Tekjuskattur og eignarskattur
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Fyrr á þessu þingi mælti ég fyrir þeim breytingum sem gerðar voru varðandi húsnæðisbætur og vaxtabætur í frv. til laga um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt. Eins og kom fram í ummælum mínum þá, fyrr á þessu þingi, fólu þessar breytingar í sér að réttindi þessara hópa voru að ýmsu leyti aukin með því m.a. að afnema þær tímatakmarkanir sem höfðu verið í gildi áður. Það var mat okkar þá að þegar á heildina væri litið ykju þessar breytingar réttindastöðu þeirra einstaklinga sem þessara ákvæða höfðu notið og ég er því ekki þeirrar skoðunar, sem fram kemur í greinargerð með 432. máli, að með þessum breytingum hafi verið um afturvirka íþyngingu að ræða sem lýsi siðleysi stjórnvalda og virðingarleysi í garð skattþega.
    Það er auðvitað mjög algengt að í skattalögum eru menn að breyta stöðu einstaklinga og hópa, rekstraraðila og fjölskyldna, og gera það þá á þann veg að réttindi eða möguleikar sem menn höfðu áður eru lagðir af og í staðinn koma önnur réttindi og aðrir möguleikar. Og það getur auðvitað verið þannig, eins og algengt er með skattalög, að það komi fram sem einhver íþynging gagnvart hluta skattþega en sem bót fjárhagsstöðu og réttinda fyrir aðra.
    Mér finnst sú túlkun á hugtakinu ,,afturvirkni skattalaga`` sem fram kemur í frv. þess vegna vera óeðlileg og hún er ekki í samræmi, fljótt á litið, við hinn venjubundna skilning sem hefur verið lagður í hugtakið afturvirkni skattalaga. Ég held að það sé dálítið hæpið almennt séð og til frambúðar ef vilji þingsins stendur til þess að fara að þrengja hugtakið afturvirkni skattalaga með þeim hætti sem gert er í þessu frv. vegna þess að þá er orðið stutt í að það verði túlkað á þann veg að ekki megi breyta í neinu réttindum þeirra sem töldu sig hafa þau um ókomna framtíð þegar þau voru sett á. Það er auðvitað allt annar hlutur en að túlka afturvirknina á þann veg sem gert hefur verið til þessa, að hún feli í sér að verið sé að breyta sköttum sem viðkomandi taldi að þegar væru á lagðir á greiðsluári eða álagningarári þeirra.
    Varðandi vaxtabæturnar og húsnæðisbæturnar var hins vegar verið að ræða ákvæði sem giltu yfir lengri tíma hjá viðkomandi einstaklingum eða hópum og eðlilegt og í samræmi við mörg önnur fordæmi í íslenskum skattalögum að breyta samsetningu þeirra réttinda yfir lengra tímabil. Það var það sem gert var með lagabreytingunni fyrr á þessu þingi, að á móti breytingum sem fólu í sér annars konar vægi kom lenging á tíma eða afnám þeirra tímatakmarkana sem áður giltu.
    Ég vona að þessi ummæli varpi nokkru ljósi á viðhorf mín til þeirra hugmynda og röksemda sem fram koma í frv. en er auðvitað reiðubúinn að ræða það nánar annaðhvort nú eða við annað tækifæri.