra lýsti því yfir áðan að ekki væri ætlunin að þetta frv. yrði að lögum á þessu þingi heldur væri tilgangurinn öllu fremur sá að koma málinu til nefndar til þess að hægt væri að afla umsagna. Ég verð að segja að það er þó frekar skiljanleg meðferð en hitt, ef frv. ætti að reyna að gera að lögum strax.
    En það vekur þó nokkra furðu að aðeins eitt mál, sem varðar EB og þá þróun sem í því sambandi á sér stað, skuli tekið svona út fyrir en ekki í samræmi við annað starf á þessu sviði. Þessum athugasemdum vildi ég koma að, hæstv. forseti, en auðvitað er þó hér um mjög athyglisvert mál að ræða. Einmitt þess vegna þarf að vanda vel undirbúning þess.
    Markmiðið með frv. er vafalaust að samræma íslenskar reglur reglum EB á þessu sviði og um það er rætt í greinargerðinni. Sérstaka athygli vekur að hún er samin í viðskrn. Reyndar er þar alvarleg stafsetningarvilla, að því er ég
best fæ séð, á bls. 3 neðarlega og bið ég hæstv. ráðherra að leiðrétta mig ef það er ekki rétt. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ábyrgð á skaðlegum eiginleikum söluvöru fer í meginatriðum eftir almennum skaðabótareglum. Ekki er ljóst samkvæmt kenningum fræðimanna eða úrlausnum dómstóla, hversu ströng ábyrgð þessi skuli vera. Þróunin á þessu sviði er til strangari ábyrgðar og jafnvel huglægrar ábyrgðar.``
    Þarrna hlýtur að eiga að standa ,,hlutlægrar`` ábyrgðar. Vegna þess að það er aðalatriðið í frv. að hér er um að ræða hlutlæga eða ,,objektiva`` ábyrgð, sem skiptir verulegu máli því að í frv. er ekki gert ráð fyrir sök í samræmi við ,,culpa``-regluna. Ég bið hæstv. ráðherra um að leiðrétta mig ef þetta er ekki rétt skilið því ég hefði haldið að hér væri um aðalatriði að ræða.
    Hér er sem sé fjallað um svokallaða upprunaábyrgð, þ.e. ábyrgð á vöru er færð til hins

upprunalega framleiðanda. Þessar reglur snerta þá að sjálfsögðu m.a. mikið útflutning hjá Íslendingum og er því mætavel skiljanlegt að hæstv. ráðherra vilji fá athugasemdir frá þeim aðilum sem þetta mál varðar.
    Það er að vísu varla tími til þess hér að fara nákvæmlega ofan í hverja einustu grein frv., enda tiltölulega stutt síðan það var lagt fram. Þó má vekja hér athygli á t.d. 12. gr. þar sem segir: ,,Eigi má áður en tjón verður víkja með samningi frá ákvörðun laga þessara til baga fyrir tjónþola eða þann er öðlast rétt sinn frá honum.`` Það gæti litið út fyrir að hér væri um svolítið sérstakt ákvæði að ræða en ég hygg þó nauðsynlegt að hafa slíkar ófrávíkjanlegar reglur ef menn vilja koma á slíkri löggjöf. En þessar reglur munu hafa það í för með sér að atvinnureksturinn hlýtur að verða að tryggja sig fyrir slíkri ábyrgð og kaupa þar með iðgjöld hjá vátryggingafélögum. Maður getur gert ráð fyrir því að alls kyns kostnaður muni þar með leggjast ofan á vöruna. Þannig að vöruverð hlýtur að hækka. Hins vegar má náttúrlega benda á að þá ætti vara jafnframt að vera öruggari og líka má gera ráð fyrir því að þegar vátryggingafélögin komi svo sterkt inn í þessi mál muni þau fara út í sjálfstætt eftirlit. Það er því hægt að vonast til þess að tjón muni frekar minnka þar sem gerðar yrðu strangari kröfur.
    Það er reyndar athyglisvert með 4. gr. að þar er talið til hver teljist vera framleiðandi. Í fyrsta lagi er það sá sem býr til fullunna vöru en í 2. mgr. segir: ,,Auk þess skal hver sá teljast framleiðandi er flytur vöru til landsins í þeim tilgangi að selja, leigja eða afhenda vöru á annan hátt en í atvinnustarfsemi.`` Þar með eru innflytjendur komnir með þessa ábyrð á sínar herðar væntanlega í þeim tilgangi að auðvelda tjónþolanum að ná fram rétti sínum þar sem erfitt yrði að ná til framleiðanda sem er einhvers staðar langt í burtu. En ég geri ráð fyrir því að þá yrði um endurkröfurétt að ræða frá innflytjanda til framleiðandans. Í 3. mgr. 4. gr. segir: ,,Dreifingaraðili telst hver sá er afhendir vöru í atvinnuskyni, án þess að teljast framleiðandi.`` Nú kemur það í ljós í frv., og í greinargerð, að dreifingaraðili getur borið jafnsterka ábyrgð. Væntanlega er þá hér átt við dreifingaraðila eins og seljanda vörunnar, t.d. kaupmanninn á horninu. Vildi
ég biðja hæstv. ráðherra um að skýra aðeins frekar hvað hér er um að ræða, hversu víðtæk þessi ábyrgð er.
    Maður getur séð fyrir sér að hér getur orðið um talsverðan kostnað að ræða. Vátrygging getur jafnvel orðið þreföld. Fyrst er það framleiðandi vörunnar sem kaupir sér vátryggingu. Síðan getur innflytjandinn eða hver sá sem flytur vörur til landsins í þeim tilgangi sem getið er um í 2. mgr. 4. gr. keypt sér vátryggingu og sömuleiðis dreifingaraðili. Hér getur því orðið um þrefalda vátryggingu að ræða.
    Fram kemur í greinargerð að þessi lög virðast fyrst og fremst sniðin eftir dönsku lögunum. Er það að sjálfsögðu fagnaðarefni ef hæstv. ráðherra vill halda sig að norrænni löggjöf í þessu sambandi. Eins og

