Tekjuskattur og eignarskattur
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Flm. (Geir H. Haarde):
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir að sinna þessu kalli og koma hér til að ræða þetta mál með svo litlum fyrirvara sem raun ber vitni og taka hér þátt í umræðum. Hann hefði nú sennilega engu að síður betur haft meiri tíma til að kynna sér frv. því að ég hygg að hann hafi misskilið nokkuð það sem í því felst.
    Það sem hér er um að ræða er ekki ágreiningur um það að þeim réttindum sem áður fólust í húsnæðisbótum skyldi breytt í vaxtabætur fram í tímann. Um það var í raun og veru ekki ýkja mikill ágreiningur og hann kemur hvort eð er þessu frv. ekki við. Sú breyting er orðin staðreynd að þeir sem núna gera ráðstafanir til húsnæðiskaupa eiga ekki lengur rétt á húsnæðisbótum heldur geta þeir fengið vaxtabætur að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, og þar stendur hnífurinn í kúnni. Það eru eflaust einhverjir einstaklingar, án þess að ég viti hve margir, sem gerðu fjárhagslegar skluldbindingar vegna húsnæðiskaupa á árinu 1988 og fyrri hluta árs 1989 en uppfylla ekki skilyrði um vaxtabætur en töldu sig hins vegar á grundvelli þágildandi laga eiga rétt á húsnæðisbótum til sex ára. Það er því þetta sem ég á við hér í greinargerð sem afturvirka íþyngingu, að réttindi sem menn telja sig eiga þegar þeir gera ákveðnar ráðstafanir eru skyndilega frá þeim tekin og síðan undir hælinn lagt hvort þeir uppfylla skilyrði hinna nýju réttinda sem eru vaxtabæturnar. Og ég er ekkert einn um þá skoðun að þetta sé óeðlilegt. Ég hef rætt þetta við ýmsa sem eru sérfróðir um þessi mál sem eru mér fyllilega sammála. En eins og ég segi, þetta kemur því ekkert við hvað síðan tekur við almennt af húsnæðisbótum fyrir þá sem eru í þeirri stöðu að vera að afla sér húsnæðis. Það eru núna vaxtabætur ef menn uppfylla skilyrði þeirra.
    Það er líka misminni hjá ráðherra að þessum lögum hafi verið breytt á þessu þingi. Meginbreytingin sem hér er um að ræða varð með lögum nr. 79 frá því fyrir um það bil ári síðan sem birtust í Stjórnartíðindum 14. júní sl. og tóku gildi 15. nóv. í fyrra. Síðan var aftur um að ræða breytingu á lögunum í vetur, það er rétt hjá hæstv. ráðherra og þá var enn breytt annarri skilgreiningu sem 3. gr. frv. víkur að, þ.e. skilgreiningunni á vaxtagjöldum, en sú lagabreyting tók gildi í desember þar sem um var að ræða þrengingu á því hvað kalla mætti vaxtagjöld í skilningi skattalaga. Sú breyting var látin ná yfir allt árið þannig að menn sem höfðu gert ráðstafanir fyrr á árinu, fyrir desember, fyrir gildistöku laganna, gátu ekki séð það eða vitað að lögunum yrði síðan breytt með þessum afturvirka hætti sem ég vil kalla svo.
    Ég hef ekki hugsað mér að efna til mikilla umræðna um þetta mál við hæstv. ráðherra. Ég þakka honum fyrir þátttökuna í þessu og fyrir hreinskilnina, að treysta sér til þess að verja þessi sjónarmið sem hann hefur hér flutt og sem birtust náttúrlega í þeirri lagasetningu sem hann beitti sér fyrir á sínum tíma. Ég hefði talið að ef hann kynnti sér þetta rækilega

gæti hann sagt sem svo að eftir á að hyggja hefðu þetta verið ákveðin mistök vegna þess að ég hygg að hann hafi hugsað dæmið þannig að húsnæðisbæturnar yrðu leystar af hólmi af vaxtabótum gagnvart öllum. Staðreyndin er hins vegar sú að þarna er ákveðinn hópur fólks, sem ég veit ekki hversu stór er, sem lendir milli stafs og hurðar í þessu, taldi sig eiga rétt á húsnæðisbótum, fær síðan ekki vaxtabætur en er sviptur húsnæðisbótunum líka. Þetta geta verið fáir einstaklingar --- ég þekki það bara ekki --- en prinsippið er það sama, óháð því hve hópurinn er fjölmmennur. Ég beini því þess vegna til hæstv. ráðherra að hann athugi með sínum embættismönnum hvort ekki er ástæða til þess að gera breytingu, eins og hér er lagt til, bæði varðandi húsnæðisbæturnar og eins þessa skilgreiningu á vaxtagjöldum sem einnig er tilkomin með afturvirkum hætti.
    Ég skal síðan ekki orðlengja þetta, herra forseti, en ég mælist til þess, bæði við hæstv. ráðherra og formann fjh.- og viðskn., að þeir skoði þetta mál í fullri alvöru og kanni hvort ekki er ástæða til þess að gera hér breytingar á. Ég hef ástæðu til þess að ætla, herra forseti, að í skattkerfinu sjálfu séu hugmyndir á ferðinni svipaðar þeim sem ég er að leggja til með frv. Ég hygg að margir sérfróðir menn sem hafa litið á þessi mál séu sammála flutningsmönnum um að ástæða sé til að gera hér breytingar á enda, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, býst ég við að til málaferla geti komið vegna þessara atriða af hálfu fólks sem þarna á hagsmuna að gæta og taldi sig eiga réttindi sem af því eru tekin með þessum afturvirka hætti.