Flm. (Jón Sæmundur Sigurjónsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum.
    Eins og kunnugt er hefur þróun lífeyrissjóða á Íslandi verið með afar misjöfnum hætti. Með tíð og tíma hafa orðið til yfir 90 lífeyrissjóðir stofnaðir á mismunandi tímum með mismunandi reglugerðum og mismunandi fjárhagsgetu. Niðurstaðan fyrir bótaþegann eru svo mismunandi bætur jafnvel þótt greiddar séu sömu upphæðir í iðgjöld um jafnlangt æviskeið. Það er því augljóst að ekkert jafnrétti ríkir fyrir þegna þessa lands í lífeyrismálum. Vegna þess að aðild að lífeyrissjóðnum er háð starfi og stéttarfélagsaðild á maður á ellilífeyrisaldri það undir tilviljun æviferils síns, en ekki undir heildargreiðslum sínum í einstaka lífeyrissjóði, hverra tekna hann nýtur um ævikvöldið. Þetta eru augljós sannindi sem hafa leitt til þess að krafan um einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn, sem mundi bæta úr öllum þessum ágöllum, hefur hvað eftir annað komið fram. Þar mundu allir búa við sama rétt eins og stjórnarskráin mælir fyrir um að Íslendingar skuli gera.
    Það hefur reynst með eindæmum erfitt að losna úr viðjum ríkjandi lífeyriskerfis. Frv. endurskoðunarnefndar lífeyrissjóðakerfis, sem tók um áratug að semja og fjmrh. hefur nú einmitt á þessum dögum flutt á þessu
þingi, er nú loksins komið fram. Það frv., ef yrði að lögum, mundi bæta stórlega úr ágöllum núverandi kerfis þó að það leiddi ekki til þess fyrirkomulags sem flm. teldi skynsamlegast í lífeyrismálum, en það er eitt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn sem væri byggt á svokölluðu gegnumstreymiskerfi.
    Verstu ágallar núverandi kerfis og einnig samkvæmt því fyrirkomulagi sem frv. fjmrh. gerir ráð fyrir, þ.e. frv. til laga um starfsemi lífeyrissjóða, er það að fólkið á ekkert val um það í hvaða lífeyrissjóði það lendir. Það er háð tilviljun starfsferils þess hvaða laun það hlýtur í ellinni því að hverjum og einum launamanni er gert að skyldu að vera í lífeyrissjóði stéttarfélags síns og verður hann þá að hlíta því, eins og hluta af sínum kjörum, að lífeyrissjóður hans sé öðruvísi en annarra. Í þessu felst töluvert ranglæti þegar menn eru í raun að kaupa sér þessi réttindi, að þeir fái ekki að ráða hvað þeir eru að kaupa. Hluti af þessu ranglæti er að launamanni er gert að slíta sinn iðgjaldaferil í sundur ef hann skiptir um starf og skipta um leið um lífeyrissjóð. Honum er gert að hefja nýjan feril þótt hann kæri sig ekkert um þessa röskun á högum sínum. Þetta hefur leitt til ýmissa vandræðamála og leiðinda í þjóðfélaginu sem auðvelt væri að komast hjá ef frelsi ríkti í þessum málum. Það er svo heldur ankannalegt að skylda launamenn til lífeyrisgreiðslna ef þeir hafa hafið töku lífeyris. Það er því lagt til að þeim launamönnum sem eru lífeyrisþegar sé ekki gert skylt að greiða á sama tíma iðgjöld til lífeyrissjóðs nema þeir kæri sig um

það.
    Frv. sem hér er lagt til hljóðar svona:
    ,,1. gr. Í stað 1. málsl. 2. gr. laganna komi þrír nýir málsl. svohljóðandi:
    Öllum launamönnum og þeim, sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, er rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði að eigin vali, enda starfi lífeyrissjóðurinn samkvæmt sérstökum lögum eða reglugerð sem staðfest hefur verið af fjmrn. Einungis lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps skal þó skylt að veita launamanni aðild að sjóðnum en engum lífeyrissjóði skal heimilt að segja launamanni upp aðild óski hann áframhaldandi aðildar þar þótt hann skipti um starf. Launamönnum, sem hafa hafið töku lífeyris, er ekki skylt að greiða iðgjöld í lífeyrissjóð.``
    Í 1. málsl. er lögð til sú breyting að launamanni sé ekki lengur gert skylt að vera í lífeyrissjóði starfsstéttar sinnar eða starfshóps heldur hafi hann rétt til að velja sér þann lífeyrissjóð þar sem hann telur hag sínum best borgið.
    Lögð er sú kvöð á lífeyrissjóð viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps skv. 2. málsl. að veita launamanni aðild, en öðrum sjóðum er það í sjálfsvald sett. Hugsanlegt væri að fella þetta ákvæði niður að einhverjum tíma liðnum. Þá er launamanni gefið frjálst val að vera áfram í sínum gamla lífeyrissjóði ef honum sýnist svo enda þótt hann skipti um starfsvettvang.
    ,,2. gr. Í stað orðanna ,,náð 75 ára aldri`` í 2. málsl. 5. gr. laganna komi: hafið töku lífeyris.``
    Þarna er gert ráð fyrir því að heimild til setningar reglugerðar um endurgreiðslur iðgjalda einskorðist ekki við þá sem hafa náð 75 ára aldri heldur verði víkkuð út þannig að hún nái til allra lífeyrisþega. Þetta beinist að því að menn sem eru komnir á lífeyrisaldur þurfi ekki lengur að greiða iðgjöld heldur þiggi lífeyri frá sínum lífeyrissjóði, án þess að liggja undir lífeyrisiðgjaldakvöð, sem virðist eðlilegt.
    Að lokinni þessari umræðu vildi ég leggja til, virðulegur forseti, að málinu verði vísað til fjh.- og viðskn. og 2. umr.