kemur fram í greinargerð þá er nú þegar búið að samþykkja dönsk lög um skaðsemisábyrgð og lagasetning er í undirbúningi annars staðar á Norðurlöndum. Þetta er sérstaklega mikilvægt atriði vegna þess að við höfum mjög fá tilvik um slíka ábyrgð í íslenskum dómapraxis. Það er þess vegna mjög mikilvægt fyrir Íslendinga að geta notfært sér bæði rit og dóma um þetta efni þar sem norræn löggjöf er víðast hvar mjög svipuð og Íslendingar hafa miðað sína löggjöf við hana.
    Það er samt nokkuð athyglisvert atriði hér sem kemur fram neðst á bls. 7 í kaflanum sem heitir ,,Lagasetning um skaðsemisábyrgð``. Þar er talað um hvernig þessu hefur verið fyrir komið í Bandaríkjunum þar sem löggjafarþróun og dómar, sem kveðnir hafa verið upp í málum sem fjalla um skaðsemisábyrgð, hafa lagt mjög ríka ábyrgð á framleiðendur vöru og hafa dæmdar skaðabætur numið háum fjárhæðum. Hér segir einnig orðrétt:
    ,,Framleiðendur í Bandaríkjunum kaupa sér yfirleitt vátryggingar fyrir hugsanlegum útgjöldum vegna skaðsemisábyrgðar, en á síðustu árum hafa iðgjöld af slíkum vátryggingum hækkað verulega. Eru iðgjöld slíkra trygginga jafnvel ofviða smáum fyrirtækjum. Í ágúst árið 1986 var lagt fram á Bandaríkjaþingi frumvarp til alríkislaga um skaðsemisábyrgð en það hefur enn ekki verið staðfest. Samkvæmt frumvarpinu ber seljandi því aðeins skaðsemisábyrgð að hann hafi sýnt gáleysi.``
    Þetta er mjög mikilvægt atriði, að framleiðandinn hafi sýnt gáleysi. Það lítur svo út að hér sé verið að draga úr kröfum. Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort nokkur hætta sé á því að löggjöf sem þessi, sem við erum að ræða um hér og eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, geti haft einhverja slíka afturvirkni í för með sér eftir einhvern ákveðinn tíma. Það er kannski fremur ótrúlegt vegna þess að það hafa verið mjög ólíkir dómar sem hafa verið dæmdir annars vegar hér á Íslandi og Norðurlöndum og svo aftur í Bandaríkjunum þar sem skaðabótakröfur hafa verið gífurlega háar og dæmdar hafa verið gífurlega háar fjárhæðir í slíkum málum. En það er kannski ástæða til að velta því aðeins fyrir sér.
    Þá er rétt að geta þess að tryggingafélög hér á landi hafa verið að greiða einhverjar bætur út af svona tjóni. Sem dæmi má nefna vanstilltar þvottavélar, þ.e. tjón sem hefur orðið á þvotti. Það hefur verið bætt af ábyrgðartryggingu seljanda og fleiri dæmi eru til, eins og sala á dýrafóðri þar sem skepnur hafa sýkst, jafnvel drepist, varp dottið niður í hænsnabúum. Eins líka tjón út af matareitrun og að því er mér skilst þá hefur þetta tjón einnig verið bætt í sambandi við útflutning hjá íslensku fyrirtæki þar sem efni hefur verið notað í iðnað erlendis og um talsvert tjón var að ræða. Þessi mál virðast því ekki alveg óþekkt hér í praxis og reyndar virðist sem framkvæmdir hafi tekið mið af íslenskum dómapraxis. Þannig að það er kannski ekki hundrað í hættunni þó að þetta mál yrði athugað nánar og jafnvel lagt fram á næsta
haustþingi. En þó virðist svo sem ekki liggi mikið á

þessari löggjöf og mörg atriði þurfi að athuga betur í þessu sambandi. Þessi löggjöf er til viðbótar við þá löggjöf sem gildir um ábyrgð á vöru, þ.e. galla á vöru samkvæmt kaupalögum. Í kaupalögum er talað um galla á vöru en hér er búið til nýtt orð, það er talað um ágalla. Þetta sést m.a. í 5. gr. frv. Það er kannski rétt að vekja athygli á því að hér er ekki um að ræða sama hlutinn, hvort það er galli í kauparétti eða galli samkvæmt skaðsemisábyrgð. Það getur verið tvennt ólíkt.
    Hæstv. forseti. Ég vildi við 1. umr. koma þessum athugasemdum að og fá kannski aðeins nánari skýringar hjá hæstv. viðskrh.